Útlit er fyrir að metfjöldi sæki hér um vernd í þessum mánuði, líkt og í september. Það mæðir bæði á starfsfólki Útlendingastofnunar og á hælisleitendum. Sumir þeirra sofa á dýnum á gangi húsnæðis sem sýkt er af veggjalús og sumir búa í húsnæði þar sem hvorki eru borð né stólar. Nýja gistiskýlið að Krókhálsi er fullt og um 100 manns flakka á milli hótela.
Stefnir í nýtt met í október
Útlendingastofnun þjónustar nú um 430 einstaklinga á yfir 15 stöðum, þar af nokkrum hótelum.
„Það sem af er þessum mánuði þá hafa samkvæmt óstaðfestum tölum 125 sótt um. Í september tókum við á móti 176 einstaklingum þannig að það stefnir í enn einn metmánuðinn í fjölda umsókna.“
Segir Þorsteinn Gunnarsson, staðgengill forstjóra Útlendingastofnunar.
Tvö stór heimili voru nýlega tekin í gagnið. Í lok september var opnað úrræði fyrir 35 karlmenn við Skeggjagötu og í byrjun október var opnað gistiskýli fyrir karla í húsnæði gamla lögregluskólans við Krókháls. Þar eru nú 50 manns og allt fullt. Upphaflega stóð til að hýsa þar 75 manns, Þorsteinn segir að eigi það að ganga eftir þurfi að ráðast í breytingar á húsnæðinu.
„Það hefur alltaf verið skýrt að þarna er um neyðarráðstöfun að ræða og valið stendur á milli þess að fólk sé á götunni eða þarna, af tvennu illu er þetta skárri kosturinn.“
Segir Áshildur Linnet verkefnastjóri hjá Rauða krossinum.
Á Krókhálsi eru um níu manns í hverju herbergi, þeir gista á neyðarbeddum og einkarými hvers og eins er af skornum skammti. Þeir hafa þó aðgang að læstum skápum, þar sem þeir geta geymt mikilvæga muni og gögn sem lúta að hælismeðferðinni. Þá hafa þeir aðgengi að íþróttasal. Í síðustu viku brutust út slagsmál milli nokkurra íbúa og var lögregla kölluð á vettvang. Þorsteinn segir ljóst að í svo miklum þrengslum verði þráðurinn styttri. Áshildur segir menn leggja sig fram.
„Mér skilst á þeim sem við höfum rætt við og búa á Krókhálsi að menn séu að gera sitt besta til að láta sér lynda. Auðvitað væri þetta ekki auðvelt. Menn töluðu um að það jákvæða væri að þeir hefðu góðan aðgang að íþróttasal þarna.“
Segir Áshildur.
Horft til staðla um neyðarmiðstöðvar hvað varðar pláss, ekki dvalartíma
Um skýlið og það hversu þröngt er um hælisleitendurna gilda staðlar um neyðarmiðstöðvar, en lagt er upp með að fólk dvelji ekki lengur í slíkum miðstöðvum en í tvo til þrjá daga. Hælisleitendurnir dvelja þó lengur í miðstöðinni að Krókhálsi. Starfsleyfi gistiskýlisins gildir fram að áramótum. Áshildur segir að það liggi á að finna varanlega lausn.
„Meðal annars að stækka samningana við sveitarfélögin. Þau hafa burði til að gera betur. Við vonum að samningum ljúki brátt við Reykjavíkurborg, borgin taki fleiri og fólk fái þá aðstoð sem félagsþjónusta sveitarfélaganna býður upp á, þar er yfirleitt mjög vel hugsað um fólk.“
Reykjavíkurborg hefur samkvæmt þjónustusamningi skuldbundið sig til þess að þjónusta 100 hælisleitendur, þeir búa í leiguhúsnæði víða um borgina. Borgin á nú í viðræðum við Útlendingastofnun, stefnt er að því að hún taki að sér að þjónusta um hundrað til viðbótar.
Erfitt að koma nýju húsnæði í gagnið
Þá eru einhverjir í húsum sem stofnunin hefur tekið á leigu til að bregðast við ástandinu. Áshildur segir að erfitt geti reynst að finna húsnæði, hafi það ekki þegar verið skilgreint sem gistiheimili.
„Það þarf að fara í ákveðið skipulagsferli og margar reglur sem gilda um slíkt. Það hægir á, þannig að þó húsnæði finnist getur ferlið við að taka það í notkun tekið nokkrar vikur. Nokkrar vikur eru einmitt það sem enginn hefur akkúrat núna.“
Hvorki borð né stólar
Í húsi við Skeggjagötu er úrræði fyrir 35 karlmenn. Húsnæðið er ekki vaktað. Maður sem kvaðst vera yngri en 18 ára sagði í samtali við Stundina að eldri mennirnir í húsinu hefðu sýnt sér ógnandi tilburði. Þá sagði hann að í eldhúsinu væru hvorki stólar né borð og menn mötuðust á gólfinu. Samkvæmt heimildum Spegilsins hefur ekkert breyst.
„Við höfum gert athugasemd við þetta og skýringarnar sem við fengum voru þær að það væru ekki nógu margar hendur til að skrúfa saman öll þau borð og stóla sem þyrfti að skrúfa saman þessa dagana.“
Segir Áshildur. Þorsteinn segir að það geti tekið nokkra daga, jafnvel uppundir tvær vikur að koma nýju húsnæði í þokkalegt horf.
Áshildur segir Rauða krossinn reyna að sýna Útlendingastofnun skilning, Þau hafi þó lagt til að hælisleitendurnir fengju sjálfir að hjálpa til við standsetja bráðabirgðaheimilin.
Liggja á dýnum á ganginum
Þá yfir í Hafnarfjörð. Húsnæðið við Bæjarhraun var tekið í notkun um miðjan ágúst í fyrra. Þar búa nú um 75 manns. Á annarri hæðinni búa einstæðir karlmenn og á hinni barnafjölskyldur og í einhverjum tilvikum fylgdarlaus börn. Undanfarið hafa einhverjir þurft að gista á dýnum á göngunum vegna húsnæðisþrenginga stofnunarinnar. Þorsteinn hefur ekki tölur yfir hversu margir gista á göngunum nú.
Í síðustu viku greindi Fréttastofa frá því að fjölskylda frá Donetsk í Úkraínu, par með níu ára dreng, hefði flúið húsnæðið eftir tveggja mánaða búsetu þar vegna veggjalúsar. Bróðir konunnar, Igor Vynar, hefur búið hér á landi í tvö ár, og stundar íslenskunám í Háskóla Íslands. Hann lýsti stöðunni.
„Í þetta herbergi enginn getur sofið. Þetta er bara ógeðslegt að búa í þessum stað.“
Strax eftir að þau fluttu inn fóru þau að fá sár á hendur og fætur, þau leituðu læknis og hann sagði að hugsanlega væri einhver óværa í húsnæðinu og þörf á því að skipta um rúm. Veggjalúsin uppgötvaðist svo fyrir um hálfum mánuði. Þar sem ekki var brugðist við ástandinu brá fjölskyldan á það ráð að flytja inn í stúdentaíbúð Igors.
Það þarf að rýma húsið
Þorsteinn segir að stofnunin hafi fengið fagmenn til að greina umfang vandans. Niðurstaðan liggur fyrir. Það þarf að rýma húsnæðið í einhverja daga til að ráða niðurlögum óværunnar. Hann getur ekki sagt til um það hvenær húsnæðið verður rýmt, hugsanlega í byrjun næstu viku. Lúsin er um allt húsið og margir með bitsár eftir hana og kláða. Hann leggur áherslu á að engar sýkingar berist manna á milli með lúsinni. Þorsteinn segir að hælisleitendur geti leitað læknis. Þetta sé óþægilegt, lúsin sé þó ekki sýklaberi.
Allar eigur frystar í tvo sólarhringa
Til að drepa óværuna þarf að frysta eigur hælisleitenda í þar til gerðum gámum í tvo sólarhringa, í það minnsta alla vefnaðarvöru. Dýnum, sængum og öðru verður að öllum líkindum fargað. Svo verður húsnæðið sótthreinsað. Hælisleitendurnir munu þurfa að afklæðast og fara í ný föt sem Rauði krossinn útvegar.
„Sjálfboðaliðar okkar í fataflokkunarstöð hafa nú flokkað fatnað svo allir hafi til tveggja daga. Útlendingastofnun og innanríkisráðuneytið sjá um að útvega nýjan nærfatnað og sokka.“
Áshildur segir þá sem Rauði krossinn hefur rætt við sýna þessu mikinn skilning. Það sé óskemmtilegt að lenda í þessu en fólk vilji leggja ýmislegt á sig til að losna við óværuna.
Útlendingastofnun er nú að skoða hvernig koma megi í veg fyrir að veggjalús komi upp aftur. Í Noregi er farangur hælisleitenda frystur í tvo daga við komu, hugsanlega verður gripið til samskonar ráðstafana hér.
Fara sennilegast í Víðines tímabundið
Á meðan húsnæðið verður þrifið stendur til að hælisleitendurnir dvelji í Víðinesi á Kjalarnesi, þar sem áður var hjúkrunarheimili. Húsnæðið er afskekkt, tæpan kílómetra frá sorphaugi og um tveimur kílómetrum frá skotæfingasvæði. Áshildur segir þetta ekki ákjósanlegan dvalarstað til lengri tíma. Þetta sé þó bara tímabundið úrræði og húsnæðið í góðu standi, því ætti ekki að væsa um fólk. Húsnæðið er í eigu Reykjavíkurborgar. Vísir greindi frá því í sumar að borgarráð hefði samþykkt að verja 120 milljónum króna í endurbætur á því. Rætt hefði verið um að koma þar upp aðstöðu fyrir hælisleitendur, hugsanlega neyðarskýli sem yrði fyrsti eða annar viðkomustaður þeirra hér á landi. Útlendingastofnun gerði í síðustu viku samning við Reykjavíkurborg um að taka húsnæðið á leigu til að minnsta kosti tveggja mánaða. Þorsteinn segir að nú sé verið að taka húsnæðið út, það ætti að liggja fyrir á næstu dögum hvort það henti. Það yrði að hans sögn einungis notað á meðan Bæjarhraunið yrði hreinsað af lúsinni. Þá henti þetta ekki öllum, til dæmis ekki fólki með börn á skólaaldri. Finna þurfi önnur úrræði fyrir það.
Brýnt að finna lausn áður en Airwaves skellur á
Enn eru ótaldir um hundrað hælisleitendur sem gista á hótelum og gistiheimilum víðsvegar um borgina. Þeirra staða er erfið að mati Áshildar.
„Þau eru bæði langt frá starfsfólki sem á að þjónusta þau með daglegar þarfir og langt frá okkur. Þau þurfa líka oft að flytja á milli hótela, hótelin eru náttúrulega bara í útleigu og það er kannski laust í tvo, þrjá daga og svo þarf að flytja annað. Oftast er þetta fólk með börn. Þetta er bara erfitt og bráðum kemur Iceland Airwaves og þá fyllast öll hótel. Þá verður að vera búið að finna varanlegt úrræði.“
Áshildur segir ástandið óboðlegt, bæði þeim sem þiggja þjónustuna og þeim sem eiga að veita hana. Hún vonast til þess að skjót lausn finnist, strax í næsta mánuði.
„Þetta eru neyðarúrræði sem við erum að grípa til og markmiðið er að loka þeim eins fljótt og við getum. Við viljum helst að okkar úrræði séu af örlítið betri gæðum en þetta. Við getum ekki útilokað það, ef straumurinn heldur áfram með þessum hætti að við verðum að grípa til áframhaldandi úrræða eins og þessara eða jafnvel einhverra annarra.“
Segir Þorsteinn.