Netflix hyggst draga verulega úr reykingum í þáttum sem fyrirtækið framleiðir eftir harða gagnrýni. Nýleg skýrsla sýnir að reykingar á skjánum eru mun algengari í Netflix-þáttum en í myndum annarra framleiðenda.

Efnisveitan hefur margoft verið gagnrýnd fyrir að framleiða þætti þar sem persónur reykja mikið. Nú verður hins vegar breyting þar á en í dag tilkynnti efnisveitan að reykingar í þáttum sem höfða til ungs fólks verða einungis leyfðar þegar þær skipta máli í sögulegu ljós. Í öðrum þáttum verða reykingar einungis sýndar ef þær þykja mikilvægar fyrir persónuna.

Í yfirlýsingu segist Netflix þó áfram styðja listrænt frelsi handritshöfunda og framleiðenda en veitan horfist í augu við skaðsemi reykinga og hvaða áhrif það getur haft á ungt fólk að sjá reykingar sýndar á jákvæðan hátt á skjánum.

Ný stefna Netflix kemur í kjölfar úttektar samtaka sem berjast fyrir tóbakslausum lífsstíl. Úttektin leiddi til að mynda í ljós að á árunum 2015 til 2017 komu reykingar 444 sinnum fyrir í þáttaröðinni Stranger Things, 95 sinnum í þáttaröðinni House of Cards, 300 sinnum í þáttaröðinni Unbreakable Kimmy Schmidt og 278 sinnum í hinni vinsælu Orange is the new black. Úttektin leiddi sömuleiðis í ljós að reykingar koma oftar fyrir í þáttum Netflix en í öðrum vinsælum bandarískum þáttum. 

Reykingar hafa áður leitt til siðferðislegra álitamála í Netflix-þáttum en Vanessa Kirby sem leikur Margréti prinsessu í The Crown sagði frá því að hún og leikstjórinn hefðu velt því fyrir sér hvort það væri siðferðilega rétt að sýna Margréti reykja meðan hún var ólétt. Þrátt fyrir að það sé talið nánast öruggt að Margrét hafi reykt á meðgöngunni ákváðu þau að láta hana ekki sjást með sígarettu.