Sérfræðingur í alþjóðastjórnmálum telur ólíklegt að samkomulag náist milli mótmælenda og yfirvalda í Hong Kong á næstunni. Hörð átök hafa geisað í borginni í dag.
Mótmælin hafa staðið yfir í marga mánuði. Í dag notaði lögregla í fyrsta sinn skotvopn á mótmælendur en áður hafði hún beitt gúmmíkúlum. Helgi Steinar Gunnlaugsson, sem hefur búið bæði í Kína og Hong Kong, telur ólíklegt að samkomulag náist bráð. Bæði mótmælendur og stjórnvöld líti svo á að þetta sé barátta upp á líf og dauða. „Ríkisstjórn Kína gerir sér fulla grein fyrir því að lögmæti stjórnvalda í Peking snýst náttúrulega fyrst og fremst um efnahagsgróða og efnahagsgróði verður nánast enginn ef það er ekki stöðugleiki.“
Helgi segir að ástandið virðist nálgast suðupunkt. „Kínverska ríkisstjórnin hefur núna tvöfaldað herlið sitt í Hong Kong, upp í 12 þúsund hermenn. Og ríkisstjórnin í Kína er að fagna í dag 70 ára afmælinu sínu og þetta er náttúrulega rosalega mikilvægt fyrir þá fyrir ímynd landsins. Þetta snýst voða mikið um ímynd.“
Útkoma sem enginn vill sjá
En er líklegt að kínverski herinn skipti sér af með beinum hætti? „Með allar þessar aðstæður og allt sem er í gangi núna þá gæti það mögulega verið lógísk útkoma. En að sjálfsögðu náttúrulega útkoma sem enginn vill sjá,“ segir Helgi.
Hann telur fulla ástæðu til þess að Íslendingar hafi áhyggjur af stöðu mála. „Ekki bara hér heldur allur heimurinn. Við erum náttúrulega ekki að tala um þjóð sem hefur kannski lítið umsvif. Kína er næst stærsta hagkerfi í heimi. Ef það gæti orðið einhver blóðug útkoma þarna í Hong Kong þá myndi það líka vissulega hafa mikil áhrif á efnahaginn í Kína og þar með efnahaginn um heim allan.