Stjórn VR hefur gefið Kviku banka fjóra daga til þess að koma í veg fyrir leiguhækkanir Almenna leigufélagsins. Annars ætlar VR að taka allt sitt fé úr eignastýringu hjá Kviku, ríflega fjóra milljarða króna. Formaður VR líkir framkomu félagsins við leigjendur við ofbeldi.

VR vísar í upplýsingar frá félagsmönnum sínum sem eru með leiguíbúð hjá Almenna leigufélaginu. Leigjendum séu settir afarkostir - að samþykkja tugþúsunda króna hækkun á leiguverði eða leigusamningi verði sagt upp. Þeir hafi einungis nokkra daga til þess að svara. 

„Við erum að sýna í verki að við stöndum með okkar félögum og okkar fólki á leigumarkaði með því að gefa Kviku banka jafn langan frest og þeir eru að gefa fólki til að svara afarkostum um mjög ósanngjarna og hækkaða leigu til að koma í veg fyrir þetta og bakka með þessar hækkanir og hækka ekki leigu umfram verðlag,“ segir Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR. Annars taki VR sjóði sína - sem eru um 4,2 milljarðar króna - úr stýringu hjá Kviku banka. Kvika hafi fjóra daga til þess að svara.  

En er VR stætt á að gera þetta? Má félagið hóta að fara burt með þetta fjármagn ef ekki verður orðið við þeirra kröfum? „Við getum geymt fjármuni félagsins hvar sem er og það er einmitt ábyrgðarhluti að geyma fjármunina þar sem við getum sagt að siðferðis sé gætt og hjá fjármálastofnunum sem vinna ekki beint gegn hagsmunum okkar félagsmanna.“

Kaup Kviku á GAMMA háð samþykki Samkeppniseftirlitsins

Kvika banki hefur samþykkt kaup á öllu hlutafé í GAMMA, sem stýrir sjóðnum sem á Almenna leigufélagið. Fjármálaeftirlitið hefur blessað kaupin en þau eru þó enn háð fyrirvörum um samþykki Samkeppniseftirlitsins og breska fjármálaeftirlitsins.

„Við erum alltaf að reyna að semja um kaup og kjör fyrir okkar félagsmenn sem standa undir kostnaðinum við að lifa og þetta hjálpar ekki til,“ segir Ragnar Þór, sem líkur framkomu Almenna leigufélagsins við ofbeldi. „Ég kalla það ofbeldi þegar fólki eru settir afarkostir, og einu valkostirnir í stöðunni fyrir margar af þessum fjölskyldum, sem eru jafnvel að missa síðustu ráðstöfunarkrónurnar, ef þær misstu þær þá ekki fyrir ári síðan þegar sömu hækkanir dundu yfir, þegar valkostirnir eru ekkert annað en bara húsnæðismissir eða bara enda á götunni.“

Ekki náðist í forsvarsmenn Kviku við vinnslu fréttarinnar.