Á seinni hluta síðustu aldar naut bókaflokkurinn Þrautgóðir á raunastund mikilla vinsælda. Í á annan tug bóka rakti Steinar J. Lúðvíksson sögur af baráttu Íslendinga við hafið og nú hafa valdir þættir úr ritröðinni verið endurútgefnir í fjórum bindum.
Steinar J. Lúðvíksson er höfundur ritraðarinnar Þrautgóðir á raunastund sem kom út í nítján bindum á árunum 1969–1988 og naut mikilla vinsælda. Steinar hefur nú tekið upp þráðinn þar sem frá var horfið og tekið saman helstu atburði úr bókunum auk þess að fjalla um síðasta fjórðung tuttugustu aldarinnar sem ekki hafði verið gert áður. Þannig eru tvö bindi gefin út, annars vegar frá 1950 til 1975 og svo frá 1975 til 2000.
„Það er ætlunin að gefa út í fjórum bókum valda þætti úr eldri bókunum. Í fyrstu af þessum fjórum er fjallað um þá tíma sem ég hafði ekki fjallað um áður, 1975-2000. Þetta voru nítján bækur,“ segir Steinar J. Lúðvíksson sem var ekki á því á sínum tíma að skrifa þetta margar bækur í þessari röð. „Það kom strax í ljós hvað það var mikill áhugi á þessu. Þegar komnar voru fjórar bækur, þá vildi ég nú bara setja punktinn aftan við Brennu-Njáls sögu en þá má segja að það gildi það sama og í pólitík að það var komið að máli við mig um að halda þessu áfram og satt að segja var svo mikil eftirspurn að þessu var haldið áfram.“
Frásagnirnar eru margar hverjar í senn skelfilegar og stórbrotnar og þurftu bæði sjómenn og björgunarmenn að berjast við óblíð náttuúruöflin eins og þau gerast illvígust, með búnaði sem í dag þykir æði frumstæður. Steinar hefur í þessari nýju samantekt talið upp nær alla þá sem týnt hafa lífi á miðum úti. „Sjóslysin voru mjög mikil og tíð og mannfórnir í þessari atvinnugrein alveg hræðilegar þegar litið er á þessa öld. Það sem er svo nýtt í þessum bókum er að ég tók mér það fyrir hendur að reyna að finna nöfn á öllum þeim Íslendingum sem fórust í sjóslysum á tuttugustu öldinni. Það er búið að vera mjög mikil vinna og erfið en ég held að þetta sé orðið nokkuð áreiðanlegt í bókunum. Þar er upptalning á öllum þeim sem hafa farist, sem er á fimmta þúsund á einni öld.
„Nánast í hverjum róðri tefldu menn í tvísýnu og engar veðurfréttir, ekkert sem menn höfðu við að styðjast. Maður heyrir í dag fréttir af ofsaveðrum sem munu skella á, þau skullu líka á í gamla daga en þá með miklu alvarlegri afleiðingum heldur en er núna þegar meira að segja vegum er lokað í tíma,“ segir Steinar. Þegar Steinar er beðinn um að nefna einn af þessum voveiflegu atburðum rifjar hann upp Nýfundnalandsveðrið í febrúar 1959. „Það voru margir íslenskir togarar á Nýfundnalandsmiðum þegar skall á sannkallað voðaveður og einn togari fórst með allri áhöfn, þrjátíu mönnum og margir sem voru hætt komnir og fyrir liggur ótrúleg saga af þrautseigju og dugnaði áhafnanna við að halda skipunum uppi. Það var mikil ísing, kuldi, hvassviðri og mikil ölduhæð. Þetta var skelfilegur atburður,“ segir Steinar J. Lúðvíksson höfundur bókanna Þrautgóðir á raunastund.
Viðtal Egils Helgasonar við Steinar J. Lúðvíksson í Kiljunni má sjá hér að ofan.