Tafagjöld af bílum er innheimt í fimm borgum í Noregi. Umferðin á álagstímum minnkaði um 13% í Björgvin á tveimur árum eftir að gjöldin voru lögð á. Á norska þinginu er nú meirihluti fyrir því að taka upp nýtt innheimtukerfi sem miðast við að bíleigendur verði rukkaðir um þá vegalengd sem þeir aka á gjaldskyldum svæðum.
Það hefur verið rætt um að hugsanlega komi til greina að koma á svokölluðum tafagjöldum á höfuðborgarsvæðinu og sitt sýnist hverjum. Tafagjöld eru í raun vegatollar sem eru greiddir á ákveðnum vegum eða svæðum og ákveðnum tímum dags. Hugsunin er að bíleigendur ferðist þá á öðrum tímum eða fari aðrar leiðir til að komast hjá þessum gjöldum. Svo geta þeir líka komist hjá gjöldunum með því að taka strætó eða hjóla. Megintilgangurinn er að draga úr bílaumferð á álagstímum.
Tafagjöld í fimm borgum í Noregi
Það er ekki úr vegi að skoða aðeins hvernig Norðmenn fara að. Þar í landi hefur þótt keyra fram úr hófi þegar kemur að því að leggja á veggjöld. Andstæðingar þeirra hafa þegar stofnað stjórnmálasamtök sem fyrst og fremst berjast fyrir því að dregið verði úr innheimtu veggjalda. Það kemur ekki á óvart að Norðmenn eru líka með tafagjöld sem þeir kalla køprising eða biðraðagjöld. Þau eru innheimt í fimm borgum; Kristjánssandi, Þrándheimi, Ósló, Björgvin og Stafangri. Þess má geta að tafagjöld eru líka innheimt í Singapúr, Lundúnum, Stokkhólmi og í París.
28 ný gjaldhlið
Í Ósló er lítið hægt að keyra bíl án þess að greiða veggjöld. Þar eru þrjú megingjaldsvæði sem umlykja borgina, innst er Óslóarhringurinn, næst Innrihringurinn og loks Bæjarmörkin. Borgaryfirvöld eru ekki af baki dottinn þegar kemur að innheimtu veggjalda. 1. júní var bætt við 28 nýjum innheimtustöðum við Innrihringinn. Samtals eru nú 83 innheimtustöðvar. Innheimtan er rafræn en góður fréttirnar eru þær að þeir sem kaupa sér lykla fá nú 20 prósenta afslátt í stað 10 áður. Fram að þessu hefur ekkert gjald verið lagt á rafbíla. Nú verða eigendur þeirra að greiða ef þeir hætta sér inn á gjaldsvæðin. Upphæðirnar eru reyndar ekki háar. Fimm krónur norskar krónur utan álagstíma eða um 70 krónur. Sú upphæð tvöfaldast á álagstímum. Reyndar er hægt að fá afslátt með áskrift og þá lækkar gjaldið um 20%. Mengunarlausir bílar þyngri en þrjú og hálft tonn og vetnisbílar þurfa ekki að greiða. Alls konar reglur gilda um greiðslurnar sem of flókið er að fara út í hér. Venjulegir fólksbílar sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti greiða fullt gjald. Bensínbílar greiða frá 300 krónum upp í 400 krónur íslenskar á álagstímum. Dísilbílar greiða mest, frá 320 krónum upp í 440 krónur eftir því inn á hvaða gjaldsvæði þeir eru að fara. Með áskrift er hægt að lækka þessar greiðslur.
Dregur úr umferð
Svifryk og lítil loftgæði hafa lengi verið að plaga íbúa bæði í Björgvin og í Osló. Noregur hlaut dóm í EFTA-dómstólnum 2015 vegna þess að loftmengun í þessum tveimur borgum fór yfir leyfileg alþjóðleg mörk. Yfirvöld í Bergen brugðust við og lögðu á tafagöld eða biðraðagjöld sem tvöfaldaði veggjöldin sem fyrir voru á álagstíma. Í skýrslu sem gerð var í fyrra kom fram að umferðin á álagstímum hefði minnkað um 13% frá því að tafagjöldin voru sett á. Þáverandi samgönguráðherra Ketil Solvik-Olsen og Framfaraflokksmaður var ekkert sérstaklega upprifinn af þessum tíðindum. Hann benti á að ef verð á vöru tvöfaldast þýði það að færri kaupa hana. Þessar tölur segi ekkert um hvort ferðamáti Bergenbúa hafi batnað. Mikilvægt sé að taka tillit þeirra efnaminni þegar veggjöld eru hækkuð. Framfaraflokkurinn hefur gagnrýnt sveitarfélög sem lagt hafa á veggjöld í stað þess að byggja upp betri almenningssamgöngur.
Ný tegund veggjalda
Í Noregi hefur óánægja með hvers konar veggjöld aukist. Þessi gagnrýni virðist hafa leitt til þess að nú er meirihluti fyrir því að veggjaldakerfinu verði breytt. Í grófum dráttum að bíleigendur greiða fyrir þá vegalengd sem þeir aka á tilteknum vegi. Það sem hefur áhrif er vegalengd, staðsetning og tegund ökutækis. Með þessari aðferð telja menn að greiðendur fá betri vitneskju um fyrir hvað þeir eru að borga og hve mikið þeir menga eða slíta vegunum. Þetta kallar á að ákveðinn búnaður sé í bílum sem tengist öðrum búnaði meðfram vegunum eða gervihnöttum. Verðlagningin eða gjaldið á svo að miðast við hve mikið bíllinn mengar, hvað hann ekur mikið á álagstíma og hættunni á að hann valdi umferðarslysum. Persónuvernd hefur þegar gefið grænt ljós á þessa aðferð. Lausnin felst í því að upplýsingar um ferðir fólks geymist einungis í tækinu sem er í bílnum. Ef þetta fyrirkomulag nær fram að ganga er líklegt að það verði einn af valkostunum þegar kemur að tekjum af umferðinni sem miðast að sjálfsögðu að því að draga úr mengun.