Fauna Hodel var gefin til ættleiðingar sem barn og þegar hún skoðar fortíð sína, átján ára gömul, leiðist hún á skuggalegar slóðir afa síns og morðsins á Svörtu dalíunni. Sjónvarpsþættirnir I Am the Night eru lítillega byggðir á þessari sönnu sögu en Áslaug Torfadóttir kynnti sér málið nánar.
Áslaug Torfadóttir skrifar:
LA Noir er afmarkaður kafli í noir-geiranum þar sem neonljós og Hollywood-draumar varpa gervibirtu sinni á hina hefðbundnu skugga noir-sins og spilltir undirheimar borgar englanna eru dregnir fram í dagsljósið. Rithöfundurinn James Ellroy er einn helsti talsmaður þessarar stefnu og hefur með bókum sínum á borð við LA Confidential og The Black Dahlia komið henni rækilega á kortið. Það er einmitt hið sanna sakamál Svörtu dalíunnar sem kemur óbeint við sögu í nýjustu miniseríu TNT, I Am the Night, sem nú er sýnd á Hulu og sækir grimmt í LA noir hefðina. Hrottalegt morðið á Elizabeth Short árið 1947 er enn óleyst og hefur getið af sér ótal samsæriskenningar um það hver gæti hafa verið morðinginn. Einn af hinum grunuðu var læknirinn George Hodel en I Am the Night segir ótrúlega sögu dótturdóttur hans Faunu Hodel.
Fauna Hodel var fædd árið 1951 en var umsvifalaust gefin til ættleiðingar, enda var móðir hennar Tamar ekki nema 16 ára gömul og ógift. Tamar, sem á sér sjálf ótrúlega sögu, var ekki eins og fólk er flest og vildi gefa barnið til svartra hjóna því hún trúði því að samfélag svartra í Bandaríkjunum væri æðra því hvíta. Fauna litla ólst því upp í afrísk-amerískri fjölskyldu í fátæku hverfi í Reno, Nevada og trúði því alla tíð að hún væri ein af þeim, þrátt fyrir ljóst hörund og blá augu. Fauna varð alla tíð fyrir aðkasti vegna þessa og leið aldrei eins og hún passaði inn meðal vina sinna og fjölskyldu. Þegar hún var orðin 18 ára komst hún loks að sannleikanum og hélt til Los Angeles í leit að blóðfjölskyldu sinni. En það má segja að hún hafi farið úr öskunni í eldinn því Hodel-fjölskyldan glímdi við ótal djöfla og stærstur af þeim var hinn ógurlegi George Hodel sem virðist hafa verið illskan holdi klædd, hvort sem hann kom nálægt morðinu á Svörtu dalíunni eða ekki. Fauna gaf seinna út bók um reynslu sína, One Day She’ll Darken, sem þættirnir I Am the Night byggjast á, að minnsta kosti lauslega.
Leikstjórinn Patty Jenkins og eiginmaður hennar, handritshöfundurinn Sam Sheridan, höfðu lengi verið að leita leiða til þess að koma sögu Fauna á skjáinn. Það var ekki fyrr en Jenkins hitti leikarann Chris Pine þegar þau unnu saman að ofurhetjumyndinni Wonder Woman að síðasta púslið small á sinn stað og hlutirnir fóru að gerast. Pine er bæði meðframleiðandi og leikur aðal-karlhlutverkið í þáttunum, hinn uppskáldaða blaðasnáp Jay Singletery. Sheridan skrifar alla þættina og Jenkins leikstýrir tveimur. Það er svo hin unga leikkona India Eisley sem túlkar Fauna. Tónn þáttanna er gríðarlega áhugaverður og sveiflast hratt á milli þess að vera eins og Bónus-Ellroy sem tekur sig mjög alvarlega og yfir í það að minna á klaufahúmor Shane Black í myndum eins og Kiss Kiss Bang Bang og The Nice Guys. Snúningurinn þarna á milli getur oft verið of skarpur og hreint út sagt furðulegur díalógur Sheridan fær áhorfendur til þess að velta því fyrir sér hvort hann sé svona arfaslakur höfundur eða kannski snillingur.
En það er hins vegar alveg á hreinu að Chris Pine hefur sjaldan skemmt sér betur. Hollywood-stjörnuútlit hans er falið undir skít, skrámum og öðrum sárum sem bætist bara á eftir því sem líður á seríuna. Jay Singletery er engin hetja þó hann reyni endrum og sinnum að gera það sem er rétt en ekki bara það sem kemur sér best fyrir hann. Hann þjáist af áfallastreituröskun síðan úr Kóreustríðinu, alkahólisma og fífldirfsku sem kemur honum sífellt í vandræði. Pine rífur í sig hlutverkið og fær furðulegustu línur Sheridan til þess að hljóma eins og eitthvað sem fólk gæti sagt í alvöru. Pine hefur verið að skapa sér áhugaverðan stað í Hollywood undanfarið, fjarri þeim hjartaknúsarahlutverkum sem hann sat fastur í fyrst og það er greinilegt að hann er til í allt og lætur hégómann ekki stoppa sig.
India Eisley kemur hins vegar ekki jafn vel út úr seríunni. Eisley er tiltölulega ný í bransanum og reynsluleysi hennar skín í gegn í erfiðu hlutverki Faunu Hodel. Hún gerir lítið annað en að horfa skilningsvana á það sem er að gerast í kringum hana og hefur af einhverjum ástæðum valið að tala með Suðurríkjahreim sem á alls ekki við. Það er helst í lok þáttaraðarinnar sem Fauna finnur rödd sína og Eisley lifnar við á skjánum. En það er ekki eingöngu við leikkonuna að sakast. Það verður fljótt augljóst að aðstandendur I Am the Night hafa mun meiri áhuga á mysteríunni í kringum George Hodel og hans meintu, og ómeintu, glæpi, en blæbrigðaríkri sögu stúlkunnar sem var alls staðar utanveltu og varpar ljósi á flókin samskipti kynþátta í Bandaríkjum sjöunda áratugarins. Þetta þarf ekki endilega að vera galli, George Hodel er vissulega safaríkur karakter og það er alltaf gaman að velta sér aðeins upp úr ræsinu eins og la noir-geiranum einum er lagið. Spurningin er bara hvort áhorfendur og Fauna Hodel sjálf séu ekki svikin af því að nota sögu hennar sem útgangspunkt, sérstaklega þar sem þættirnir fara mjög frjálslega með staðreyndir og þeir áhorfendur sem þekkja ekki söguna eiga erfitt með að skilja sannleikann frá skáldskapnum.
I Am the Night eru svo sannarlega með áhugaverðari þáttum ársins þó ekki sé beint hægt að flokka þá með þeim bestu. En fyrir aðdáendur Svörtu dalíunnar, la noir eða bara vel útlítandi períóduþátta þá eru þeir alveg þess virði að kíkja á. Fyrir þá sem eru forvitnari um raunverulega sögu Fauna og Hodel-fjölskyldunnar allrar er hægt að benda á hlaðvarpið Root of Evil þar sem dætur Fauna draga öll myrkustu leyndarmál fjölskyldunnar fram í dagsljósið. Svo er bara að vona að einhvern daginn verði gerður sjónvarpsþáttur úr þeirri sögu enda sannleikurinn oft ótrúlegri en skáldskapurinn.