Nichole Leigh Mosty, sem hafði frumkvæði að því að safna saman sögu erlendra kvenna á Íslandi í tengslum við metoo-byltinguna, segir að það hafi komið óvart hversu grófu ofbeldi hafi verið lýst í sumum þessara saga. „En ég hef líka starfað nógu lengi með erlendum konum á Íslandi til að vita af þessu misrétti og mismunun og það er meira en við fáum að heyra.“

Nichole ásamt Claudiu Wilson, lögmanni, og Tatjönu Latinovic, formanni innflytjendaráðs, voru gestir Kastljóss í kvöld en í dag voru birtar 34 sögur kvenna af erlendum uppruna í tengslum við #Metoo.

Tatjana sagði daginn í dag hafa verið annasaman og mikið um tilfinningar. Hún sagði það vonbrigði að sjá hversu lítið hefði breyst í þau fimmtán ár sem hún hefði starfað innan Samtaka kvenna af erlendum uppruna og talað máli þeirra. 

Claudia sagði að mismununin gegn konum af erlendum uppruna væri allt annars eðlis en birst hefði í öðrum metoo-hópum sem þær væru hluti af og tengdust þeirra vinnu. „Hér sjáum við ofbeldi vegna kynþáttar, rasisma og fordóma. Fólk er að verða fyrir vanvirðandi og ómannúðlegri meðferð. Þetta er ekki bara í vinnunni heldur líka heima. Og þeim finnst þær geta ekki leitað sér hjálpar neins staðar .“ Nichole sagði sögurnar lýsa kerfisbundinni mismunun á grundvelli kynþáttar og kynferðis til að halda konum niðri.

Tatjana sagði sögurnar ekki vera vandamál kvennanna heldur samfélagsins. „Þetta er bara öðruvísi vinkill á þessa umræðu sem hafa komið fram. Það er mikið að gerast, stjórnvöld eru að skipa starfshópa og annað slíkt en þessar raddir, raddir kvenna af erlendum uppruna, mega ekki gleymast.“

Hægt er að horfa á innslagið í Kastljósinu í heild sinni hér að ofan.