„Sveitatónlistin, hún talar til hins almenna manns, hún er ekki að þykjast vera neitt,“ segir Axel Ómarsson forsprakki Íslensku sveitasöngvahátíðarinnar sem verður á Selfossi um helgina.
Íslenska sveitasöngvahátíðin, Icelandic Country Music Festival, er haldin í þriðja sinn um helgina á Selfossi. Þar koma fram helstu stjörnur íslensku sveitatónlistarsenunnar í bland við virta erlenda listamenn, íslensku kántrí-áhugafólki til ánægju. Upplýsingar um viðburðinn má kynna sér hér. Einn af forsprökkum hátíðarinnar er Axel Ómarsson sveitasöngvari og segir hann að hugtakið sveitasöngvar eða sveitatónlist sé að festast enn frekar yfir þessa tegund tónlistar hér á landi.
„Ég er alla vega farinn að nota það. Sveitatónlist, mér finnst það flott. Það eru reyndar tveir flokkar þarna undir, það er kántrí og köntrí. Ég segi oft bara sveitatónlist, mér finnst það flott,“ segir Axel sem er á síðustu metrum við undirbúning hátíðarinnar í ár. „Þetta er í þriðja sinn sem hátiðin er haldin, hún stækkar alltaf og verður flottari og flottari. Við byrjum klukkan 18, þegar boðið verður upp á mat fyrir þá sem vilja. Svo byrjar tónlistin klukkan 20. Þá eru það þrír aðilar sem koma fram, það eru Stefanía Svavars sem allir þekkja, söngkona frá Texas sem heitir Sarah Hobbs, svo verð ég þarna ásamt Dan Cassidy fiðluleikara, Magga Kjartans, Sigurgeir Sigmunds og fleirum,“ segir Axel.
Axel segir að kántríið sé á uppleið á Íslandi eftir að hafa verið í smá lægð. „Íslenskir tónlistarmenn koma auðvitað með sín áhrif inn í kántríið. Þegar við gerum kántrí þá kemur okkar blær í hana,“ segir Axel og bendir á vinsældir þessarar tegundar tónlistar á heimsvísu. Kántríinu hafi vaxið fiskur um hrygg í Noregi, Þýskalandi og Hollandi upp á síðkastið. „Svo getum við nefnt skemmtilegan stað eins og Færeyjar. Það sem gerðist þar var að Færeyingar skiptust á kvóta, fóru að veiða við Nýfundnaland og komu svo með músikina til baka. Í dag er köntrítónlistin sú mest selda í Færeyjum,“ segir Axel.
Axel ólst upp í Bandaríkjunum, í mekka sveitatónlistarinnar, Texas og Oklahoma og fékk þannig sveitatónlistina beint í æð. „Þegar maður er búinn að hlusta á þetta nógu mikið þá er þetta alltaf með manni. Þetta þótti pínulítið lummó, það voru nokkrir menn sem gerðu sveitatónlistina lummó. Ég nefni engin nöfn. Það fór í taugarnar á mér þannig að ég fór að gera eitthvað í þessu. Núna er kántrítónlistin aftur kúl enda nokkrar af bestu popphljómsveitum heims eru í grunninn kántrí. Við heyrum þetta allan daginn í útvarpinu. Þetta er flokkað sem kántrí en er bara popp og rokk,“ segir Axel.
„Lykillinn að kántrítextunum er að þeir segja sögur. Það er alltaf það sama, lost love, konan fór frá manni, maður missti af þessu, einhver eftirsjá. Eitthvað sækir maður í eigin reynslu en annars, rétt eins og rithöfundar og aðrir gera, sækir maður efni í því sem maður finnur,“ segir Axel. Þó eðlilega séu ekki margir kúrekar á Íslandi þá eigi tónlistin aðdáendur í ýmsum vinnandi stéttum að sögn Axels. „Mjög margir hestamenn eru hrifnir af kántríinu og sjómenn sömuleiðis. Þeir eru gríðarlega hrifnir af henni og það kom mér mjög á óvart. Ég myndi segja að kántrítónlist sé tónlist hins vinnandi manns. Það er helst þetta fólk sem ég hef tekið eftir að er hrifið af sveitatónlist. Sveitatónlistin hún talar til hins almenna manns, hún er ekki að þykjast vera neitt. Hún talar bara um lífið eins og það er. Lífið og lífsins sorgir,“ segir Axel Ómarsson forsprakki Íslensku sveitasöngvahátíðarinnar á Selfossi og höfuðpaur hljómsveitarinnar Axel Ó.
Viðtal Huldu og Gunnhildar Örnu við Axel Ómarsson í Morgunútvarpi Rásar 2, má heyra með því að smella á myndina hér efst í fréttinni.