Aðventan er tími kökubaksturs og á Egilsstöðum býr þýsk kona sem á hverju ári bakar stollen-brauð eftir kúnstarinnar reglum. Hitaeiningarnar eru ekki sparaðar í því enda átti brauðið að metta fátækt fólk fyrir jólin. Brauðgerðin tekur fjóra klukkutíma hið minnsta.
Helga Alfreðsdóttir er að gera grunndeigið, fyrsta skrefið af mörgum áður en fullbakað stollen-brauð lítur dagsins ljós. Hún lætur gerdeigið hefa sig nokkrum sinnum og fyrir hverja hefingu fá gerlarnir nýtt hráefni, meðal annars sítrónubörk og safa. „Það er galdurinn að gefa sér tíma og hræra ekki allt í einu í deigið eins og maður gerir kannski með formkökudeig. Heldur læt ég deigið alltaf hefa sig inn á milli,“ segir Helga.
Á að líkjast reifabarni
Hún segir að elstu heimildir um stollen-bakstur séu frá því um 1400 í Saxlandi. „Þetta var bakað fyrir jólin og frá kirkjum og klaustrum til að gefa fátæklingum næringarríkan mat. Þess vegna er svona mikið góðgæti í þessu; til þess að þeir gætu mettað sig líka um jólin,“ segir Helga. Í brauðið eru settar rommlegnar rúsínur, kúrínur, súkkat eða glæbörkur sem er sykraður börkur skrápsítrónu, orangsat sem er sætbörkur af appelsínu, möndlur og í seinni tíð marsípanrúlla. Þegar brauðið er bakað er það penslað með smjöri og flórsykur eða þrúgusykur settur yfir. „Kakan á að vera hvít. Það er ekki snjór heldur líndúkurinn sem er utan um reifabarnið,“ segir Helga.
Brauðið drýgt með kartöflum eftir stríð
Helga er fædd árið 1938 á þýsku eyjunni Usedom og man tímana tvenna í stollen-bakstri. Hún var ársgömul þegar Þjóðverjar réðust inni í Pólland í upphafi seinni heimstyrjaldarainnar. Rétt fyrir jól árið 1943 féll faðir hennar á vígvellinum, hún var þá fimm ára gömul og þurfti að lokum að flýja frá eyjunni fögru þar sem Hitler starfrækti tilraunastöð með eldflugar. Í stríðinu sprengdu Bretar heimili þeirra í loft upp og með móður sinni og fjölskyldu þurfti Helga að finna ný heimkynni við mikinn skort í Austur-Þýskalandi. Í fátækt eftir stríð þurfti móðir hennar að drýgja hveitið með röspuðum kartöflum og þá voru líka hnetur og valmúi í brauðinu.
Hún sagði frá æsku sinni og stríðsárunum í Sögum af landi á Rás 1 í síðustu viku. Þáttinn má finna á ruv.is.
Mikilvægt að gefa sér góðan tíma
Helga kynntist íslenskum manni sínum Magnúsi Magnússyni þegar hún var við nám í íþróttaháskóla í Leipzig en hann var við tónlistarnám í borginni. Saman fluttu þau til Íslands árið 1965 og bjuggu fyrst um sinn á Ólafsfirði. Hún hefur kennt ófáum að baka þetta þýska hnossgæti. Hún varar fólk við; það þarf þolinmæði þegar maður spreytir sig á stollen. „Þetta tekur töluverðan tíma og maður þarf að njóta augnabliksins og hafa ánægju af því. Þá verður brauðið líka betra. Brauðið þarf að baka fyrir jólin af því það eru möndlur inni í og það er rakt og það á eiginlega að riðja sig pínu. Þess vegna á maður alltaf að baka 14 dögum fyrir jólin eða ennþá fyrr,“ segir Helga.