Í kvöld klukkan átta stendur tónlistarhópurinn Cauda collective fyrir tónleikum í Hafnarborg þar sem flutt verða þrjú verk sem öll tengjast hafinu. Meðal annars verður leikið verk eftir Toru Takemitsu sem heitir Between tights og Sea Pictures eftir Edward Elgar. Sigrún Harðardóttir meðlimur Cauda segir áhugavert hvernig hafið sé rómantíserað í list á sama tíma og við förum illa með það.
Sigrún Harðardóttir fiðluleikari segir hópinn hafa lagt upp með það upp á síðkastið að kanna leiðir til að miðla klassískri tónlist. Hún segir að náttúruspjöll og loftslagsmál séu hópnum hugleikin. „Einhvern veginn er hafið ótrúlega mikilvægt okkur sem manneskjum en á sama tíma förum við rosalega illa með það. Það finnst plast í maga 94% fugla í norðursjó. Þetta er svo skrýtið og hugsum gott og vel við erum með þessi fallegu verk sem eru óður til hafsins en okkur langaði að hafa líka örlítið breyskan undirtón.“
Hún segir hópinn meðal annars hafa velt því fyrir sér í aðdraganda tónleikanna hvernig hafið leit út á þeim tíma sem verkin voru samin og hvernig listamenn fyrri tíma hefðu samið verk sín um hafið í dag, hvort tónninn væri ekki öðruvísi. „Sérstaklega varðandi verk Elgars sem samið er 1899. Það verk fjallar svolítið um tengsl mannsins við hafið en eitt þeirra heitir Where corals lie. Maður veltir því fyrir sér ef Elgar væri uppi í dag hvernig hann myndi til dæmis skrifa um kóralana.“ Sigrún segir að þrátt fyrir þessa nálgun sé tilgangurinn með tónleikunum ekki pólitískur heldur fyrst og fremst að spila fallega tónlist. „Við viljum samt minna á að það þarf að passa upp á þessa fegurð sem lýst er í listinni og tengjum því flutninginn við loftslagsmál.“
Sigrún hvetur allt áhugafólk um góða tónlist til að kíkja á tónleikana og segir að það þurfi ekki að óttast kammertónleika eins og margir virðist gera. „Fólk sem mætir á kammertónleika vandræðast gjarnan með hvernig það á að vera, hvort það megi klappa á milli tónleika og svo framvegis og það myndast spennuþrungið andrúmsloft sem er algjör óþarfi að okkar mati,“ segir Sigrún. Sviðsetning tónleikanna felur meðal annars í sér net sem er alsett plasti og rusli en þar verður líka innsetning sem tengist hafinu og sviðsmyndin því afar myndræn og í takt við þema tónleikanna. „Við ætlum að njóta þess að vera í myndlistarrými og búa til myndlist í leiðinni,“ segir Sigrún að lokum.
Tónleikarnir eru í Hafnarborg og hefjast klukkan átta. Flytjendur á tónleikunum verða Björk Níelsdóttir sópran, Sigrún Harðardóttir á fiðlu, Þórdís Gerður Jónsdóttir á selló og Jane Ade Sutarjo sem leikur á píanó.
Rætt var við Sigrúnu Harðardóttur í Víðsjá en innslagið má hlýða á í spilaranum hér fyrir ofan.