Polkasveitin Geirfuglarnir skemmtu sér og gestum sínum á hlöðuballi í Havarí um síðustu helgi. Liðsmenn sveitarinnar segjast vera meira í því að syngja um sögufræga viðburði í Íslandssögunni þessa dagana en fyrir tuttugu árum þegar þeir sungu svo glatt „Byrjaðu í dag að elska“.
Síðustu helgi júlímánaðar buðu vertarnir í Havarí í Berufirði upp á húrrandi hlöðuball í sveitinni. Hljómsveitin Geirfuglarnir töfraði þá fram ólgandi polkaveislu sem virkaði sem öflug upplyfting fyrir gestina í þykkri Austfjarðaþokunni. Áður hafði reggísveitin Hjálmar, Jónas Sig, Mr. Silla og kabarettsýningin Búkalú meðal annars heimsótt Havarí. Hljómsveitin Geirfuglarnir hefur starfað saman frá því fyrir síðustu aldamót. Geirfuglarnir eru þekktir fyrir afgerandi góða stemningu þegar þeir stíga á stökk, vopnaðir harmonikku, mandólíni og öðrum hljóðfærum sem tálguð eru úr tréi.
„Við höfum reynt að semja lög um merkilega viðburði í Íslandssögunni og nýjasta lagið okkar er einmitt um einn gleðilegasta atburðinn í okkar sögu, nefnilega Kópavogsfundinn, þegar við afsöluðum okkur sjálfstæðinu,“ segir Þorkell Heiðarsson harmonikkuleikari Geirfuglanna. „Margir segja að það hafi hreinlega bjargað íslensku þjóðinni, þá fengum við tryggingu að hér kæmu bæði haustskip og vorskip með einhverjar vörur. Það er betra að fá mjöl, þó það sé myglað, heldur en ekkert mjöl.“ segir Þorkell. Halldór Gylfason félagi Þorkels bætir því við að fyrir austan tali fólk um mjél.
Halldór Gylfason er söngvari og einn helsti lagahöfundur Geirfuglanna og af sögunum að dæma skortir hann ekki ímyndunaraflið. „Hér rétt hjá er staður sem heitir Búðir, þar var sem sagt fyrsta mollið á Íslandi á miðöldum,“ upplýsir Halldór okkur. Þorkell bætir því við að þar hafi fyrsta kassakerfið verið tekið í notkun árið 1682. „Þetta var sem sagt torfmoll, alveg ótrúlegt. Þarna var tvö þúsund fermetra torfmoll, Hansakaupmaðurinn var með bás, danski kaupmaðurinn með sinn bás, þarna var harðfisksali og skreiðarsali og já fyrsta kassakerfið,“ segja þeir Halldór og Þorkell greinilega með sína Íslandssögu á hreinu.
„Það er kominn tími á að íslenskar hljómsveitir semji um landbúnað. Og líka að semja almennt um kerfi. Alls konar kerfi. Af því að við þurfum að gefa flóknari skilaboð. Frekar en að syngja „ég elska þig“, sem fólk hefur samið allt of mikið um í gegnum tíðina,“ segja þeir félagar sem einmitt bera ábyrgð á einu lífsseigu lagi um ástina, Byrjaðu í dag að elska sem kom út á samnefndri plötu þeirra frá árinu 1999. Nú einblína þeir Geirfuglar á að syngja um sögufræga viðburði og ýmis kerfi. „Einmitt, til dæmis landbúnaðarkerfið er einstaklega flókið. Það á heiður skilið fyrir afbragðs flækjustig. Við erum búnir að semja lag um landbúnaðarkerfið og næst er að gera lag um dómskerfið. Það er búið að taka okkur svo mikinn tíma að búa til þetta millidómsstig og loksins þegar við náum að klára það, þá er það fullkomnlega misheppnað,“ segja þeir Þorkell og Halldór og ljóst að von er á góðu frá Geirfuglum á næstunni.
Geirfuglar voru verulega áberandi í tónlistarlífinu á árum áður en einbeita sér að því í dag að búa sér til ferðalög og ævintýri í kringum sína dansleiki. Framundan er þó ný plata. „Við spiluðum alveg gríðarlega mikið á sínum tíma, þarna í kringum aldamótin. Vorum mjög aktífir, svo var þetta orðið of mikið. Ég vinn í leikhúsi og það að spila á balli eftir að koma af leiksviði, leika svo í barnaleikriti daginn eftir var orðið smá heví,“ segir Halldór Gylfason leikari. „Svo er einn meðlimur hljómsveitarinnar sem býr nú bara erlendis, það er svona ástæðan fyrir því að við spilum svo sjaldan,“ segja þeir Halldór og Þorkell. Þeir eru sannfærðir um að Geirfuglar hafi lagt góðan grunn að áhangendahópi á sínum tíma sem er afar tryggur hljómsveitinni enn þann dag í dag.