Tónlistarborgin Reykjavík í samvinnu við Útflutningsstofu íslenskrar tónlistar og nýsköpunarfyrirtækið Icelandic Startups hefur sett á fót svokallaðan tónlistarhraðal. Hraðlinum er ætlað að aðstoða íslenska tónlistariðnaðinn við að ýta mögulegum frumkvöðlahugmyndum úr vör. Verkefnið kallast Firestarter og er ætlað að auka verðmætasköpun í greininni.
Firestarter er nýtt samstarfsverkefni fjölmargra úr tónlistarbransanum. Tónlistarborgin Reykjavík, Útflutningsstofa íslenskrar tónlistar eða Útón og Icelandic startups haft veg og vanda af verkefninu sem hefst í október. Sigtryggur Baldursson frá Útón og Melkorka Sigríður Magnúsdóttir frá Icelandic startups og sögðu frá því í Morgunútvarpinu um hvað hraðallinn snerist og eftir hverju væri verið að leita. „Firestarter er viðskiptahraðall sem hefst í október og stendur yfir í fjórar vikur. Hraðall er orð sem við notum yfir nokkurra vikna ferli sem fer í það að hraða ferlinu frá hugmynd og þangað til að eitthvað er orðið að fullbúnu fyrirtæki,“ segir Melkorka en hlutverk Icelandic startups er að aðstoða frumkvöðla og sprotafyrirtæki að hraða þessu ferli og koma þeim í samband við sérfræðinga, fjárfesta og aðra leiðandi aðila í nýsköpun í tónlist og tækni.
Gjörbreytt landslag
Sigtryggur Baldursson hjá Útón leggur áherslu á að leitað sé að alls konar verkefnum sem miði þó meira að nýsköpun í geiranum. „Á síðustu fjórum til fimm árum hefur landslagið gjörbreyst í kringum tónlistargeirann en sá geiri þarf mögulega aðeins lengri tíma í að breytast. Í rauninni er öll dreifing og kynning í bransanum komin á netið, þó það séu enn nokkrar plötubúðir eftir, meira að segja fjórar í Reykjavík, sem er stórmerkilegt fyrirbrigði,“ segir Sigtryggur og vill meina að hægt sé að gera mun meira í kynningu og dreifingu á tónlist hér á landi. „Við eigum rosalega mikið af frambærilegum tónlistarverkefnum og tónlistarfólki en þau eiginlega sækja sín viðskipti út fyrir landsteinana. Sem sagt útgáfufélög, umboðsmennsku, bókanir og svo framvegis. Við viljum fara að sjá meira af þessum viðskiptum fara fram hér á landi,“ segir Sigtryggur.
Melkorka nefnir að til verkefnisins sé kallað eftir frumkvöðlum sem leita að lausnum á sviði tónlistar. Lausnum sem styrkja meginumgjörðina, meðal annars tónleikastaði, tónlistarhátíðir, umboðsmenn, bókara og fleiri. Ljóst er að íslenskt tónlistarumhverfi hefur breyst talsvert á síðustu árum og segir Sigtryggur að prófíllinn hafi snúist um indípoppið hér áður fyrr en núna sé þetta orðið lagskiptara. „Það eru miklu fleiri verkefni í svona niche geirum sem gera ágætis bisniss. Metalgeirinn íslenski er til dæmis þónokkuð sterkur, íslensk metalbönd túra mikið í Evrópu. Svo eigum við mörg mjög þekkt teknóatriði, Bjarka og Exos og fleiri. Í þessum smærri geirum eigum við mjög marga frambærilega listamenn sem vinna á sínu sviði án þess endilega að vera mikið í fjölmiðlum eða útvarpi,“ segir Sigtryggur.
Hryggjarstykki hraðalsins
„Það verða fimm til sjö teymi sem verða valin í þetta verkefni sem byrjar í október. Teymin munu fá aðgang að skrifstofuhúsnæði að Hlemmi og einnig aðgang að vinnusmiðjum en hryggjarstykkið í hröðlunum okkar er aðgangur að mentorum,“ segir Melkorka um háttinn á tónlistarhraðlinum. „Það verða leiðandi sérfræðingar á þessu sviði, sem setjast niður með þessum fyrirtækjum og fara í það að krönsa viðskiptamódelið og hjálpa þeim í því að koma þessum hugmyndum hraðar á framfæri. Sérfræðingarnir eru mikilvægastir við hraðlana, við höfum fengið rosalega flottan hóp í Firestarter til að hjálpa okkur og listinn er ekki tæmandi,“ segir Melkorka og nefnir sem dæmi um þátttakendur þau Margréti Júlíönu sem hannaði vinsælan tónlistarleik fyrir börn og tónlistarmennina Óla Arnalds og Georg Holm úr Sigur Rós sem munu koma og hitta frumkvöðlana. „Við erum í raun að koma með alla að borðinu sem geta hjálpað við að hraða öllu ferlinu,“ segir Melkorka.