Á þriðja hundrað þúsund manns í norðvesturhluta Bangladess eru í nauðum staddir vegna flóða í landshlutanum að undanförnu. Stjórnvöld og Matvlælaáætlun Sameinuðu þjóðanna hafa tekið höndum saman um að aðstoða fólkið.
Monsúnvindar með hellirigningu hafa að undanförnu geisað í landshlutanum og valdið flóðunum. Starfsfólk Matvælaáætlunarinnar hefur flutt matvæli til flóðasvæðanna ásamt því að sjá þeim sem verst eru staddir fyrir peningum til kaupa á helstu nauðþurftum. Stjórnvöld í Dakka áætla að yfir 275 þúsund manns séu hjálpar þurfi.
Í fyrsta skipti hefur áætlun Matvælaáætlunarinnar verið virkjuð, sem byggist á að fylgjast með veðurspám til að koma til aðstoðar á sem skemmstum tíma, til dæmis með fjárhagsaðstoð. Um það bil fimm þúsund heimili í Kurigram héraði hafa fengið jafnvirði 6.500 króna sent rafrænt í farsíma til kaupa á mat og öðrum nauðsynjavörum. Þeir sem verst voru staddir fengu fjárhagsaðstoðina afhenta í seðlum.
Matvælaáætlunin aðstoðar um 250 þúsund manns um þessar mundir í þremur héruðum í norðvesturhluta Bangladess með því að dreifa til þeirra næringarríku kexi sem á að duga í þrjá sólarhringa. Kex af þessu tagi er oft notað þar sem neyðarástand hefur skapast, þar sem það er næringarríkt, tilbúið til neyslu og auðvelt í flutningi.
Víðar í Bangladess er fólk í nauðum statt vegna óveðursins að undanförnu. Almannavarnaráðuneytið í Dakka áætlar að yfir 2,3 milljónir landsmanna í tuttugu héruðum af sextíu og fjórum þurfi hjálpar við. Í frétt frá Matvælaáætluninni kemur fram að vandlega sé fylgst með flóðunum. Frekari aðstoð verðik veitt ef ástandið versnar enn frekar.