Það var eftir töluverðu að slæðast í þessari viku fyrir áhugafólk um nýja íslenska tónlist en í boði er nýtt hip hop, indie-rokk, grín-popp, ábreiður og ballöður.


Krassasig - Brjóta heilan

Kristinn Arnar Sigurðsson hefur sent frá sér lagið Brjóta heilan undir nafninu Krassasig en einhverjir kannast kannski við kauða úr hljómsveitinni Munstur. Lagið er samið af þeim Kristni Arnari og Auðni Lútherssyni en hann er einnig titlaður sem upptökustjóri lagsins ásamt Magnúsi Jóhanni Ragnarsyni.


Sturla Atlas og Auður - Just A While

Á föstudaginn kom út nýtt lag frá Sturlu Atlas sem hefur verið viðloðandi íslensku hip hop-senuna undanfarin ár. Lagið er afrakstur samstarfs hans og Auðar, en lagið er síðan unnið af Auði, Arnari Inga og Loga Pedro.


Prins Póló - Raddir efans

Prins Póló fagnar 10 ára afmæli í ár og af því tilefni kom út 17 laga safnskífa á föstudaginn. Platan heitir TÚRBÓ og inniheldur nokkur af skárri lögum Prinsins í upptrekktum dansútgáfum sem Árni Rúnar Hlöðversson úr FM Belfast hefur útsett fyrir dansflór.


Carpet - Ocean

Hljómsveitin Carpet úr Mosfellssveit hefur tekið saman aftur og sent frá sér lagið Ocean en hljómsveitin var var virk seint á síðustu öld og spilaði á landsmóti mótórhjólasamtakanna Sniglanna árin 1995, 1996 og 1997.


Wasabi - London

Eins manns hljómsveitin Wasabi sem er skipuð Otto Tynes gaf á dögunum út plötuna Happiness Hold My Hand sem inniheldur ábreiðu af Smiths-slagaranum London.


Góss - Sama tíma að ári

Hljómsveitin GÓss hefur sent frá sér sína fyrstu breiðskífu en sveitin er ofurgrúppa skipuð þeim Sigurði Guðmundssyni, Sigríði Thorlacius og Guðmundi Óskari. Platan inniheldur útgáfur sveitarinnar af þekktum íslenskum dægurlagaperlum og verður fylgt eftir með tónleikaferð um landið í júlí.


Baggalútur - Appelsínugul viðvörun

Nú styttist í að Baggalútur setji miða á jólatónleika sína í sölu og til að minna á sig hafa strákarnir sent frá sér klassískan Baggalútssmell sem heitir Appelsínugul viðvörun og er í anda laganna Pabbi þarf að vinna og Mamma þarf að djamma.


Elísabet Ormslev - Heart beats

Elísabet Ormslev hefur nú gefið út sitt fyrsta lag sem hún vann með Zoe, sem er sennilega þekktust fyrir tónlistina úr kvikmyndinni Lof mér að falla. Lagið Heart Beats er fyrsti singull af plötu Elísabetar sem áætlað er að komi út í haust ef allt gengur að óskum.