Ný tegund húsnæðislána til að byggja íbúðarhúsnæði á landsbyggðinni er til komin vegna brests á markaðnum. Þetta segir Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra. Þegar markaðurinn sinni ekki sínu hlutverki þá verði stjórnvöld að bregðast við.

Ásmundur Einar hefur undirritað reglugerð um nýja tegund húsnæðislána sem eiga að hvetja til aukinna húsbygginga á landsvæðum þar sem lítið er byggt. Tilgangurinn er að skapa íbúum á þessum svæðum sömu kjör á húsnæðisálunum og á virkari markaðssvæðum.

Ásmundur Einar var í viðtali í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun. Þar sagði hann lánaflokkinn vera fyrir þau landsvæði þar sem næga atvinnu er að hafa en húsnæði vantar. Húsnæðisskortur á landsbyggðinni eigi ekki að valda því að ekki sé hægt að manna störf.

„Við viljum nýta auðlindir landsins og dreifa ferðamönnum en þá verðum við að geta hýst fólkið sem á að vinna þar,“ segir Ásmundur Einar.

Að sögn Ásmundar sóttu 33 sveitarfélög um að taka þátt í þessu tilraunaverkefni. Verkefnið á þó ekki við um hluta sveitarfélaganna sem sóttu um og rúmlega helmingur er gjaldgengur. Þá sé markmiðið með lánunum að markaðurinn fari að sinna hlutverki sínu þannig að bankarnir geti byrjað að lána á sambærilegum kjörum og annars staðar.