Erfið veðurskilyrði gera það að verkum að manni líður eins og á Mars. Þetta segir einn stjórnenda verkefnis sem prófar búnað hér á landi fyrir leiðangur NASA til Mars.
Við rætur Langjökuls standa nú yfir prófanir á vegum bandarísku flug- og geimvísindastofnunarinnar NASA, á búnaði fyrir jeppa sem nota á í leiðangri til Mars árið 2020. Að verkefninu koma vísindamenn frá bandarískum háskólum og hópur nemenda úr HR hefur verið rannsóknarteyminu til aðstoðar, aðallega við að skoða svæðið fyrirfram.
„Við sendum dróna til að gera kort af svæðinu, til að gefa þeim betri mynd af svæðinu hvernig það lítur út í dag," segir Kjartan Bjarmi Árnason, hátækniverkfræðinemi við HR.
Myndavélar sem virka nánast eins og mannsaugu
Jeppinn er ekki sá sami og fer á Mars en tæknin er svipuð. Myndavélar á drónanum virka nánast eins og mannsaugu. „Hann getur búið til þrívíð kort af landinu fyrir framan jeppann og þegar forritið okkar skoðar það sér það ekki aðeins myndir heldur skilur hvert róbótinn getur ekið og hvernig landslaginu er háttað," segir Ewan Reid, framkvæmdastjóri Mission Control Space Services, tæknifyrirtækisins sem sér um þróun hugbúnaðs jeppans.
Vísindamenn hafa komið sér fyrir í tjaldi sem þau kalla jörðina. Þar móttaka þau myndir frá jeppanum í hárri lausn sem gefur vísbendingu um fjölbreytni umhverfisins. Þá vinna verkfræðingar á öðrum stað að því að forrita hugbúnað jeppans jafnóðum eftir upplýsingum úr jarðtjaldinu. Sérstaklega vilja þau fylgjast með breytingum á eðlis- og efnafræðilegum eiginleikum jarðvegs þegar hann berst með vatni og vindum.
Jarðvegurinn svipaður og á Mars
Staðsetningin er einstaklega heppileg, því hér eru farvegir í sandinum eftir vatn sem kemur undan jöklinum sem minnir mjög á farvegi á Mars og þar er basalt-sandur sem er svipaður jarðveginum á Mars.
Það vill svo til að eigandi og framkvæmdastjóri Mission Control Space Services er bróðir forsetafrúarinnar, Elizu Reid. Hann segir það hafa verið frábært að vinna verkefnið á Íslandi. „Þessi erfiðu skilyrði láta manni finnast maður vera á Mars. Það er þáttur í því sem við erum að reyna. Það er í lagi þó að blási og sé kalt og það er líka fínt því þegar sólin skín, þá kunnum við þess betur að meta það," segir Ewan Reid léttur í bragði.