Á Midgard-hátíðinni kemur saman fjöldi áhugafólks um tölvuleiki, kvikmyndir, vísindaskáldskap og hvers konar spil og ber saman bækur sínar. Skipuleggjendur hátíðarinnar telja að nördar séu ekki lengur á jaðrinum, allir séu nördar.

Midgard-hátíðin fer fram í næsta mánuði í Fífunni í Kópavogi en í fyrra var hún í Laugardalshöll þar sem færri komust að en vildu. Midgard er sniðin eftir erlendum hátíðum sem kallast Comic Con hátíðir og kemur þar saman áhugafólk um teiknimyndasögur, vísindaskáldskap og tölvuleiki. Þetta er annað árið sem hátíðin er haldin en uppselt var á Midgard í fyrra. Í ár er ljóst að drjúgur fjöldi kemur á hátíðina og hefur hún vaxið mikið á milli ára. „Alveg töluvert. Við vorum með um sextán hundruð gesti í fyrra og stefnan er á aðeins fleiri en það í ár,“ segir Sigríður Ösp Sigurðardóttir, einn af forsvarsmönnum Midgard.

„Við eyddum talsverðum tíma í að finna nafn íslenskt nafn á Comic Con, við gátum ekki notað Comic Con þótt álíka viðburðir gangi yfirleitt undir því heiti,“ segir Hilmar Kolbeins sem einnig starfar við undirbúning hátíðarinnar. „Við enduðum á því að tala um fjölgeira áhugasviða. Þetta var ægilegur tungubrjótur. Við komum þarna inn á tölvuleiki, kvikmyndir, LARP, role playing, borðspil. Þetta fer yfir svo breitt svið að þetta er eiginlega fyrir alla. Fólk finnur alltaf eitthvað fyrir sig hérna,“ segir Hilmar.

Nördamenning er sögð hafa færst af jaðrinum síðustu ár og að nördar séu síst einhver jaðarhópur. Þau fjölmörgu viðfangsefni sem þóttu flokkast undir nördamenningu séu mun vinsælli en áður. „Já já, við erum öll nördar. Það eru allir nördar. Þetta tengdist nú alltaf þeim sem voru í teiknimyndasögunum en nörd er bara gott orð yfir það að hafa eitthvað áhugamál,“ segir Hilmar um nördamenninguna. 

Hátíðin verður ívið stærri í ár en viðtökurnar voru frábærar á fyrstu hátíðinni í fyrra. „Við vorum svona að stressa okkur yfir því til að byrja með en nú er þetta allt byrjað að fyllast,“ segir Sigríður Ösp um flutninginn yfir til Fífunnar. „Við erum með alls konar sölubása frá fyrirtækjum, verðum með kynningar, pallborðsumræður og keppnir. Til dæmis verðum við aftur með cosplay-keppnina okkar sem við vorum með í fyrra. Við erum líka aðeins meira að fókusera að krökkunum í ár, við bjóðum til dæmis upp á borðspilasvæði fyrir krakkana sem Spilavinir sjá um, hoppukastala, quidditch-æfingar, LARP og víkingarnir munu sýna listir. Þetta verður geggjað,“ segir Sigríður og bendir á að allar upplýsingar um hátíðina sé að finna á midgardreykjavik.is.

Í fyrra var einn aðalgesturinn velski leikarinn Spencer Wilding, sem lék í myndunum Guardians of the Galaxy, Harry Potter seríunni og Game of Thrones. Í ár er von á fjölmörgum góðum gestum. „Við vorum auðvitað með æðislega gesti í fyrra og það var erfitt að toppa það en við vorum að tilkynna um daginn hann Manu Bennet. Fólk ætti að þekkja hann úr Spartacus, Deathstroke í Green Arrow og Azog úr Hobbitanum,“ segir Hilmar. „Þeir sem hafa verið að spila tölvuleiki í gegnum árin, sem eru þónokkrir, ættu að þekkja Hitman-leikina og við erum einmitt að fá David Bateson sem er Hitman í leikjunum. Hann er útlitið, röddin og hreyfingarnar. Við eigum von á að hann verði þarna í jakkafötunum, með rautt bindi og píanóstrenginn í vasanum og eitthvað undir jakkanum. Svo fáum við aftur aðila frá The Dice Tower og Dan Abnett rithöfund og svo erum við alltaf á höttunum eftir fleiri gestum til að fylla upp í dagskrána,“ segir Hilmar Kolbeins.