Komnar eru út tvær nýjar bækur sem fjalla um vandræðin innan sænsku akademíunnar, bækur skrifaðar af innstu koppum í búri akademíunnar. Gauti Kristmannsson fjallar um Nóbelsharmleikinn.
Gauti Kristmannsson skrifar:
Bókmenntaverðlaun eru að sumu leyti sérkennilegt fyrirbæri, þau eru afar mismunandi og njóta mismikillar virðingar. Það stafar að hluta til af því hvernig þau sem veita þau eru saman valin. Hér á Íslandi er það fremur einfalt, að ekki megi kalla snautlegt; oftast eru það stjórnmálamenn eða hagsmunaaðilar sem tilnefna einhverja tilfallandi þriggja manna nefnd sem ákveður hver fær verðlaunin hverju sinni og val í þá nefnd getur einnig verið nokkrum tilviljunum háð. Þetta er ekki sagt þessum nefndum til lasts, ég hef sjálfur setið í nokkrum slíkum, heldur er þetta einfaldlega ferli sem vekur ekki mikið traust, þetta er í raun angi af velunnaraveldi fyrri tíma, enda hefur okkur Íslendingum einhvern veginn tekist að halda í ýmsa lénsskipulagshugsun og það án þess að hafa nokkru sinni verið með aðalsmenn í kringum okkur. En smákóngarnir og -drottningarnar eru víða.
Frægustu og mikilvægustu verðlaunin undanfarna öld og rúmlega það eru vafalaust bókmenntaverðlaun Nóbels. Þau hafa einnig notið mikils trausts vegna þess að Sænska akademían fékk það hlutverk að velja verðlaunahafann og í henni sátu 18 valdir einstaklingar á grundvelli afreka sinna og þekkingar. Þetta fólk lét ekki þar við sitja og fékk á hverju ári tillögur frá þúsundum einstaklinga og hagsmunaðila um víða veröld, til dæmis prófessorum við Háskóla Íslands og Rithöfundasambandinu. Þannig var reynt að tryggja að ferlið væri traustvekjandi, þótt ekki væri það gagnsætt. Útkoman var því sú að stundum fengu óvæntir aðilar verðlaun, óvæntir í hugum tiltekinna hópa eða elíta. Dæmi um það er kannski pólska skáldið Wisława Szymborska sem hlaut verðlaunin 1996. Það kom þeim sem hana þekktu kannski ekki á óvart, en mörgum öðrum.
Fyrir um ári fjallaði ég á þessum vettvangi um hneykslið sem upp kom í kringum Sænsku akademíuna vegna ásakana um kynferðislegt áreiti gegn Jean-Claude Arnault, ljósmyndara og menningarforkólfs, en hann er kvæntur einum, nú fyrrverandi, meðlima akademíunar, Katarinu Frostenson. Þau hjón voru reyndar sökuð um fleira, til að mynda misnotkun á gæðum og fé akademíunnar. Hann hefur nú verið dæmdur til tveggja og hálfs árs fangelsisvistar fyrir brot sín og hún hefur orðið að víkja úr akademíunni. Engin Nóbelsverðlaun í bókmenntum voru afhent síðasta haust vegna þessa máls. Nú hefur Nóbelsstofnunin, sem heldur utan um verðlaunin almennt, ákveðið að Sænska akademían haldi áfram að veita verðlaunin, að því tilskildu að Horace Engdahl, sem lengi hélt uppi vörnum fyrir þau hjón, viki úr tillögunefndinni innan hennar og gerði hann það fyrir nokkrum vikum, ef marka má sænska fjölmiðla. Hann situr hins vegar áfram sem fastast í akademíunni. Nú á að veita tvenn verðlaun í haust þar sem árið í fyrra datt út.
En haldi menn að sögunni sé þar með lokið, Mjallhvít og amman sloppnar út úr úlfinum og hann kominn á vatnsbotninn með grjótið í maganum, þá er það mikill misskilningur. Þessir atburðir fylgja ekki þræði ævintýris með hamingjusömum endi, heldur miklu frekar harmleiksins, þar sem aðalpersónurnar búa yfir hinum klassíska harmræna veikleika sem leiðir þær í æ frekari ógöngur, hvað sem þær taka til bragðs. Spurningin er bara hvort verðlaunin lifi átökin af, því þau hófust á næsta stig á undanförnum vikum með útgáfu tveggja bóka eftir tvær af aðalpersónum leiksins, þau Katarinu Frostenson og Horace Engdahl. Ég vil taka fram að ég hef ekki lesið bækurnar í heild, aðeins brot og umfjallanir, frá gagnrýnendum sem höfundarnir myndu fremur fella undir rannsóknarréttinn en eitthvað annað; en þær eru að minnsta kosti mjög á einn veg.
Titill bókarinnar eftir Frostenson er eins stuttur og má vera, eða bókstafurinn K, sem stendur fyrir nafnið hennar, en er einnig upphafsstafur margra lykilorða í textanum, Kafka, kærleikur, kaos, kúnst, kaball (í merkingunni samsæri), kúltúr, katastrófa og fleiri orð sem hefjast á bókstafnum k. Harmleikurinn felst í þeirri algjöru afneitun sem þessi menntakona úr efsta lagi elítunnar sænsku, og þar með evrópsku, lætur frá sér fara. Hún kallar ásakendur öllum illum nöfnum, „blóðþyrst rándýr“, „hýenur“ og annað í þeim dúr, hún sér sig og sinn heittelskaða sem fórnarlömb samsæris öfundsjúks fólks og lýsir hvernig þau skötuhjúin sneru, meðan stormurinn geisaði, aftur til sinnar elskuðu Parísar þar sem þau áttu tilhugalíf sitt á sínum tíma, hún hverfur inn í sig og ástarsamband sitt og „nothing else matters“ eins og gagnrýnandi Expressen sagði með vísan í málmhausabandið Metallicu.
Þessi firring skáldkonunnar merku með langan frægðarferil að baki er eins og skólabókardæmi um harmrænan veikleika hinnar tragísku hetju og er það annarlegt að sjá hana tala nánast eins og Lér konungur á heiðinni, en kannski getur ástin meira að segja gert þá vitrustu að afglöpum; það er á sinn hátt fagurt, en um leið harmrænt. En hún er ekki ein í sinni ást, með manni sínum gegn öllum, það er ferill á bak við og hann tengist Sænsku akademíunni beint. Iðrunarleysi Katarinu Frostenson hefur áhrif á traustið sem unnt er að bera til akademíunnar, framhjá því verður ekki litið.
Til að bæta gráu ofan á svart, nánast bókstaflega, gaf Horace Engdahl nú fyrir stuttu út bókina Hinir áhyggjulausu. Þar mælir fyrir munn höfundar fígúran Mahuro, nokkurs konar hliðarsjálf, sem veltir fyrir sér stöðu karlmanna í samtímanum, hugsunarhætti þeirra og afstöðu sinni til tjáningarfrelsis sem hann sér ekki einungis sem fagurfræðilegt heldur einnig pólitískt, svo ég vitni til eins gagnrýnandans. En hann er líka í herferð, ef marka má beinar tilvitnanir í orð hans um pólitíska rétthugsun, hann kallar gagnrýni „áróðursapparat fræðanna“ og líkir fræðimönnum við „rannsóknarréttinn“ fræga, sem er vinsæl vísun hjá þeim sem þurfa að þola gagnrýni þeirra, og finnst hún einhvern veginn vera eins og þumalskrúfur pyndingameistara réttarins. Mér finnst þessi samlíking vera meira en lítið kjánaleg og hún hlýtur fremur að eiga sér rætur í vondri samvisku þeirra sem hana nota, því hvernig má það vera að gagnrýnisorð á prenti, oftast vel rökstudd (og betur en samlíkingin sjálf) séu þumalskrúfur rannsóknarréttarins?
Vissulega verður fróðlegt að lesa þessi innlegg í harmleik akademíunnar sænsku, en þau eru þegar farin að þyrla upp enn meira moldviðri í kringum stofnun sem á aðra öld gaf sig út fyrir að vera virki trausts og hlutleysis, nánast óumdeildur dómstóll bókmennta á Vesturlöndum og miklu víðar. Spurningin sem vaknar hlýtur að vera sú hvort Sænska akdademían þolir slíkan storm, eða er kannski þegar búið að stinga úr henni augun eins og Lé konungi? Það yrði mikill missir fyrir bókmenntirnar, en viðbrögð hinna harmrænu hetja benda ekki til annars en að þær vilji brjóta allt niður með drambi sínu og blindu.