„Ég kalla þessa svalir aldrei annað en plankann. Húsið er svona eins og stórt sjóræningjaskip og svo er hægt að ganga plankann, enda er þetta frekar heitt sæti sem ég sit í.“ Dagur B. Eggertsson ræddi við Gunnar Hansson og Guðrúnu Gunnars á Ráðhússvölunum í morgun.

Dagur var föstudagsgestur í Mannlega þættinum. Hann er fæddur í Ósló þar sem foreldrar hans voru við nám en þau fluttu í Árbæinn þegar hann var sjö ára. „Þannig ég er alla mína grunnskólagöngu í Árbænum, finnst ég ennþá vera það, stoltur Árbæingur.“ Hann byrjaði ári seinna en aðrir í skóla því hann hafði búið í Noregi og átti í fyrstu erfitt með lestur og stafsetningu. „En þessi tilfinning að vera eftir á, ég held það sé mikilvægt að hafa svona reynslu, því við verðum að muna að allir krakkahópar eru fjölbreyttir og skólinn þarf að láta öllum líða vel.“ Hins vegar hafi hann alltaf haft mikla raungreinafærni og verið farinn að reikna löngu fyrir skólagönguna.

„Ég var ofboðslega yfirbókað barn. Var í fótbolta og handbolta, stoltur Fylkismaður. Var líka í lúðrasveit Árbæjar og Breiðholts þar sem ég spilaði á þriðja trompet,“ segir Dagur sem flakkaði mikið milli hverfanna vegna þess að það var ekkert íþróttahús í Árbænum. „Ég var svona strætókrakki. Maður getur alveg svitnað yfir tilhugsuninni að 9-10 ára krakkar voru að skjóta sér milli bíla yfir Miklubrautina til að ná tólfunni eða 11-unni upp í Breiðholt.“

Parket fyrir fermingu

Mikið af barnafólki bjó í hverfinu á þessum tíma og margir voru lengi að koma sér upp húsum. „Andri Snær sagði að meðan foreldrar í öðrum hverfum voru að breiða fallega yfir börnin sín, þá heftuðu mæðurnar gluggaplastið í rammana í Árbænum, til að tryggja sæmilegt skjól þá nóttina.“ Sama hafi átt við á hans eigin heimili eftir að þau fluttu úr blokkaríbúð í Hraunbænum. „Fluttum í það fokhelt. Við stefndum að því að það væri komið parket áður en Vala systir myndi fermast, en hún var þriggja ára þá. Það tókst bara rétt svo.“

Leiðin í læknisfræðina var ekki augljós hjá Degi sem ákvað sig ekki fyrr en sumarið eftir stúdentspróf. „Ég sá í þessu starf sem sameinaði vísindaáhuga og samskipti við fólk. Í læknisfræðinni fann ég líka fag sem var nógu áhugavert og gefandi til að halda mér frá pólitík,“ segir hann kíminn. Á morgun er Menningarnótt og þá bjóða margir íbúar Þingholtanna gestum og gangandi upp á kaffi og vöfflur. Dagur og fjölskylda hans hafa um árabil staðið vöffluvaktina en urðu þó frá að hverfa í fyrra vegna veikinda Dags sem greindist með sjaldgæfan gigtarsjúkdóm. „En mér gengur vel núna, er á lyfjum sem halda einkennunum niðri. Með góðri hjálp hefði mér örugglega tekist að baka. En núna er ekki fært að húsinu mínu vegna framkvæmda,“ segir Dagur en við heimili hans á Óðinsgötu er eins og víðar í borginni búið að grafa upp götur vegna viðhalds á lögnum og öðru. „Segi ekki að þetta sé eins og á lögregluvettvangi, en nánast, það er plast fyrir aðalinnganginum þannig við förum inn í gegnum garðinn.“

Dagskrá í hverjum bakgarði

Dagur hefur hins vegar í nógu öðru að snúast á morgun en hann byrjar á því að ræsa 10 kílómetra hlaupið í Reykjavíkurmaraþoninu og setur svo Menningarnótt formlega á Hagatorgi sem hefur verið breytt í danssvið. Hann tekur svo á móti Blindrafélaginu í Ráðhúsinu klukkan 14 sem er heiðursgestur Menningarnætur í þetta skiptið. Þá er hann spenntur fyrir brauðtertukeppninni í Listasafni Reykjavíku, karókí á útitaflinu í Lækjarbrekku og öldruðum bílskúrshljómsveitum sem taka yfir Iðnó. „En svo er Menningarnótt þannig að það er ekki hægt að hafa yfirsýn. Maður getur bara treyst því að alls konar fólk, fyrirtæki og áhugahópar, eru með dagskrá í hverjum einasta bakgarði og öðru hverju húsi. Svo eru risatónleikar um kvöldið sem enda með Tónaflóði á Arnarhóli og endar svo á hinni ómissandi flugeldasýningu.“ Dagur vill að lokum hvetja alla til að kynna sér ferðir Strætó á Menningarnótt vegna þess að stórum hluta miðborgarinnar verður loka fyrir almennri umferð.

Guðrún Gunnarsdóttir og Gunnar Hansson ræddu við Dag B. Eggertsson í Mannlega þættinum.