Þrjár íslenskar myndlistarkonur hafa síðustu daga og vikur unnið naktar að myndlist sinni í Aþenu í Grikklandi í steikjandi hita. Þetta eru þær Katrín Inga Jónsdóttir Hjördísardóttir, Rakel McMahon og Eva Ísleifsdóttir sem kanna tengsl nektar, virkni og áhorfs í allsérstökum gjörningi.

 Þær Katrín, Rakel og Eva hafa unnið saman að myndlist sinni á síðustu árum.„Við höfum verið að skoða gjörningalistformið og setja það í samhengi við það sem við gerum sem listakonur hver í sínu horni,“ segir Rakel. „Eva vinnur mikið skúlptúr, ég með teikningar og málverk og Katrín með vídeó og hljóð, en gjörningurinn er kannski það sem sameinar okkur, þó að við séum mjög ólíkar.“

Nektin í myndlist

Frá árinu 2012 hafa þær stöllur velt nektinni fyrir sér og skoða nú „það að horfa“ en í því tilviki eru þær undir áhrifum frá frægri bók breska listfræðingsins John Berger sem hét About looking og kom út árið 1980.  

Í sumarhitanum í Aþenu liggja þær eiginlega í einni kös í íbúð í borginni og teikna hver aðra á evuklæðunum. „Það er ástæða fyrir því að við höfum birt myndir af verkefninu á samfélagsmiðlum, af því að þetta eru teikningar sem fjalla um nekt og virkni. Við notum enska vinnutitilinn „the nude drawing the nude,““ segir Eva. „Þetta fjallar um það að horfa og vera „aktífur“ í því.“ Rakel bendir á að oft sé horft á nekt í myndlist sem óvirka. „Það er ekki endilega gert ráð fyrir að þú stundir garðyrkju nakinn eða keyrir bíl.“

Rétti staðurinn

Þær Rakel og Eva benda á að Aþena sé kjörinn staður til að velta fyrir sér nektinni og listinni. „Við höfum velt fyrir okkur sígildum grískum höggmyndum þar sem nektin er upphafin og dásömuð og einnig höfum við nálgast þetta út frá heimspekinni en fornu grísku heimspekingarnir lögðu áherslu á að rækta bæði líkama og huga, oft jafnvel naktir,“ segja þær Rakel og Eva og bæta því við að hitinn í borginni sé slíkur þessa dagana að það sé hvort sem er best að vera í sem fæstum klæðum. 

Viðtalið í heild sinni er í spilaranum hér fyrir ofan. Rætt var við Rakel McMahon og Evu Ísleifsdóttur í Lestinni.