Meira en milljón dýra- og plöntutegundir eru í útrýmingarhættu og það er að mestu mannanna verk, að sögn vísindamanna. Náttúrunni hnignar hraðar en áður og staðan verri en nokkru sinni í sögu mannkyns.
Maðurinn og mikil og eilíf þörf hans fyrir mat og orku veldur miklu álagi á vistkerfi jarðar og það hefur aldrei verið meira en nú. Og það er sama hvert litið er, í lofti, á láði og legi ógnar hann lífinu í kringum sig. Mannfjöldi á jörðinni hefur tvöfaldast frá 1970 og hagkerfi heimsins fjórfaldast. Regnskógarnir hverfa hratt og aðeins brot þess votlendis sem var hér fyrir 250 árum er eftir. Það er því þrengt að fjölda dýra- og plöntutegunda og heimkynni þeirra og vistkerfi á undanhaldi. Í dag var birt skýrsla sem unnin er af alþjóðastofnun um líffræðilega fjölbreytni og vistkerfi sem heyrir undir Sameinuðu þjóðirnar og skýrsluhöfundar draga upp dökka mynd af stöðunni.
Þörf á grundvallarbreytingum á framleiðslu og neyslu
Í skýrslunni segir að gera verði grundvallarbreytingar á framleiðslu og neyslu, á nánast hverju sem er, ekki síst er snýr að matvælum. Richard Watson, einn skýrsluhöfunda, segir að niðurstöður skýrslunnar snúist ekki um að bjarga dýrum og plöntum í útrýmingarhættu heldur standa vörð um þann heim sem sé orðinn erfiðari fyrir manninn til að búa í. Josef Settele, prófessor við Helmholtz rannsóknarstöðina í Þýskalandi, segir mannkyn ekki virðast vera í bráðri hættu, en óvíst sé að segja til um framtíð hans á jörðu til lengri tíma litið. Ef mannkyn deyi út muni náttúran finna sína leið eins og alltaf.
Brýnt að vernda selina
Talið er að um fjórðungur allra dýra- og plöntutegunda sé nú í útrýmingarhættu. Síðasta haust var í fyrsta sinn gerður válisti fyrir íslenskar spendýrategundir og eru þar fimm tegundir, þar af tvær í mikilli hættu, landselurinn og sléttbakurinn. Landselur er samt sem áður algengasta selategundin við Ísland, en stofninn hefur hrunið á síðustu 35 árum um nær 80 prósent. Stofn sléttbaksins minnkar stöðugt og eru nú einungis um 450 dýr í heiminum öllum. 91 fuglategund er á landinu, þar af 41 á válista. Ester Rut Unnsteinsdóttir, spendýravistfræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands, hefur yfirumsjón með vistkerfum spendýra hjá stofnuninni. „Það er mjög brýnt að koma selunum í einhvers konar vernd. Þeir falla ekki inn í villidýralögin, öll villidýr eru vernduð samkvæmt lögum frá 1994 og það þarf einnig að kortleggja hvað það er mikið veitt af landsel. Það er talsvert búið að skoða helstu ógnirnar, en það eru mjög líklega hjáveiðar og svo hugsanlega fæðuskortur,“ segir Ester Rut.