Marguerite Duras leitar aftur í seinni heimstyrjöldina í verkinu Sársaukinn. Verkið leikur sér með landamærin á milli skáldskapar og veruleika og er unnið upp úr gömlum dagbókarfærslum höfundar. Arndís Hrönn Egilsdóttir fjallar um verkið og skáldkonuna í þriðja og síðasta pistlinum sínum um skáldkonuna.


Arndís Hrönn Egilsdóttir skrifar:

Þú sem sagðir mér frá henni 
Henni sem þóknaðist þér 
Þú sem talar við mig um hana 
Um nafn hennar sem er gleymt 
Um líkama hennar um líkama minn 
Um þessa ást þarna  
Um þessa dauðu ást 

Franska leikkonan Jeanne Moreau söng ljóð Marguarite Duras, India Song úr samnefndri kvikmynd. En Jeanne Moreau lék einmitt skáldkonuna í franskri bíómynd frá 2001, Cet amour la eða Þessi ást þarna, sem fjallar um ástarsamband sem hún átti í á efri árum með mun yngri manni. 

Gyðingum og kommúnistum var bannað að skrifa bækur

Marguerite Duras leitar aftur í seinni heimstyrjöldina í verkinu sem ætlunin er að fjalla um í þessum síðasta pistli um þessa merku skáldkonu. Verkið heitir La douleur eða Sársaukinn eða Þjáningin eins og mætti þýða það á íslensku og er að hluta til sjálfsævisaga að hluta til skáldskapur. Verkið sem leikur sér með landamærin á milli skáldskapar og veruleika kom fyrst út í Frakklandi 1985 og vann höfundur verkið  upp úr gömlum dagbókum sem hún hafði skrifað á stríðsárunum og fann mörgum áratugum síðar. Verkið er samsafn af sex textum sem eiga það allir sameiginlegt að  fjalla á einhvern hátt um hernám Nasista í Frakklandi þegar Þjóðverjar réðust inn í Frakkland sumarið 1940.

Fjölmargar spurningar koma upp í hugann við lestur verksins. Hvernig skrifar maður um stríð þegar maður er sjálfur staddur í því? Hvernig lýsir maður öllu umrótinu? Þetta voru umbreytingatímar. Heimurinn breyttist og bókmenntirnar með. Enginn var samur. Heimstyrjöldin síðari var líka stríð hugmyndafræði, ólíkir menningarheimar, ólíkar hugsanir  tókust á. Frönsk hugsun var  undir ströngu eftirliti. Vichy stjórnin var með klærnar úti um allt. Gyðingum var bannað að skrifa bækur, kommúnistum líka og öðrum sem aðhylltust andgermanska hugsun að mati leppstjórnarinnar.  

Var tekin saman við vin eiginmannsins þegar hann sneri aftur

Í verkinu La Douleur lýsir Duras heimkomu eiginmanns síns Robert Antelme úr fangabúðum nasista í Dachau og biðinni eftir honum.  Antelme var rithöfundur en þau giftust í upphafi styrjaldarinnar árið 1939. Hann var síðan handtekinn af Þjóðverjum  og fluttur til Dachau. Þegar hann snéri aftur úr fangabúðunum árið 1945 þá var Duras komin í  samband við vin hans, Dionys Mascolo. Þau giftust síðar og eignuðust einn son sem var nefndur Jean. Duras var virk í andspyrnuhreyfingunni en hún  gekk til liðs við hana árið 1943 og þar kynntist hún m.a. Francois Mitterand. Með þeim tókst vinátta sem entist allt til dauðadags. Robert Antelme er persónan Robert  L. í verkinu en bókstafurinn D er látinn nægja sem tákn fyrir Dionys Mascolo.  

Þetta er verk um þjáningu og ást, sorg og sektarkennd. Dauðann og biðina eftir dauðanum. Biðin er eitt af meginþemum verksins og Duras lýsir í verkinu sársaukanum sem fylgir biðinni eftir Robert L. en um leið er hún þjökuð af samviskubiti þar sem hún elskar annan mann. Sögumaður er á hringsóli um þjáninguna.  

Sársaukinn það mikilvægasta sem hún skrifaði

Sársaukinn er grunnstefið. Sársaukinn yfir því sem er að gerast í kringum hana; atburðunum sem hún er að upplifa og sársaukinn yfir sjálfri sér. Hún upplifir sársaukann  sem veigamesta þáttinn í lífi sínu.  Hann nær að smeygja sér inn allstaðar. Eins og kóngulóarvefur. Hann litar allt.  Duras hlífir ekki sjálfri sér í lýsingum í textanum, hún talar mjög opinskátt um hugleysi sitt. Í inngangi verksins segist hún ekkert muna eftir að hafa skrifað dagbókafærslurnar. Hún gengst þó við skrifunum; veit að hún hefur skrifað textann; þekkir skriftina. Hún á líka minningar um staðina sem hún skrifar um í textanum, hún man eftir að hafa þrætt göturnar sem hún lýsir, man eftir að hafa beðið á brautarpallinum á Orsay lestarstöðinni í París. Hún spyr sig hvernig hún hefur getað lokað þennan texta ofan í skúffu í fjóra áratugi og skrifin vekja hjá henni skelfingu. Hún segir La douleur vera það mikilvægasta sem hún hefur nokkurn tíma skrifað. Hún segir reyndar hugtakið skriftir í raun ekki eiga við. Segist í verkinu hafa upplifað sig andspænis einstæðum glundroða hugsunar og tilfinninga sem hún hafi ekki þorað að snerta á. Hún hafi horfst á við hluti sem hafi fengið hana til að hafa skömm á bókmenntum. 

Sektarkenndin í hyldjúpri gröf

Þetta segir hún í lok ferils síns sem rithöfundar. Lífið er sem sagt stærra en listin. Hún skoðar líf sitt með gleraugum hinnar þroskuðu konu sem hefur lifað sitt. Verkið er saga hugleiðinga um hana sjálfa andspænis hryllilegum atburðum og þarna nær hún að greina atburði fortíðarinnar út frá sjónarhorni augnabliksins. Hún íhugar baráttu lífs og dauða og hugleiðir hvernig hún varð að þeirri konu sem hún er. Það er ef til vill hægt að segja að það sem verkið fjalli um sé manneskjan andspænis dauðanum í eiginlegri og óeiginlegri merkingu. Fjalli um rofið, rof við aðrar manneskjur og rof við sjálfan sig. Rof menningar og ástar. Tengslaleysi og minnisleysi.

Höfundur er að kanna áhrif stríðs á sjálfsmynd. Um óttann sem getur þurrkað út manneskjur. Um hvernig má búa til óhamingju og hvernig maður getur gleymt sjálfum sér og afnám manneskjunnar bæði í heiminum og með sjálfri sér. Um vanmátt mannkyns og einstaklings. Um baráttu góðs og ills.  Og um vanmátt okkar til að elska aðrar manneskjur. Hvers virði er eitt líf? Duras endurupplifir dauða Robert L. fjölmörgum sinnum. Hún er alltaf að bíða eftir upplýsingum um hann. Hún sér hann fyrir sér ofan í hyldjúpri gröf. Svörtum skurði, með hálfopinn munninn.  

Endurfundir og skilnaður í einni sæng

Hún er alltaf að bíða eftir honum. Vissan um að hann sé dáinn kemur til hennar í hviðum. Hún drekkir sér í hryllingsmyndum. Hræðslan og sársaukinn yfirtaka allt. Vefja sig inn í vonina. Biðin afmyndar hana, beyglar sjálfsmyndina. Henni finnst hún hætta að vera til en ef hún hættir að vera til þá er heldur engin ástæða til að vera að bíða eftir Robert L.  Hún getur eins beðið eftir einhverjum öðrum. Og hver er hann svo sem þessi Robert ? Og hver er hún?

Loks þegar hún fær fréttir um að hann geti verið lifandi deyr eitthvað innra með henni. Þegar hann kemur reynir hún að fjarlægjast hann. Vill skilja við hann. Getur ekki horft á hann. Endurfundir og skilnaður í einni sæng.  Hann er kominn en samt ekki, ókunnugur en samt ekki. Með líkama á mörkum lífs og dauða. Er hann maðurinn hennar eða er hann draugur? Hann hefur komist lífs af en er samt nær dauða en lífi. Myrkrið  þyrmir yfir hana. Er henni blindandi afl.  

Dauðinn endurlífgar dauða ást

Henni verður tíðrætt um hugleysi sitt í verkinu. “Ég hef aldrei hitt huglausari konu en mig” skrifar hún.  Hún sekkur í djúpt þunglyndi, snýst endalaust í kringum þjáninguna sem virðist engan enda ætla að taka. Þjáningu sem er sjálfri sér nóg.  Fræðikonan Julia Kristeva lýsir verkinu sem ævintýri milli lífs og dauða og hún segir Duras eða sögumanninn sýna söguna: „Líkt og innan frá innan úr endurvakinni ást sinni til hins deyjandi manns”.

Ástin sjálf er dauðvona en Robert L. berst af alefli við dauðann sem kemur að honum frá öllum hliðum.  En það þarf að sýna lipurð, mýkt og smartheit í samskiptum við þetta fyrirbæri. Dauðinn endurlífgar líka dauða ást. Robert L. má ekki borða því þá deyr hann en ef hann borðar ekki þá deyr hann líka. Allstaðar eru lokaðar dyr. 

Andvana fæðing í nunnuklaustri

Það sem Duras gerir með verkinu La Douleur, eða Sársaukanum, er að vefa saman stórbrotnasta tímabil tuttugustu aldar; helförina við persónulega sögu hennar sjálfrar.  

Hún heklar til að mynda saman sögu andspyrnuhreyfingarinnar við barnsmissi hennar sjálfrar sem hún minnist á eins og í framhjáhlaupi. Næstum eins og hún skammist sín. Þetta var barn hennar og Robert Antelme sem lést í fæðingu. Fæðingin er erfið. Varir í tuttugu tíma. Hún skellir skuldinni á stríðið. Læknar vitjuðu sjaldnast á nóttinni á stríðstímum skrifar hún. Það var ekki til nóg bensín og hún fær því ekki þá hjálp sem hún þarfnast. Barnið fæðist um miðja nótt á klíník í nunnuklaustri. Enginn grátur. Það deyr um leið og það fæðist.

Himnarnir hafa breytt um lit en ekki til hins betra. Allt er dimmt og drungalegt. Hún er uppfull af sektarkennd yfir að hafa ekki getað gefið þessu barni líf. Það hlýtur að vera eitthvað skemmt innra með henni. Dauðinn hefur sölsað undir sig lífið. Strokað það út. Afnumið það. Laure Adler sem hefur skrifað ævisögu Duras segir að dauði barnsins hafi sótt að henni allt lífið og komi upp á einhvern hátt í öllum hennar verkum.  Hún segir tilfinninguna að barnið hafi fæðst einungis til að deyja þó hún hafi gefið því allt lita lífsverk hennar. Hafi nært það með öllu sem hún átti til. Hugmyndin um að konan sé ekki fullkomnuð fyrr en hún er orðin móðir er sterk hjá Duras segir Adler. Líf án barns er ef til vill bara ókeypis miði í þunglyndishringekjuna.

Að hafna móðurhlutverkinu er að hafna konunni

Það vekur athygli að flestar kvenpersónur Duras eru mæður. Eins og áður hefur komið fram þá veltir Julia Kristeva fram áhugaverðum kenningum um ástina og þunglyndið og tengslin við listina í  Le Soleil Noir eða Svartri sól og þar fjallar einn kafli um verk Duras. Það er dálítið skemmtilegt að  Julia Kristeva á það sameiginlegt með Marguerite Duras að hafa gagnrýnt Simone de Beauvoir fyrir að hafna móðurhlutverkinu. Segir hana með því vera að hafna konunni. En Duras sagði eitt sinn í viðtali þar sem hún ásakaði Simone de Beauvoir fyrir að líta á barn sem hindrun:  

Konur verða að fá að lifa þessa einstæðu ást, þessa ástarbunu en um leið fast við sköpun sína og þroskast áfram sem manneskjur.  Að aðskilja konuna frá því að verða móðir er eins og að setja hana í sömu stöðu og karlmanninn, eins og að gera móðurhlutverkið að einhverju fræðilegu hugtaki, það verður abstrakt. 

Kristeva segir texta Duras vera dæmi um hinn þunglynda texta. Hinn þunglyndi texti, heldur Kristeva fram, hverfist stöðugt um sársauka sinn. Þetta er texti þar sem ekki er hægt að syrgja, segir Kristeva þar sem sorgin er læst inni í fangelsi þjáninganna. Henni finnst texti Duras vera heillaður af dauðanum. Hún lýsir þunglyndissjúklingi sem fangar tilfinninganna,  ekki það að orðræður hans séu svo tilfinningaríkar, heldur þvert á móti að  tilfinningin eigi ekki aðgang að máli hans. Það verði mónótónískt dautt og hljómlaust. 

Hrært í minningunum

Verk Duras fjalla vissulega oft á tíðum um sjálfshatur en eitt af því sem gerir þetta verk La Douleur eins merkilegt og raun ber vitni er að maður finnur að Duras er að raka saman þeim fræjum sem hún hefur sáð í lífinu. Fræ sem hafa orðið uppspretta að hennar skáldskap; að hennar kvenpersónum. Hún er að skoða sjálfa sig; hræra í minningum. Spegla sig í sjálfri sér eða kannski öllu heldur ganga í gegnum sinn eigin speglasal fullan af allskyns sjálfsmyndum. Kanna sársaukann og óttann í sjálfri sér sem hefur mótað þær kvenmyndir sem hún hefur búið til.