Jóhannes Þór Skúlason framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar segir áhrifin af falli WOW air á ferðaþjónustuna séu byrjuð að koma fram og fram undan sé mun skarpari niðursveifla en áður var talið. Hann er svartsýnn á framtíðina í greininni en ferðamönnum um Keflavíkurflugvöll fækkaði um fjórðung í apríl miðað við sama tíma í fyrra.
Hann og Pétur Þ. Óskarsson framkvæmdastjóri Íslandsstofu ræddu ástandið í ferðaþjónustunni í Kastljósi í kvöld.
Hér má horfa á Kastljósið í heild sinni
Gjaldþrot WOW air og fækkun ferða Icelandair vegna vandræða með MAX-vélar bandaríska flugvélaframleiðandans Boeing hefur haft áhrif á ferðaþjónustuna. Nýlega var tilkynnt að vélarnar yrðu kyrrsettar lengur en áður hafði verið gert ráð fyrir.
Jóhannes Þór segir þau koma bersýnilega fram í ferðamannafjölda síðasta mánaðar. Það hafi verið slakasti ferðaþjónustumánuðurinn síðan fyrir gosið í Eyjafjallajökli árið 2010. Flugsætum til landsins fækki á árinu þó að einhver flugfélög séu að auka við framboð sitt.
Samdráttur um allt land
Hann segir ferðaþjónustufyrirtæki um allt land farin að finna fyrir samdrætti í fjölda ferðamanna, mun harðar en búist hafi verið við.
„Við erum að sjá þetta blandast saman við aðra þætti eins og almenna minnkandi eftirspurn, verðlagsáhrif síðustu ára og fleiri þætti sem eru að gera það að verkum að lausatraffíkin hérna er að detta niður. Hópar eru að minnka eða þeir afbókaðir. Staða í bókunum inn í sumarið hjá gistiþjónustunni er mjög slæm, allt frá 12 og upp í 40 prósent minnkun.“
Easyjet hefur tilkynnt um fækkun flugferða til landsins, það sé gert vegna þess að þeir flugfarþegar sem kaupi ódýr flugsæti telji Ísland of dýran áfangastað. Wizair og British Airways ætla að auka framboð sitt og United Airlines ætla að hefja flug til Íslands.
Markaðurinn fyllir upp í
Pétur segir að með fyllingu tímans muni markaðurinn sjá til þess að fylla í skarðið eftir fækkun flugsæta hingað til lands að því gefnu að landið verði áfram eftirsóknarverður áfangastaður eins og það er núna. Lággjaldaflugfélög séu frekar að draga úr flugferðum og breyting sé hafin á samsetningu ferðamanna, til að mynda frá Bretlandi. Neysla þeirra hér á landi hafi aukist töluvert mikið á undanförnum misserum.
Áhrifanna af falli WOW sé vissulega byrjað að gæta en enn sé ekki orðið skýrt hve mikil þau verði.
Jóhannes Þór segir hækkandi verðlag muni að lokum hindra vöxt í ferðaþjónustunni en það taki tíma fyrir það að gerast. Nú séu komin tvö ár síðan verðlagsáhrif komu fram að fullu og bendir á að þá hafi Ísland verið fjórða dýrasta land heims samkvæmt erlendum samanburði.
„Ég held við getum alveg gefið okkur það, miðað við það sem við erum að sjá í lækkandi eftirspurn, lækkandi leit á vefmiðlum og svo framvegis að þessi áhrif hafa örugglega töluvert inn í það að spila,“ segir Jóhannes Þór.
Hann segir ekki hægt að gefa sér að einungis ferðamenn sem eyddu litlu hér hafi komið hingað með WOW þó að það hafi verið lággjaldaflugfélag. Farþegar WOW hafi ekki verið ólíkir þeim sem komu með öðrum flugfélögum hingað til lands, að Icelandair undanskildu.
Vill skýrari viðbrögð vegna samdráttar
Jóhannes Þór segir að kanna þurfi hvað sé hægt að gera innanlands til að örva ferðaþjónustuna, bæta vöruþróun, auka nýsköpun, bæta stoðkerfið og auka markaðsstarf til framtíðar til að bregðast við því ástandi sem upp er komið.
„Það er það sem við erum að kalla eftir núna í greininni, skýrari viðbrögðum við þessum augljósu áföllum. Við teljum að það þurfi að leggja töluvert í þar,“ segir hann.
Samdráttur nemur 10 til 40 prósenta
„Samkvæmt okkar upplýsingum frá fyrirtækjunum í samtökunum, þá erum við að horfa á heilt yfir alveg sama hvar menn standa, hvort sem það er á Reykjavíkursvæðinu eða á landsbyggðinni, í hvaða grein það er, það er samdráttur frá svona 10-12 til 40 prósent,“ segir Jóhannes.
Sum ferðaþjónustufyrirtæki, til að mynda í afþreyingarþjónustu eins og hvalaskoðun séu að horfa upp á mikið fall í lausatraffík sem hafi verið stór hluti rekstrar hjá mörgum afþreyingarfyrirtækjum, einkum á landsbyggðinni.
„Þetta er að minnka töluvert mikið núna, allt niður í 30, 40 prósent fækkun frá því í fyrra. Það getur haft mjög alvarlegar afleiðingar á stöðu þessara fyrirtækja.“
Pétur segir að í einhverjum tilfellum hafi ferðaþjónustufyrirtækið eflaust veðjað of mikið á stöðugan vöxt í fjölda ferðamanna. „Þessi minnkun sem verður núna hún verður örugglega sársaukafyllri fyrir mörg fyrirtæki. Það vonda við svona fall er að þetta kemur mjög misjafnlega niður, ekki síst gagnvart landsbyggðinni og þeim sem eru fjarri þessu suðvesturhorni.“
Fyrirtæki í meiri fjarlægð frá suðvesturhorninu reiði sig í meiri mæli á sumartímann og segir Pétur miður að ferðaþjónustan þar sé því miður ekki orðin heilsársatvinnugrein.
„Maður hefur svolítinn ugg varðandi landsbyggðina fyrir sumarið og næsta vetur því þar má gera ráð fyrir að þetta verði erfitt, erfiðir mánuðir fram undan,“ segir Pétur.
Hann vill ekki spá til um hvort búast megi við fjöldagjaldþrotum en einhver fyrirtæki fari á hausinn vegna fækkunar ferðamanna. Engu að síður felist hagræðin í ferðaþjónustu vegna fækkunar fyrirtækja.
Samþjöppun hafin
Jóhannes Þór segir að samþjöppunartímabil sé hafið í ferðaþjónustunni og hagræðing sé væntanleg. Vandamálið sé hins vegar að stór hluti fyrirtækja sé lítill, einkum á landsbyggðinni og 86% ferðaþjónustufyrirtækja séu með 10 starfsmenn eða færri. Þar séu hagræðingarmöguleikar ekki fyrir hendi.
Töluverður samdráttur hafi verið kringum Jökulsárlón, eitt helsta aðdráttarafl íslenskrar náttúru. „Það hlýtur að hringja töluvert háum viðvörunarbjöllum varðandi næsta ár,“ segir hann.
Íslandsstofa stendur fyrir markaðssetningu á Íslandi á öllum helstu mörkuðum að sögn Péturs en hafi ekki fengið aukið fjármagn vegna samdráttarins. Auglýsingaherferð sé tilbúin fyrir haustið og veturinn að verðmæti 100 milljónum króna.
„Það er mat greinarinnar og stjórnvalda hvort ástandið núna kalli á auknar aðgerðir. Íslandsstofa er reiðubúin og við erum tilbúin að fara af stað með mjög skömmum fyrirvara,“ segir hann.
Miklar breytingar á skömmum tíma
Jóhannes Þór segir mikilvægt að gera sér grein fyrir þeirri stöðu sem komin sé upp í greininni sem sé allt önnur en hún var fyrir nokkrum mánuðum síðan. „Niðursveiflan er að verða mun skarpari heldur en við áttum von á fyrir hálfu ári síðan.“