Uppgangur popúlisma í Evrópu er mjög kröftugur en stærstu þjóðernisflokkunum tekst líklega aldrei að vinna vel saman, segir pólskur stjórnmálafræðingur. Í Póllandi nái popúlistar langbest til þeirra verst settu.
Mikolaj Cześnik hélt erindi í Háskóla Íslands í dag um uppgang popúlisma í Póllandi og um alla Evrópu. Hann er dósent í stjórnmálafræði við SWPS háskólann í Varsjá og hefur rannsakað popúlisma og uppgang hans í Póllandi síðustu ár. Hann segir að rótgrónu flokkunum í Evrópu hafi ekki tekist að fylgja þróun stjórnmála síðustu ára, og misst stóran hluta kjósenda sem verði erfitt að ná til baka. „Þeir vilja ekki hlýða á stjórnmálamenn ræða í klukkustund um hve snúið og flókið það sé að leysa vandann. Þeir vilja, og það er alveg skiljanlegt út frá sálfræðinni; við viljum einföld svör við flóknum spurningum og popúlistarnir veita þau,“ segir Mikolaj.
„Hafa fundið greiða leið að huga pólskra kjósenda“
Popúlismi er ekki nýr af nálinni og hefur yfirleitt sprottið úr efnahagsþrengingum. Þá kemur fram andúð gegn valdahópum í samfélaginu sem búi vel á kostnað þeirra verr settu. Það eru sjaldnast efnahagsþrengingar sem næra popúlisma í Evrópu í dag en hugmyndafræðin um baráttu í þágu almennings gegn valdahópum lifir góðu lífi, bæði í Póllandi en einnig í flest öllum Evrópuríkjunum. Þjóðernissinnar í stjórnarflokknum Lögum og réttlæti komust til valda í Póllandi 2015. Síðan þá hefur efnahagur landsins blómstrað, en áhersla á mannréttindi, loftslagsmál og Evrópusamvinnu er að engu orðin. Lög og réttlæti var stofnaður 2001 sem hefðbundinn miðjuflokkur, sem svipaði til kristilegra demókrata í nágrannaríkjunum. Stefna flokksins breyttist mikið á árunum 2010 og 2011, og þá fór að bera á stefnumálum sem einkenna flokkinn í dag. „Þeir hafa fundið greiða leið að huga pólskra kjósenda, einkum þeim sem hafa minni menntun og lakari fjárráð. Þeim sem sagðir eru hafa lotið í lægra haldi fyrir umbreytingunni og fyrir alþjóðavæðingunni,“ segir Mikolaj.
Afgerandi hópur sem getur staðið í veginum
Popúlistar unnu víða stórsigra í Evrópuþingskosningunum, og Matteo Salvini á Ítalíu freistar þess nú að mynda bandalag popúlista á Ítalíu, Frakklandi, Bretlandi, Ungverjalandi og Póllandi. Steve Bannon, fyrrverandi ráðgjafi Trumps Bandaríkjaforseta, er líklega sá sem talað hefur einna mest fyrir slíkri hreyfingu er bjartsýnn á að það takist. „Það sem nú kemur í ljós, hvort sem þessi ofureflishópur nær nú saman, er að nú höfum við þessar sjálfstæðishreyfingar og þar fær hver að ráða sínu. Vissulega er þana afgerandi hópur sem getur staðið í veginum,“ segir Bannon. Þar vísar hann til Evrópuþingsins og starfsemi þess á komandi misserum. Flestir eru sammála um að popúlistum takist ekki að mynda þetta sterka bandalag sem talað er um en þeir eiga mjög líklega eftir að hafa töluverð áhrif. Mikolaj segir að popúlistar og þjóðernissinnar líti fyrst og fremst á eigin hagsmuni og eigi því erfitt með að taka þátt í samvinnu, sér í lagi þvert á landamæri. „Við eigum eftir að sjá mörg hagsmunabandalög en ég á ekki von á því að mjög stórir og öflugir hópar verði til á Evrópuþinginu því spennan milli popúlistanna og þjóðernisflokkanna er of mikil.“