Það er komið víða við í Undiröldunni að þessu sinni og lagt á borð með íslenskri tónlist af öllum gerðum og úr öllum landshlutum. Helstu fréttir eru ný lög frá rokkkóngnum úr Kjós, Bubba Morthens, og rappkóngi Kópavogs, Herra Hnetusmjöri.


Julian Civilian - Bústaður

Tíu laga platan Grand Slam er nánast tilbúin hjá Julian Civilian og kemur út fljótlega. Sveitina skipa Skúli Jónsson sem syngur auk þess að spila á gítar og bassa, Magnús Örn Magnússon spilar á trommur og Jón Ólafsson á Wurlitzer. Lagið er ekki komið þegar þetta er skrifað á Streymisveitur.


Leó R. Ólason - Geðklofinn

Siglfirðingurinn Leó R. Ólason gaf nýlega út geisladiskinn Pikkað upp úr poppfarinu sem inniheldur rjómann af eldri poppurum landsins í ýmsum hlutverkum. Platan er fjölbreytt, enda hefur hún verið í smíðum í aldarfjórðung, en í tóndæminu sem við heyrum reynir Leó sig á rappi.