Öryrkjabandalagið reyndi ítrekað að vara félags- og barnamálaráðherra við því að um 500 manns yrðu fyrir mikilli kjaraskerðingu vegna dráttarvaxta af ógreiddum bótum frá Reykjavíkurborg. Ellilífeyrisþegi sem er kominn í skuld við Tryggingastofnun vegna vaxtanna segir málið ömurlega ósanngjarnt.
Dráttarvextirnir eru umtalsverðir í sumum tilfellum, jafnvel hátt í milljón krónur - enda þurfti borgin að greiða bætur afturvirkt fyrir fjögurra ára tímabili, frá 2012 til 2016.
Kristín R. Magnúsdóttir er ellilífeyrisþegi og öryrki sem sótti ekki um afturvirkar bætur, fékk þær samt og bítur nú í það súra epli að endurgreiða bætur. „Þá fékk ég bréf frá Tryggingastofnun þar sem þeir segja að ég sé með of háar tekjur og ég verði að borga til baka rúmlega 115 þúsund. Mér finnst það bara ekkert sniðugt, ég bað ekki um þessa dráttarvexti.“
Henni var ráðlagt að sækja um sérstakar húsaleigubætur en var hafnað vegna dráttarvaxtanna og þá lækkuðu einnig húsaleigubæturnar hennar um 2.500 krónur á mánuði.
Kristín segir að málið sé ömurlegt. „Það er sama tilfinning að ef að þjófur stelur einhverju inni hjá þér og þér finnst hann ekki hafa fengið nóg og gefur honum það sem eftir er - til dæmis sjónvarpið inn í svefnherberginu.“
Öryrkjabandalagið sendi Ásmundi Einari Daðasyni, félags- og barnamálaráðherra, fyrst bréf í janúar þar sem athygli hans var vakin á þessu máli. Eftir að engin svör bárust sendi bandalagið ráðherra aftur bréf í mars - þar sem ítrekuð var sú ósk að hann breytti reglugerð, sem myndi hjálpa þessum hópi. Engin svör bárust og í byrjun maí sendi bandalagið aðra ítrekun og þá bárust loks svör frá ráðuneytinu. Beiðni bandalagsins var hafnað, og sagt að ráðherra skorti heimild til að breyta reglugerð um þetta. Bent var á að hægt væri að dreifa dráttarvöxtunum á 10 ár.
Kristín segir viðbrögð stjórnvalda vonbrigði. „Mér finnst bara það eigi að setja lög á það að ef að öryrkjum og eldri borgurum eða fólki sem að fær bætur frá ríkinu, að það sé ekki verið að reikna dráttarvexti til tekna sem þeir eiga enga sök á! Ég bara vona að þetta nái eyrum alþingismanna og þeir hlusti einhvern tímann á okkur.“
Ekki náðist í ráðherra í dag.