Undiraldan kemur til baka úr stuttu fríi með helling af brakandi ferskri íslenskri tónlist í plötutöskunni. Að venju heyrum við ágætisblöndu af byrjendum og lengra komnum þar sem fjölbreytni er í fyrirrúmi og við heyrum allt frá lífrænni sveitatónlist til rafrænna úthverfaslagara.


Krummi - Stories To Tell

Krummi er kannski þekktastur sem söngvari hljómsveitanna Mínus, Esju og Legend. Hann snýr sér núna alfarið að sínu sólóefni sem hann gefur út hjá Öldu Music. Fyrsta lagið kallast Stories To Tell og er samsuða af kántrí, þjóðlagatónlist, rokk og ról og blús-músík.


Ari Árelíus - Silki

Ari Árelíus spilar sálar- og djass-skotna sækadelíu undir eigin nafni en hann sendi frá sér sína fyrstu þröngskífu í fyrra sem heitir Emperor Nothing sem hann fylgir eftir með laginu Silki.


Between Mountains - September Sun

Between Mountains unnu í Músíktilraunum árið 2017 og síðan þá hafa þær verið duglegar að koma fram og þróa nýtt efni og er núna von á breiðskífu frá þeim í haust hjá Öldu.


Cell7 - All Night (Hermigervill Remix)

Önnur sólóplata Rögnu Kjartansdóttur kom út í ár og vinyll er handan við hornið en söfnun á Karolinafund er nýlokið með 130% árangri. Í tilefni af því sendi Cell7 frá sér lagið All Night í endurhljóðblöndun Hermigervils sem er hægt að heyra í spilara hér að ofan.


Congo Bongos - Hearts

Frændurnir Hreinn og Sigurmon sem skipað hafa ýmsar sveitir í gegnum tíðina eru hér með annað lag sitt sem Congo Bongo. Lag þeirra Hearts er einlægur rómantískur óður til liðinna stunda og minninga sem skapast þegar tvö hjörtu mætast, segir í fréttatilkynningu frændanna.


Daði Freyr - Ég er að fíla mig (langar ekki að hvíla mig)

Daði Freyr hefur verið nokkuð iðinn við að senda frá sér plötur og söngla síðustu tvö árin og nú á dögunum sendi hann Ég er að fíla mig (langar ekki að hvíla mig) út í kosmósið.


Ragnhildur Gísladóttir - Leiktu með

Queen-söngleikurinn We Will Rock You verður frumsýndur í næstu viku og spennan er farin að aukast fyrir þessum stjörnum prýdda söngleik. Meðal stjarna eru Laddi, Berglind Halla Elíasdóttir, Katla Njálsdóttir, Björn Jörundur Friðbjörnsson og Ragnhildur Gísladóttir en sú síðarnefnda syngur Leiktu með.


Silja Rós - All I Can See

Silja Rós gaf út sína fyrstu plötu árið 2017 sem fékk fínar viðtökur. Hún hefur núna sent frá sér lagið All I Can See sem hún samdi með Magnúsi Dagsyni og tók upp í Los Angeles þar sem þau hafa verið búsett síðustu ár.


Einar Vilberg - Sleepless

Lagið Sleepless er sólóverkefni Einars Vilbergs sem kom út nýlega en hann annaðist sjálfur upptöku, upptökustjórn, hljóðblöndun og hljómjöfnun.