Ólöf Helga Pálsdóttir, þjálfari kvennaliðs Hauka í körfubolta, hefur beðist afsökunar á ummælum sem hún lét falla eftir að Haukar töpuðu gegn Keflavík í meistarar meistaranna leiknum sem fram fór á laugardaginn var. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Ólöfu sjálfri. Keflavík vann leikinn með sex stiga mun, 83-77, eftir að Haukar höfðu verið einu stigi yfir í hálfleik, 39-38.

Ólöf Helga var eðlilega frekar ósátt með tapið enda Haukar ríkjandi Íslandsmeistarar. Henni fannst dómarar leiksins leyfa full mikla hörku er hún rætti við RÚV eftir leik. Hún hefur nú beðist afsökunar á ummælum sínum en viðtalið við Ólöfu má sjá í spilaranum hér að ofan. Þá er yfirlýsing hennar í heild sinni hér að neðan.

Yfirlýsingar Ólafar Helgu

„Vegna ummæla minn eftir leik Hauka og Keflavíkur í Meistarar Meistarana vil ég biðja dómara leiksins innilega afsökunar og koma eftirfarandi orðum á framfæri: Það var ekki ætlun mín að saka dómara leiksins um svindl. Ég tók klaufalega til orða í hita augnabliksins og sé mjög mikið eftir því. Dómararnir höfðu engin áhrif á úrslit leiksins, heldur sinntu þeir sinni vinnu svo best þeir gátu og það var mjög ósanngjarnt af minni hálfu að draga heilindi þeirra í efa að leik loknum.“

„Það góða sem ég vil taka út úr þessum leik og eftirmálum er að ég gerði stór mistök í frumraun minni sem þjálfari í efstu deild og mun læra af þeim og vanda mig betur í framtíðinni. Vil ég einnig nota tækifærið og þakka dómurunum fyrir góð og uppbyggileg samskipti á meðan á leiknum stóð og eftir hann og vona að þetta upphlaup muni ekki hafa áhrif á okkar samstarf í framtíðinni.“

Haukar mæta KR í fyrstu umferð Dominos deildar kvenna á Ásvöllum á miðvikudaginn kemur klukkan 19:15. Á sama tíma mætast Keflavík og Stjarnan suður með sjó.