„Í gegnum alla plötuna ríkir þessi sífellda spenna. Átökin milli vonar og vonleysis. Skapa tveir einmanaleikar meiri einmanaleika eða getur þar myndast Guð?“ spyr Tómas Ævar Ólafsson nýjum í pistli þar sem hann fjallar um plötuna The Book of Traps and Lessons sem skáldið og tónlistarmaðurinn Kate Tempest sendi nýlega frá sér.


Tómas Ævar Ólafsson skrifar:

Það er fátt sem ertir mínar fínustu taugar jafnmikið og þegar nágranninn byrjar að bora í vegginn. Enginn fyrirvari, bara hreinskilið bor. Um daginn lék allt á reiðiskjálfi í íbúðinni minni og ég gat ekki hugsað heila hugsun til enda þannig að ég ákvað að flýja í sund. En eftir sund var þetta enn þá í gangi og þar af leiðandi tók ég til þess ráðs að setja á mig heyrnartól og reyna að drekkja þessum óhljóðum með hljóðum. Fyrst reyndi ég að setja á Debussy-plötu píanóleikarans Seong-Jin Cho. Plötu sem ég hef oft heyrt og gat því notað sem bakgrunnstónlist á meðan ég vann við tölvuna. En það gekk ekki. 

Píanóverk franska tónskáldsins Claude Debussy fara fram á ákveðið tóm. Þau þurfa þögult rými til að geta uppfyllt tilgang sinn, róað hlustanda eða gert hann forvitinn. En borun sem berst í gegnum heyrnartól róar engan og kveikir ekki forvitni. Til að drekkja bornum þarf greinilega háværari og jafnvel groddalegri tónlist sem gerir ekki ráð fyrir þögn. Kannski eitthvað þungarokk eða derringslegt rapp sem myndi passa við pirringinn sem borhljóðin kalla fram. Ég fór á forsíðu streymisveitu minnar og skoðaði nýjasta nýtt með það í huga að finna eitthvað hávært og þá rak augun í kunnuglegt nafn. 

Sundruð, týnd og aumkunarverð

Þann 14. júní síðastliðinn gaf breska skáldið og tónlistarmaðurinn Kate Tempest frá sér plötuna The Book of Traps and Lessons sem fylgir nokkuð rökrétt á eftir fyrri plötu hennar, Let Them Eat Chaos, en sú plata fór sigurför um heiminn árið 2016 og kom Kate meðal annars til Íslands það ár og spilaði á Airwaves-tónlistarhátíðinni. Let Them Eat Chaos sagði sögur sjö mismunandi einstaklinga sem búa við sömu götu í London en inn í sögur þeirra fléttaði Kate Tempest harðri gagnrýni á einstaklingshyggju, neyslumenningu og aðgerðarleysi okkar gagnvart kúgun. Platan endar til dæmis á orðunum „Goðsögn einstaklingsins hefur skilið okkur eftir sundruð, týnd og aumkunaverð,“ fylgt með ákalli skáldkonunnar til ástvina sinna um að vakna og leggja rækt við kærleikann.

Nýja plata Kate Tempest, The Book of Traps and Lessons, tekur upp þráðinn þar sem frá var horfið nema að núna er aðeins einn sögumaður. Hún byrjar á laginu Thirsty þar sem hún gerir grein fyrir sér auralausri á bar, þreyttri, hvílandi ennið á úlnliðum sínum. Inn í myndina kemur kona sem kveikir vonarneista með henni en um leið og hrifningin gerir vart við sig myndast spenna. Átök sem leggja línurnar fyrir plötuna. Sögumaður vill leyfa sér að verða ástfangin en hún vill samt ekki leggja sig að veði. Hún vill halda í skrápinn sinn, í yfirborðið sem glansar en er ofið úr vígtönnum og vímuefnum. Á plötunni heldur Tempest svo áfram að velta fyrir sér mögulegri opnun yfirborðsins og spyr hvort tveir samankramdir einmanaleikar skapi meiri einmanaleika líkt og þegar tvö svarthol rekast saman eða hvort ástarsambandið geti skapað Guð á milli tveggja sjálfa. Hún brýtur líka heilann um hvort orðasambandið „ég elska þig“ þýði í raun „ég fanga þig“? Út frá því heldur hún áfram að skoða tengslaleysi neyslusjálfa, vandamál nútímans og ræktun kærleikans. 

Í þessu lagi sem ber titilinn Brown Eyed Man fjallar Kate Tempest um sársauka annarra. Hún dregur upp mynd af lögregluofbeldi þar sem vinur hennar hefur verið handtekinn og hefur heldur betur fengið að kenna á því. Hún lýsir brúnum augum hans og hvernig hún finnur skjálfta óttans í handabandinu. En í brotinu sem hér hljómaði bindur hún enda á lagið með því að segjast vera komin af gef-mér-meira þjóðinni sem ruplar og rænir heiminn undir formerkjum frelsisins. Þjóðin sem skrímslavæðir aðra, drepur fyrir pening og lamar aðrar þjóðir, aftur allt undir formerkjum frelsis. 

Árás á hamingjuna sem vörumerki

Hún heldur svo áfram og gagnrýnir tengslaleysi nútímans í laginu All Humans Too Late. Tengslaleysi sem pólitísk hugmyndafræði okkar og tækni skapa. Hún gagnrýnir einangrunina sem skjáneysla veldur. Dregur upp mynd eftir mynd af innilokuðu fólki að spila ofbeldisfulla tölvuleiki, horfandi á klám, senda dauðahótanir á kommentakerfum o.s.frv. Fólki sem glatar mennsku sinni og gengst við þeirri hugmynd, og kennir börnum sínum, að lífið sé afköst og sjálfumgleði. Að lífið snúist um að vera dugleg og njóta. 

Ádeilan heldur áfram í laginu Hold Your Own þar sem Kate Tempest ræðst bókstaflega á hamingjuna sem vörumerki. Þar sem hún heldur því fram að ekkert sem við kaupum geti raunverulega veitt okkur fyllingu. Og að allir þessir draumar og fantasíur um rétta makann, rétta húsið og rétta bílinn séu einmitt fyrirbærin sem valda því að við upplifum alltaf skort þrátt fyrir að tikka í öll möguleg box. 

Það glittir í von

Þessi heimsmynd er kannski örlítið dapurleg en á plötunni er von. Mun meiri von en á fyrri plötum Kate Tempest. Í þessum þremur lögum sem ég hef minnst á gefur skáldkonan hlustanda sífellt ráð um hvernig megi rækta betri heim, innan þessa tómhyggjulega sem hún gagnrýnir. Hún bendir á að við erum öll eitt, við erum öll eins, sama hversu frábrugðin yfirborð okkar virðast vera. Minn sársauki er þinn sársauki. Í stað þess að leita að sífelldri útrás fyrir vanlíðan okkar leggur hún til að við hjálpumst að við að hlúa að hvert öðru, vera tilbúin að deila húsi okkar með öðrum og fara sparlega með þann mat sem enn er í boði. Hún hvetur hlustanda til að draga úr löngunum sínum, löngunum sem hagkerfið finnur upp, og hvíla frekar í sjálfum sér og finna þannig raunverulega fyllingu.

Í einsemdinni gæti leynst guð

Í gegnum alla plötuna ríkir þessi sífellda spenna. Átökin milli vonar og vonleysis. Skapa tveir einmanaleikar meiri einmanaleika eða getur þar myndast Guð? Getum við fundið eitthvað haldbært í öllu því bulli sem hversdeginum fylgir eða er þetta allt þvættingur? Bara nágranni sem borar og borar og borar og borar í vegginn. 

Á síðasta lagi plötunnar, og jafnframt því sterkasta að mínu mati, má heyra Kate Tempest kvarta yfir farsakenndum nútíma sem fastur er í augnablikinu, en finna von í andlitum annarra. Á okkar örvæntingarfyllstu stundum má finna svo mikinn frið í andlitum annarra segir hún. Líklega vegna þess að andlit okkar koma upp um okkur. Þau mynda mikilvæga samkennd. Samkennd sem skjárinn og textinn taka í burtu. Og það er líklega í andlitum annarra sem við getum fundið Guð í stað einmanaleikans.