Ásmundur Einar Daðason félagsmálaráðherra stendur við þá niðurstöðu velferðarráðuneytisins, að hvorki Bragi né Barnaverndarstofa hafi gerst brotleg í starfi. Hann segist ekki hafa leynt gögnum um rannsókn á máli forstjóra Barnaverndarstofu.

„Þvert á móti þá er það svo að ég hafði frumkvæði að því á sínum tíma að fá að hitta velferðarnefnd, til þess að ræða þessi mál,“ segir Ásmundur.

Ráðuneytið hafi afhent nefndinni öll gögn málsins. „Velferðarráðuneytið tók saman öll gögn sem þessu máli tengjast, sendi það til nefndarinnar og nefndin er með öll sömu gögn og ráðuneytið hefur undir höndum,“ segir Ásmundur. Gögnin bárust nefndinni á þriðjudag. 

Ásmundur útilokar ekki að gögnin verði afhent fjölmiðlum, að fjarlægðum persónugreinanlegum gögnum.

Aðspurður hvort til greina komi að draga tilnefningu Braga til setu í Barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna til baka segir Ásmundur að því verði ekki hægt að svara fyrr en að loknum nefndarfundi velferðarsviðs eftir helgina. Halldóra Mogensen, formaður velferðarnefndar, boðaði til opins fundar vegna málsins, þar sem hún telur ýmislegt benda til þess að nefndin hafi verið leynd upplýsingum vegna málsins.

„Það kom mér mikið á óvart, þessi rannsókn sem byrjaði í ráðuneytinu á seinasta kjörtímabili og lauk núna hjá núverandi ráðherra, að það hafi ekkert komið út úr því annað en að það hafi bara enginn brotið af sér í starfi og að þetta séu samskiptavandamál og það bárust aldrei nein gögn eða rök fyrir þessari niðurstöðu,“ segir Halldóra.

Ef í ljós kemur að ráðherra hafi sagt ósatt í pontu Alþingis, hvað þyrfti þá að gerast? „Hann á náttúrulega bara að segja af sér,“ segir Halldóra. 

Hægt er að hlusta á viðtal við Ásmund í spilaranum hér fyrir ofan.