„Miðborg án fastapunkta er ekki lengur miðborg heldur bara eins og hvert annað úthverfi,“ segir Eríkur Ágúst starfsmaður fornbókabúðarinnar Bókarinnar sem lifir enn góðu lífi á Klapparstíg. Enda er persónulegra að margra mati og umhverfisvænna að gefa notaða bók en múmínbolla og fjöldaframleitt prjál.
Senn fer í hönd hátíð ljóss og friðar og samhliða því á sér stað eitt stærsta bókaflóð í manna minnum á Íslandi. Frá útgefendum skvettast bækur í hillur verslana og þaðan í jólapakkana eða jafnvel til jólasveinanna sem lauma bókum í valda skó í gluggum. Svo hægist á flóðinu. Eftir áramót gutlar það áfram í skilum og skiptum þar til það nánast staðnæmist. En dagar bókarinnar eru ekki endilega taldir þegar látunum linnir. Löngu síðar rekur perlur á fjörur bókabúðar einnar við Hverfisgötu þar sem jólabókahófið hefst ekki fyrr en mörgum árum seinna. Verslunin verður sextug á næsta ári en hún á enn pláss á Klapparstíg þrátt fyrir samfélagslegar breytingar, netið og túrisma. Eiríkur Ágúst, fornbókasali í Bókinni á Klapparstíg 25, bauð Lestinni í heimsókn í búðina og ræddi við Önnu Marsibil Clausen um bækur sem ganga í endurnýjun lífdaga í hillunum hjá honum.
Fékk bækur í skóinn þá sjaldan hann var þægur
Það er sérstaklega mikilvægt að byrja að lesa bækur snemma á lífsleiðinni, eftir því sem Eiríkur segir, og hjarta bókabúðarinnar er barnahornið. Hillur barnahornsins geyma ýmsar perlur frá ólíkum tíma og ætti fólk af öllum kynslóðum að finna þar bækur sem það las spjaldanna á milli í bernsku þar. Þegar Eiríkur hóf sjálfur störf í búðinni fyrir rúmum áratug blöstu við honum bækurnar sem settu svip sinn á hans eigin uppvöxt. „Það er hlýtt og notalegt að sjá bækurnar sem ég hafði fengið í jólagjöf sem barn og unglingur,“ segir hann og bendir meðal annars á bækurnar um Mola flugustrák eftir Ragnar Lár sem hann las upp til agna á barnsaldri. „Þetta fékk ég í jólagjafir og jafnvel í skóinn ef ég var rosalega þægur, sem var ekki oft,“ glottir hann.
Eiríkur las líka Bróðir minn ljónshjarta í einum rykk á jólanótt í bernsku og minnist þess enn að hafa farið snöktandi í fjósið að mjólka ósofinn morguninn eftir, eftir að hafa fylgt bræðrunum alla leið inn í ljósið til Ningilima. Bróður minn ljónshjarta, í ólíkum útgáfum, og fleiri bækur eftir Astrid Lindgren má oftast finna í hillum barnahornsins í Bókinni.
Flugustrákur víkur fyrir sauðskinnsskóm og harðindum
Annars staðar í búðinni er horn sem geymir ýmsar fræðibækur sem Eiríkur hámaði sjálfur í sig þegar hann hafði slitið barnskónum. „Eftir að ég fór að kaupa eigin bækur var ég meira í þessum þjóðlega fróðleik. Ég er úr sveit og er alinn upp á neftóbaki og því höfðuðu til mín frásagnir manna sem töluðu hægt og sögðu frá sauðskinnsskóm og harðindum,“ segir hann en í búðinni er heilt safn af slíkum bókum. „Þetta hef ég lesið að stóru leyti.“
Gamlar bækur frekar en plast og múmínbolla
Það er mikið um að vera í fornbókabúðinni fyrir jólin eins og í öðrum bókabúðum þótt það séu aðrar bækur sem fólk leitar að í hillunum hjá Eiríki. „Margt af því sem gefið er út á ári hverju hverfur nefnilega og gleymist í auglýsingafarganinu,“ segir hann.
„Það fara ekki allar bækur í Kiljuna hjá Agli Helgasyni en þrátt fyrir það skjóta þær gjarnan upp kollinum hjá okkur tveimur eða tíu árum síðar. Þá kemur einhver sem ætlaði alltaf að lesa þessa bók en las heldur þær sem hann sá í blöðum og fjölmiðlum á sínum tíma. Það er mikið af prentuðu efni sem lendir undir en eru samt góðar bækur,“ segir Eiríkur og hvetur fólk í jólagjafaleit til að kíkja á gersemarnar í fornbókabúðinni og skoða hvort ekki finnist þar bók með sál til að lauma í pakkann. „Maður þarf ekki þetta stóra fína, það er miklu betra að gefa hlýjan hug og nánd. Eitthvað sem skiptir máli frekar en plast, gler og múmínbolla. Ég held maður eigi að horfa inn á við þegar maður gefur jólagjafir.“
Miðborg án fastapunkta ekki lengur miðborg
Auk fornbókabúðarinnar Bókarinnar eru enn nokkrar verslanir í miðborginni sem virðast hafa staðist tímans tönn. Sem dæmi nefnir Eiríkur verslunina Brynju á Laugavegi og Dóru gullsmið á Frakkastíg. „Þessar vörður ætti að friðlýsa. Miðborg án svona fastapunkta er nefnilega ekki lengur miðborg heldur bara eins og hvert annað úthverfi,“ segir Eríkur að lokum.
Rætt var við Eirík í Lestinni á Rás 1.