„Við erum að reyna að endurupplifa draumaferðir æsku okkar," segir Emrys Kirby, Skoti, sem býr á Englandi en er í sumar búinn að keyra þvers og kruss um Ísland ásamt Tom Benson og tveimur öðrum og urðu á vegi Landans. Þeir Emrys og Tom ferðuðust um Ísland á Landróver með foreldrum sínum þegar þeir voru ungir drengir.
„Það var fyrir um fjórum árum að ég hitti Tom vin minn í Vatnahéraði Englands og okkur langaði báða að fara til Íslands. Og við áttum báðir æskuminningar héðan. Svo við bundum það fastmælum að gera þetta. Svo við ákváðum að 2019 væri gott ár," segir Emrys.
Þeir félagar gengu nokkuð langt í að endurskapa ferðirnar sem þeir fóru sem litlir strákar. Tom kom með sama tjald og sama útileguborð og báðir lögðu þeir upp með að koma á nokkurn veginn eins bílum.
„Alveg eins. Eins á litinn. Þessi er aðeins yngri. Hann er með sömu rispur og beyglur. Ég setti á hann spegla. Silfurlitaða spegla eins og á gamla Land-Rovernum sem við vorum á á áttunda áratugnum. Já, ég endurskapaði þessa gömlu daga," segir Emrys.