Orkuskiptin eiga ekki eftir að ganga eins greitt fyrir sig og boðað hefur verið nema farið verði af einurð og festu í innviðauppbyggingu, segir Sigurður H. Guðjónsson, formaður og framkvæmdastjóri Húseigendafélagsins. Hann segir stjórnvöld ekki hafa staðið sig í að styrkja innviðina. Það eigi við um lög um fjöleignahús og fleira. Menn verði að geta lagt í stæði og stungið rafbílum í samband.
Um síðustu áramót var sett á fót nefnd á vegum félagsmálaráðuneytisins sem átti að endurskoða fjölbýlishúsalögin meðal annars með tilliti til rafbíla og hleðslu þeirra. Nefndin átti að skila af sér 1. mars en Sigurður segir að málinu hafi verið slegið á frest. Hann viðurkennir að málið sé tímafrekt og tæknilega flókið en engu að síður þurfi að leysa úr því.
Sigurður sagði í samtali við Morgunútvarpið á Rás 2 að flestir rafbílaeigendur búi og muni búa í fjölbýlishúsum og þar hafi vandamálin hrannast upp og geti verið endalaus uppspretta deilna og samskiptavanda.
Hann segir að varða þurfi leiðina með lagabreytingu. „Þetta er mjög aðkallandi og brýnt og maður hefur séð alls konar reddingar og bráðabirgðalausnir. Leiðslur út um glugga og illdeilur og tortryggni. Menn slást um kapla og taka úr sambandi hver hjá öðrum vegna meints rafmagnsstuldar. Það er svona skeggöld og skálmöld í uppsiglingu. Mönnum þykir svakalega vænt um bílinn sinn, ekki síst rafbílinn og eru reiðubúnir að berjast fyrir hann,“ segir Sigurður.
Hann segir að í byggingarreglugerð sé séð við þessu í nýbyggingum en í eldri húsum sé þetta vandamál og skjóti sífellt oftar upp kollinum í bíla- og fasteignaviðskiptum. „Það er ekki gott að svona atriði stýri fasteignakaupum og bílakaupum,“ segir Sigurður.