Í Hönnunarsafni Íslands stendur yfir yfirlitssýning á verkum Sveins Kjarvals húsgagna- og innanhússhönnuðar. Guðmundur Steingrímsson dáist að handverkinu en hefur mögulega komið upp um hönnunargalla í þekktu húsgagni eftir Svein.
Á yfirlitssýningunni Það skal vanda sem lengi á að standa er sjónum beint að brautryðjendastarfi Sveins Kjarvals á sviði húsgagna- og innanhússhönnunar. Sveinn var afkastamikill hönnuður, hann kom að hönnun fjölmargra heimila á Íslandi og teiknaði einnig húsgögn eftir pöntunum.
Guðmundur Steingrímsson rithöfundur, Magnea Guðmundsdóttir arkitekt og Hannes Óli Ágústsson leikari ræddu um sýninguna í Lestarklefanum á Rás 1. Þannig vildi til að gestir þáttarins höfðu nokkra reynslu af því að brúka húsgögn Sveins.
Sveinn hannaði húsgögnin í sumarbústað fjölskyldu Guðmundar Steingrímssonar, sem amma hans og afi byggðu undir lok fimmta áratugar síðustu aldar. Þar á meðal er eitt af þekktari höfundarverkum Sveins, vinsæll ruggustóll sem margir kannast eflaust við.
Stólinn er einmitt að finna á yfirlitssýningunni og tók Guðmundur eftir því að sýningareintakið var laskað. „Ruggustóllinn [í sumarbústaðnum] er einmitt brotinn á sama stað og þessi ruggustóll á hönnunarsýningunni og búið að líma hann.“ Eins og það hafi ekki verið nógu mikil tilviljun þá greip Hannes Óli Ágústsson inn í: „Nákvæmlega sama heima hjá mér! Maður þarf alltaf að berja þetta inn.“
Það má því velta fyrir sér hvort ljóstrað hafi verið upp um innbyggðan galla í þessu þekkta húsgagni Sveins Kjarvals. Guðmundur Steingrímsson hefur unnið fyrir sér sem smiður og segir að önnur húsgögn hans hafi nú virst mjög rammgerð. „Mann langar að koma við þetta. Ég öfunda þá sem geta smíðað svona,“ segir hann. „Að smíða húsgögn er svo mikil nákvæmnisvinna. Að teikna þetta allt alveg upp, þetta er ákveðin hugleiðsla held ég.“