Skáldið og útgefandinn Valgerður Þóroddsdóttir spyr hvernig við getum orðið móttækilegri fyrir sögum kvenna, og fyrir kvenmannsröddum, í pistli sem fluttur var í Skáldatíma Rásar 1.
Heyrirðu í mér?
Sumarið 2013. Fullyrt var á forsíðu breska tímaritsins Port að hafin sé ný gullöld í útgáfu prentmiðla. Forsíða blaðsins var minímalísk, svart letur stafaði nöfnin á sex ritstjórum stærstu menningartímarita hinum vestræna heims. Fyrir miðju var skýr, svarthvít ljósmynd af sex hvítum karlmönnum.
Forsíðan vakti nokkra athygli á sínum tíma, þá sérstaklega hjá ákveðnum netmiðlum í Bandaríkjunum, þjálfuðum í feminískri gagnrýnni hugsun.
Fyrir mér og fleirum var myndin ákveðinn vandi uppmálaður: óþægilega raunsæ mynd af núverandi ástandi, mynd af mönnunum með lyklavöldin að öllum útgáfubransanum eins og hann leggur sig. Myndin minnti óþægilega mikið á einhvern raunveruleika sem var í mínu nánasta umhverfi.
Ég gat til dæmis ekki annað en hugsað um ljósmynd af stjórn Bókmenntahátíðar í Reykjavík þetta sama ár. Þar sátu níu manneskjur við borð—sjö karlmenn og tvær konur, en ein þeirra starfaði og starfar sem listrænn stjórnandi hátíðarinnar. Síðan þá hefur reyndar bæst við annar karlmaður í stjórnina, sem setur hlutfall kvenna í stjórn um 11 prósent.
Ég horfði lengi á þessa mynd og reyndi að ímynda mér réttlætingu á slíku hlutfalli. Er verið að horfa vísvitandi í hina áttina? Hefur fólk engan áhuga á að sjá þetta? Eða er þetta ómeðvituð, lærð hegðun?
Ég var 23ja ára þegar miðaldra ritstjóri menningartímaritsins sem ég skrifaði fyrir ýtti sér upp að mér og með heitum áfengisanda hvíslaði í eyrað á mér að konur hefðu ekkert erindi í ritstjórastólinn. Þær væru einfaldlega ekki jafnhæfir pennar og strákarnir.
Ári seinna rakst ég á ungan karlkyns rithöfund á bókmenntahátíð sem spurði mig retórískt hvers konar bækur ég væri aftur að gefa út — og glotti eins og hann væri að segja brandara þegar hann svo svaraði fyrir mig: bara ungar skáldkonur.
Þetta sama ár, heyrði ég Steinunni Stefánsdóttir, formann Kvenréttindafélags Íslands, segja í viðtali við Morgunútvarpið: „Að mörgu leyti er einhvern veginn átækilegra að berjast fyrir því að lög endurspegli jafnrétti. [...] En þegar kemur að hinu óátækilegra, þá verður þyngra fyrir fæti.“
Hvernig bendir maður eiginlega á ójafnrétti í heimi hugmynda? Hvernig er hægt að einangra og mæla það þegar raddir kvenna komast ekki að, eru ekki teknar alvarlega, eru jafnvel hunsaðar?
Hvað segir það um stöðu málsins þegar þjóðþekktir rithöfundar sitja við borð og virðast ekki taka eftir því að það eru átta sinnum fleiri karlkynsraddir við borðið og kvenkyns. Er það ekki fullkomin myndlíking fyrir vandann? Erum við ekki orðin örlítið heyrnalaus þegar við heyrum ekki lengur karlkynsraddirnar ráða ríkjum með jafn afgerandi hætti? Hvað segir það um stöðu málsins og hvaða skilaboð sendir það?
Enginn virðist kippa sér upp við það. Við sitjum bara við borðið og brosum í myndavélina.
—
Röddum kvenna þarf að fjölga, ekki fækka. En vandamálið er jafnvel flóknara en það. Eins mikið og við þurfum að fjölga röddunum, þurfum við líka að vera móttækilegri fyrir þeim. Jafnvel þegar raddir kvenna komast að, þegar þær heyrast í útvarpinu, þegar þær eru búnar að berja sig inn í karllægar stofnanir þrátt fyrir letjandi skilaboð frá sínu nánasta umhverfi og koma röddum sínum út, og í loftið, hversu mikla athygli veitum við þeim þá? Hversu vel erum við í raun að hlusta?
Fyrir tveimur vikum síðan birtist grein hjá tímaritinu GQ með titlinum „Nýja kanónan: 21 bók frá 21. öld sem allir karlmenn þurfa að lesa.“ Það kemur ykkur líklegast ekki á óvart að á þeim lista voru aðeins fjórar bækur eftir konur, eða aðeins minna en 20 prósent.
Margar kannanir hafa gert grein fyrir svipaðri þróun, það er að segja, að karlmenn lesa sjaldnar bækur eftir konur. Sömu kannanir benda til þess að á lestrarlista karla er einungis ein af hverjum tíu bókum sem lesnar eru eftir konur.
Í ár gaf Forlagið út bókina Íslensk kvæði þar sem Vigdís Finnbogadóttir valdi íslensk ljóð og vísur sem henni hefur þótt vænt um í gegnum tíðina. Í þeirri bók eru ljóð eftir 37 skáld , þar af þrjár konur.
En þá spyr ég þig, kæri hlustandi, hverjir eru þínir uppáhaldshöfundar? Bruce Springsteen var spurður þessarar spurningar af Sunday Book Review og hann nefndi 32 höfunda, tvær af þeim konur.
—
En spurningin um það hversu vel við erum að hlusta leiðir af sér ennþá lúmskari og flóknari spurningu um það hversu mikla athygli og virðingu við veitum sögum kvenna – hversu móttækileg við erum fyrir kvenkyns sjónarhorninu.
Margir þættir spila vissulega inn í. Þetta snertir og er snert af því hvernig við skilgreinum kanónuna – öndvegisrit bókmenntasögunnar – hvað við kjósum að kenna í skólum, hvaða bækur við kjósum að kaupa út í búð, hvernig við röðum þeim bókum upp í bókabúðum, hverja við kjósum að setja í kvæðasöfnin okkar, og hverja við bjóðum að sitja í stjórn bókmenntastofnana okkar. Allar þessar ákvarðanir hafa afleiðingar og sýna hvaða raddir við metum, verndum, hvetjum eða einfaldlega hrekjum burt. Telst það til að mynda eðlilegt að kvenkyns rithöfundar sem skrifa frá sjónarhorni kvenna þurfi að glíma við gjaldfellingu á þeirra listsköpun með tungutaki og markaðssetningu á borð við „chick-lit“ eða skvísubókmenntir? Orðið ætti ef til vill ekki að vera niðrandi, en er það óneitanlega. Eðlilegast væri nefnilega að bækur sem eru sagðar frá kvenkyns sjónarhorni séu lesnar af öllum. Er ekki annars pínu furðulegt að frægasta kvenkyns aðalpersóna í íslenskri bókmenntasögu hafi verið sköpuð af karli? Og að heilt forlag, sem leggur metnað sinn í að gefa út raddir kvenna, sé nefnd eftir þeirri persónu?
En þá að lúmskari spurningunni – hvað er hægt að gera í því að vera móttækilegri fyrir sögum kvenna, og fyrir kvenmannsröddum. Útlitið er dökkt. Það er ekki beinlínis eftirsóknarvert að koma skoðun sinni eða listsköpun á framfæri ef enginn tekur eftir henni. Og hvernig fær maður fólk til að hlusta ef það er búið að ákveða að hlusta ekki? Hvernig verðum við móttækileg fyrir röddum þeirra sem endurspegla ekki bara okkar núverandi sjónarmið? Sífelld upphafning á þessum sjónarhornum frá bókmenntastofnunum er staðreynd. Væri ekki réttara að upphefja fjölbreytni?
Vandamálið er margþætt og flókið en sumt af þessu er skýrt. Fyrirmyndir skipta sköpum. Það er einfaldlega ekki í boði að þykjast ekki sjá, að þykjast ekki heyra. Það er ekki hægt að fela sig bakvið neinar afsakanir lengur. Bókmenntastofnanir landsins bregðast yngri kynslóðum þegar þau huga ekki að jafnrétti í útgáfu, í hátíðum, í styrkveitingu. Fjölmiðlar bregðast þegar ekki er hugað að jafnrétti þegar kemur að umfjöllun um bókmenntir. Það er kannski hægt að vera fastur í gömlum vana, en gleymum ekki að fersk augu eru að horfa, og fersk eyru að hlusta. Öll hegðun út á við sendir þeim skilaboð um hversu mikið erindi þau hafa í þessum heimi.
Valgerður Þóroddsdóttir