Við fiskum eitt og annað upp úr Undiröldunni að þessu sinni en meðal þess sem skipperinn býður upp á er hugljúfur dúett frá Helga og Emmu, skúturokk frá Ísak Erni, angurvær elektróník frá Mr. Sillu og glæparapp frá Birgi Hákon.


Helgi Jónsson og Emiliana Torini – Crossroads

Plata Helga Jónssonar, Intelligentle sem var sú fyrsta í sjö ár, kom út í vor og hefur fengið prýðisgóða dóma. Helgi hefur verið aktívur í dönsku tónlistarlífi með eiginkonu sinni Tinu Dickow en í laginu Crossroads vinnur hann með Emelíönu Torrini.


Ísak Örn Guðmundsson – See You Later

Nafnið Ísak Örn hringir kannski ekki mörgum bjöllum en hann er nú samt enginn byrjandi í bransanum og hefur gert garðinn frægan undanfarin ár með stuð- og partýsveitinni Babies. Sóló er Ísak Örn á skúturokksbuxunum. Sú tónlistarstefna á hetjurnar Chistopher Cross, Michael McDonald og Toto en hefur verið endurskilgreind í nútímanum sem Chillwave við góðar undirtektir.


Fufanu – Typical Critical (Ex Mykah Remix)

Hljómsveitin Fufanu gaf út plötuna Remix Series í lok síðasta árs en hún inniheldur fjöldann allan af fjölbreyttum endurhljóðblöndunum af sveitinni eins og nafnið gefur til kynna. Nú er platan fáanleg á Spotify og inniheldur Ex Mykah-remix af slagaranum Typical Critical.


Tara Mobee – Atyta

Loksins sendir Tara frá sér lag eftir glæstan ósigur í undankeppni Júróvision en hver hefði svo sem getað unnið Hatara? Nýja lagið frá Töru heitir Atyta og hún er eins og í Söngvakeppninni að gera glaðbeitt og hressandi popp.


Náttfari – Tog

Bústaðabandið Náttfari hefur loks sent frá sér D-Sessions sem er þeirra önnur plata en sú fyrri, Töf, kom út fyrir átta árum. Náttfari er enn í síðrokkinu en tríóið skipa þeir Andri Ásgrímsson, Nói Steinn Einarsson og Haraldur Þorsteinsson.


Teitur Magnússon – Skriftargangur

Teitur hefur verið áberandi í útvarpinu í sumar með lagið Mónika, sem var samstarf við tónlistarkonuna Hildi, en nú heldur hann áfram að senda út lög af plötu sinni Orna. Orna hefur fengið einróma lof gagnrýnenda og í laginu Skriftgangur fær Teitur hjálp frá Moses-manninum Steingrími Teague.


Mr Silla – Naruto (Say You Wanna Run Away)

Fjöllistakonan Sigurlaug Gísladóttir hefur fengist við myndlist, hönnun, förðun, tónlist og vídeólist undanfarin ár þó hún sé eflaust þekktust fyrir tónlistarsköpun sína í hinum ýmsu hljómsveitum. Silla gaf út lagið Naruto (Say You Wanna Run Away) fyrr í sumar.


Birnir, Lil Binni – Besti minn

Eitt af vinsælustu lögum landins undanfarnar vikur er flutt af röppurunum Birni og Lil Binni úr ClubDub. Lagið er að finna á fjögurra laga þröngskífu sem þeir gáfu óvænt út í endaðan júlí.


24/7, Birgir Hákon – Pening strax

Rappararnir hressu Birgir Hákon og 24/7 sendu frá sér lag í síðustu viku þar sem þeir vilja fá pening strax og ekkert kjaftæði, en það er akkúrat það sem við viljum öll.