Einn ástsælasti rithöfundur þjóðarinnar, Guðrún Eva Mínervudóttir, er tilbúin með fyrstu drög að glænýrri skáldsögu sem gæti litið dagsins ljós strax í haust. Henni er annt um náttúruna og frelsið, og hún hefur trú á borgaralaunum.
Rithöfundurinn Guðrún Eva Mínervudóttir er búsett í Hveragerði þar sem hún rekur gistiheimili ásamt Marteini Þórssyni eiginmanni sínum. Á síðasta ári sendi Guðrún frá sér smásögubókina Ástin, Texas og hlaut fyrir hana einróma lof og Fjöruverðlaunin 2019. Þrátt fyrir að ekki sé komið ár frá síðustu útgáfu hefur hún þegar sett punkt aftan við fyrsta uppkast að nýrri skáldsögu. Guðrún unir sér vel í náttúrunni en henni eru umhverfismál afar hugleikin. Það hentar henni því vel að búa í námunda við skóglendi þar sem bláber vaxa innan um fuglasöng og lúpínubreiður.
Glæný skáldsaga að verða tilbúin
Tengivagninn á Rás eitt sótti Guðrúnu Evu heim og rithöfundurinn leyfði Höllu Þórlaugu Óskarsdóttur dagskrárgerðarkonu að glugga í glænýtt handritið. „Það hefur enginn lesið þetta,“ segir Guðrún Eva leyndardómsfull á meðan Halla, sem hrósar titli bókarinnar og eykur þannig á forvitni hlustenda, handfjatlar gripinn. Aðspurð hvort útgáfa sé væntanleg strax á haustdögum segist hún sallaróleg ekki vera viss um það. „Það getur vel verið að hún komi út núna en það væri mér að meinalausu að hún kæmi út næsta haust.“ Hún segir það ekki hafa verið ætlunina að flýta sér að gefa út bók þegar svo skammt væri liðið frá þeirri síðustu. Það hafi einfaldlega gerst, bókin skrifaðist hratt og er svo gott sem tilbúin.
Frelsið er Guðrúnu Evu afar hugleikið en það var til umfjöllunar í Tengivagninum að þessu sinni. Guðrún segist trúa því að takist fólki að brjóta af sér hlekki hugans sé auðveldara að skapa sér ytra frelsi. Hún trúir því einnig staðfast að heimurinn væri betri ef allir hefðu kost á að verja hluta af degi hverjum í að hugsa og hvíla sig, og byggju við frelsi til sinna því sem þeim brennur á hjarta.
Borgaralaun borga sig
„Þess vegna er ég til dæmis hlynnt borgaralaunum, ég hef kynnt mér þau upp á síðkastið,“ segir hún en viðurkennir að hugmyndin geti auðveldlega virst langsótt í fyrstu. „Þegar vel er að gáð er hún það hins vegar alls ekki. Þetta hefur verið prófað í Finnlandi, Bandaríkjunum og Írlandi og það var ekki jafn dýrt og fólk hélt því kerfið hreinlega einfaldaðist. Þau komust líka að því að fólk hættir ekki að vinna,“ segir hún. Andstæðingar borgaralauna hafa gjarnan bent á að þéni fólk án þess að vinna fyrir laununum þá hljóti allir að hætta að leggja til samfélagsins. Þær áhyggjur eru þó ekki á rökum reistar samkvæmt Guðrúnu. „Fólk er ekki letingjar sem þarf að reka í vinnuna með hótunum um að annars þurfi þau að svelta. Þau sem notuðu tækifærið og unnu ekki voru aðallega nýbakaðar mæður.“
Vinátta snýst ekki um fjötra
Frelsi helst í hendur við traust, segir Guðrún, en frelsi er líka fólgið í ástinni. „Mér finnst svo mikilvægt að gefa ástvinum frelsi,“ segir hún. „Ég verð til dæmis viðþolslaus ef fólk heldur því fram að í vináttu geti það sett á mig fjötra og farið í fýlu ef ég hringi ekki nógu oft,“ segir hún og hlær. „Mér finnst felast í því mótsögn. Partur af vináttu og ást er að gefa fólki rými og frelsi,“ segir Guðrún sem las nýlega skilgreiningu á ástinni sem henni finnst fanga hugtakið vel. „Ást er að vilja einhverjum það að hann vaxi.“
Greta Thunberg hefur frelsi til að krefjast breytinga
Frelsið birtist víða og fólk upplifir og skilgreinir það á ólíkan máta. Guðrún Eva segir aðdáunarvert að láta ekki stjórnast af hjarðhegðun heldur gefa eigin hyggjuviti frelsi til að leiða sig. Hin sænska Greta Thunberg sem hefur orðið andlit loftslagsbaráttu ungs fólks er aðeins 16 ára sænsk unglingsstelpa en hún hefur barist mikið fyrir breytingum og vitundarvakningu í loftslagsmálum. „Greta Thunberg er gott dæmi um manneskju sem er frjáls hið innra,“ segir Guðrún Eva. „Hún er greind með asperger og af þeim sökum hefur hún, samkvæmt henni sjálfri, ekki áhyggjur af því að falla í kramið og vera vinsæl. Hún lætur ekki félagsmótast jafn auðveldlega og við hin,“ útskýrir Guðrún. Hún segir aðdáunarvert að sjá náttúruaflið og umbreytingarkraftinn sem býr innra með fólki eins og Gretu sem fellur utan normsins og þorir því að vera eins og það er.
Það breytir enginn heiminum með því að bölsótast
En hvar finnur fólk frelsi og styrk til að breyta heiminum? „Ég held við breytum heiminum með því að fara inn á við. Það að velja örlög sín, elska aðstæður sínar og heiminn eins og hann er, þannig getum við breytt honum,“ segir hún og kímir. „Ef við bregðumst við öllum heimsósóma með því að bölsótast, kvarta og nöldra og tala um að pólitíkusar og kjósendur séu fífl þá hefur það lamandi áhrif. Það kemur engin breyting út úr því.“
Greta Thunberg hefði, bendir Guðrún á, allt eins getað sett orkuna alla í að velta því fyrir sér að fólk sé bara fífl. Í stað þess að gera það er hún drifin áfram af trausti til fólks, að það þori að gera breytingar. „Hún hlýtur að trúa því að gjörðir hennar og rödd geti raunverulega haft áhrif.“
Greta hefur líka fengið gífurlegan meðbyr. Hvert mannsbarn á fætur öðru rís nú upp með náttúrunni og um allan heim eru börn að fara í skólaverkföll og krefjast þess að hlustað sé á þau. Greta hefur þó einnig sætt mikilli gagnrýni, sérstaklega frá eldra fólki og auðmönnum „Ef þú ert búinn að koma þér þannig fyrir að þú ert efst í fæðukeðjunni og þú getur blóðmjólkað samfélagið þá viltu ekki breytingar. Sérstaklega ef þú ert ekki búinn að fara inn á við og sérð því ekki að það sé neitt að því,“ útskýrir Guðrún.
En hvað skyldu þau óttast? „Það getur verið að samviskan sé að naga þau og ótti við að með breytingum fylgi refsingar og höggstokkar. En ég trúi því að fólk sem vill réttlæti og fegurri heim vilji ekki refsa neinum heldur vilji breytingar og frið.“
Guðrún Eva og Halla Þórlaug ræddu um frelsið í Tengivagninum í Hveragerði og Guðrún Eva valdi lög sem að hennar mæti hæfa umfjöllunarefninu. Allt viðtalið og lögin má hlýða á í spilaranum efst í fréttinni en myndina tók Renato de Sierra Leoni.