Í þriðja pistli sínum um yfirvofandi heimsendi hugar Karl Ágúst Þorbergsson að ferðaþjónustunni á Íslandi og þeim blekkingarleik sem hann segir Íslendinga leika þegar kemur að meintri hreinni náttúru landsins.
Karl Ágúst Þorbergsson skrifar:
Við munum öll deyja. Öll. Við deyjum öll. Við munum öll deyja. Lesandi, þú ert dauðans matur.
En þetta vitum við og höfum alltaf vitað. Allir deyja. Allir. Undanfarið hefur hins vegar komið nýr og öllu alvarlegri vinkill á þessa staðreynd. Ef fram heldur sem horfir og ekki verður gripið til róttækra aðgerða til að stemma stigu við hamfarahlýnun með gagngerum breytingum á vestrænum lifnaðarháttum okkar og sturlaðri neysluhyggju munum við öll, sem tegund, deyja.
Akkúrat núna erum við stödd í eins konar limbói raunveruleika og blekkingar. Sjaldan hefur umræða um raunverulegar afleiðingar loftslagskreppunnar verið jafn áberandi en um leið virðumst við Íslendingar keppast við að viðhalda ímynd um náttúrulegan hreinleika lands og þjóðar þrátt fyrir ýmsar vísbendingar um takmarkaða innistæðu fyrir því.
Í mars 2008, rétt rúmu hálfu ári áður en fjármálahrunið skall á með öllum sínum opinberunum á ofsafenginni græðgi fjármálaheimsins, sjálfshygli stjórnmálamanna og brennandi Óslóartrjám, var birt fræg skýrsla á vegum forsætisráðuneytisins um hvernig væri best að haga ímyndarmálum Íslands. Kraftur, frelsi og friður eru þau hugtök sem samrýmast best þjóðarsálinni að mati skýrsluhöfunda og ættu að mynda kjarna ímyndarherferðarinnar. Eftirfarandi er brot úr skýrslunni:
„Til viðbótar við þennan kjarna er nauðsynlegt að draga fram það sérkenni sem aðgreinir Ísland og Íslendinga frá öðrum þjóðum og aðrir geta ekki svo auðveldlega gert tilkall til. Náttúrulegur kraftur er sérkenni Íslands. Hann greinir land og þjóð frá öðrum og gefur Íslandi sérstöðu. Þjóðin er mótuð af lífsbaráttu í síbreytilegri náttúrunni. Náttúrulegur kraftur skýrir hvernig þjóðinni tókst að lifa af í harðbýlu landi, öðlast sjálfstæði, komast á topp lífskjaralista Sameinuðu þjóðanna og í hóp samkeppnishæfustu þjóða heims á nokkrum áratugum.“
Með einstakan náttúrulegan kraft okkar lands og þjóðar að vopni átti nú að sigra heiminn. Hér, á þessu skeri lengst norður í rassgati, býr einstök, kraftmikil, friðelskandi og frelsisdýrkandi þjóð við einstakar aðstæður í einstakri, óspilltri og hreinni náttúru. Við erum best í heimi og það þurfa aðrir að vita.
Við erum umhverfissóðar
Þó svo að sú ímynd sem dregin er upp í skýrslunni sé gegnsýrð af vafasömu þjóðernisstolti og manískri hugmyndafræði fyrirhrunsáranna þá virðist svo vera að kjarni hennar, hinn náttúrulegi og hreini kraftur lands og þjóðar, sé enn ráðandi í hugum okkar og gegnsýri stærstu atvinnugreinar okkar. Orkugeirinn er byggður í kringum þessa hugmynd, ferðaþjónustan sömuleiðis og sjávarútvegurinn líka. Allt saman byggt á ímyndinni um hreinleika hinnar ósnortnu náttúru og menningararf hinnar kraftmiklu frelsisþjóðar sem grundvallast á sjálfbærri nýtingu auðlinda náttúrunnar og virðingu í garð hennar.
Það er hins vegar einn hængur á. Við erum umhverfissóðar. Við erum einhverjir mestu umhverfissóðar Evrópu. Við mengum helmingi meira en meðaltal allra Evrópuþjóða. Og þó býr engin Evrópuþjóð yfir jafnmiklum endurnýjanlegum orkuauðlindum og við, flestar þjóðir Evrópu notast aðallega við brennslu á jarðefnaeldsneyti í formi gass eða kola, en þrátt fyrir það erum við mestu sóðarnir. Hér eru langflestir bílar á á hverja þúsund íbúa í allri Evrópu. Langlangflestir. Meira að segja fleiri en í Bandaríkjunum. Á fögrum vetrardögum þega sólin skín og froststilla liggur yfir borginni mæla heilbrigðisyfirvöld með því að fólk haldi sig inni vegna þess að mengunarský liggur yfir borginni.
83% beint í stóriðju
En þó teljum við öðrum og um leið okkur trú um að við séu hrein þjóð í hreinu landi. Í ímyndarskýrslunni er lögð á það rík áhersla að ímynd landsins sé byggð á þeim einkennum lands og þjóðar sem geta talist sönn eða ekta og eigi sér djúpar rætur. Í okkar tilfelli er ímyndin hvorki sönn, ekta né með djúpstæðar rætur. Hún byggist einfaldlega á þversagnakenndri lygi.
Auðlindir okkar Íslendinga eru vissulega miklar og sá möguleiki er til staðar að nýta þær á sjálfbæran og umhverfisvænan hátt. Vissulega er orkan unnin á sjálfbæran hátt en notkun hennar er eins langt frá því að vera sjálfbær og hægt er. 83% allrar raforku sem framleidd er í landinu fer í stóriðju. Það þýðir að 17% raforku á Íslandi fara til allra heimila, með öll sín heimilistæki, á allar skrifstofurnar sem margar hverjar láta ljósin loga allan sólarhringinn, allar heilsugæslur, alla spítala, alla ljósastaura og bíóhús, allar sjoppur þó að þeim fari því miður fækkandi, öll gróðurhús sem fá engan afslátt af raforkuverði eins og stóriðjan, öll nýju led-auglýsingaskiltin sem halda íbúum í nágrenni þeirra svefnvana, allar búðir, allan glerhjúp Hörpu, öll hleðslutæki fyrir alla síma og allar tölvur, allir skólarnir, allir leikskólarnir, allir háskólarnir o.s.frv., o.s.frv., o.s.frv. 83% hinnar hreinu endurnýjanlegu orku Íslands fara sem sagt beint í stóriðju.
Stóriðja, hvort sem um ræðir kísilver, álver eða járnblendiverksmiðjur, eru stórkostlega mengandi fyrirbæri og bera ábyrgð á langstærstum hluta útblásturs gróðuhúsalofttegunda á Íslandi. Svo mikill er útblásturinn að við höfum vart undan að kaupa losunarheimildir til að við getum staðið við alþjóðlegar skuldbindingar í loftslagsmálum. En stóriðja okkar nýtir ekki bara rafmagn frá endurnýjanlegum orkugjöfum, meira þarf til til að kynda ofnana. Töluvert er brennt af bæði kolum og viði. Kísilverið á Bakka flytur t.d. inn um 66 þúsund tonn af kolum til framleiðslu á kísilmálmi á ári. Viðarkurlinu, sem er að sama skapi nauðsynlegt í framleiðslunni, er líka siglt til landsins en þó er stefnt að örlítið vistvænni nýtingu þar því markmiðið er að nota mörg tonn af íslenskum viði úr ört vaxandi íslenskum skógum til brennslu í stóriðjunni. Þar með erum við kominn í skringilega og vafasama hringrás þar sem við erum farin að rækta skóga til að binda kolefni vegna mengandi útblásturs okkar en nýtum svo afurðir skógarins í mest mengandi starfsemi landsins.
Skil milli raunveruleika og ímyndar
Virkjun endurnýjanlegrar orku á Íslandi felst fyrst og fremst í stíflun stórra vatnsfalla, oftar en ekki lengst uppi á hálendi þar sem enginn spáir neitt í þau, segja menn. Jú, einhverjum virðist ekki standa alveg á sama þegar risastórar virkjanir og tilheyrandi uppistöðulón spilla ósnortinni náttúrunni uppi á heiði. Nýlegar skýrslur sýna til að mynda fram á að ósnortið land á borð við víðerni Íslands er mun meira virði þegar það er látið vera en þegar það virkjað til að knýja enn eitt álverið. Í þessu ljósi er auðvelt að benda á Kárahnjúkavirkjun, sem ein og sér, sér um að skaffa álveri Fjarðaráls á Reyðarfirði rafmagn og ekkert annað. Nú eru hafnar framkvæmdir norður á Ströndum þar sem virkja á Hvalá og raska þar með enn einum óspilltu víðernunum. Áhugafólki um mannlega bresti og þversagnir þeim tengdar má benda á að ekki ennþá er búið að ráðstafa þeirri orku sem ávinnst með framkvæmdinni. Helst hefur verið rætt um gagnaver í því samhengi þar sem grafið verður fyrir hinni fullkomnu hít sem er bitcoin. Látið ekki svona, þetta reddast.
En það er kannski einna helst í ferðaþjónustunni sem skilin milli raunveruleika og ímyndar birtast einna skýrast. Þar endurtökum mýtuna um hreinleika landsins og náttúrulegan kraftinn nánast út í hið óendalega. Það er ekkert nema eðlilegt, sögur og mýtur hjálpa okkur að skilgreina hver við erum og byggja upp sjálfsmynd út frá sameiginlegum gildum. Það verður hins vegar áhugavert þegar skekkjan milli þeirra sagna sem við segjum og raunveruleikans er orðin þrúgandi mikil og erfitt að staðsetja í hverju gildin felast.
Sú ímynd sem við seljum ferðamönnum sem hingað koma er nánast beint upp úr skýrslunni góðu og gengur öll út á að selja fólki hugmyndina um hreinleika náttúrunnar. Ég þori að fullyrða að 99% þeirra ferðamanna sem koma til Íslands eru með það að markmiði að skoða hreina og óspillta náttúruna. Og að sjálfsögðu skrítna, hvíta, ljóshærða fólkið sem býr hérna. Allar auglýsingaherferðir okkar ganga út á þetta. Allar. Hvítt fólk í lopapeysu í hreinni og tærri náttúru. Helst að borða skyr. Eða fisk. En við borðum ekki fisk. Við borðum kjúkling. Og skyrið er ekki lengur skyr heldur sykraður jógúrtdrykkur. Og við erum ekki öll hvít. Alls ekki. Og náttúran okkar er hvorki óspillt né hrein. Í það minnsta komum við ekki fram við hana á þann hátt. Við virkjum hana beinlínis til að menga. 90% okkar fara milli staða innanbæjar ein í bíl með tilheyrandi hækkandi styrkleika svifryksmengunar. Og lopapeysan er ekki íslensk heldur er hún líklega frá Suður-Ameríku.
Þetta reddast
Ferðamannastraumurinn hefur vaxið jafnt og þétt frá því eftir hrun. Í dag koma um 2,3 milljónir ferðamanna til landsins miðað við rúmlega 400 þúsund fyrir hrun. Það gefur því augaleið að flugsamgöngur, á hverjum ferðamannaiðnaðurinn byggist, hafa aukist til muna en þær eru einmitt eitt mest vaxandi vandamál tengt hamfarahlýnun þar sem þær bæði menga óstjórnlega mikið og þær fara vaxandi með hverju árinu. Fólk í fríi mengar einnig töluvert meira en fólk sem sinnir hversdagslegum erindum, neyslan rýkur upp, það kaupir meira plastdrasl sem er framleitt í Kína, siglt með hingað og selt í lundabúðum. Um leið og við erum að bjóða fólki hingað til að skoða hina hreinu og óspilltu náttúru, erum við að stuðla að aukinni mengun hennar í smáa samhenginu og ýta undir frekari neysluhyggju, sem er helsti orkugjafi hamfarahlýnunar, í stóra samhenginu. Og um leið og við tælum til okkar fleiri og fleiri ferðamenn, fljúgum við sjálf oftar og oftar til útlanda.
Það þarf ekki nema smá leiðinlegt vor eða fótboltamót einhvers staðar og þá erum við sem heild flogin af landi brott. Í fyrravor, þegar það rigndi nánast samfleytt í maí, júní og júlí, varð met í sölu utanlandsferða. Við einfaldlega flúðum land. Kaldhæðni örlaganna er kannski sú að ástæða þess að það rigndi alla daga nema fimm í þrjá mánuði er einmitt afleiðing hamfarahlýnunar. Núna í ár hefur nánast ekkert rignt á suðvesturhorni landsins. Þetta eru nákvæmlega þær öfgar í veðurfari sem vísindamenn hafa bent á að verði algengari og algengari og meiri og meiri á næstu árum. En viðbrögð okkar felast fyrst og fremst í því að strauja kortin og fljúga beinustu leið í hitabylgjuna á Spáni, því sem í júní síðastliðnum var kallað helvíti á jörð. Á einhvern mjög skakkan og þversagnakenndan hátt erum við eiginlega að flýja áhrif loftslagskreppunnar sem við eigum stóran þátt í að skapa og við flýjum beint inn í auga stormsins. Seinna, við dílum við þetta seinna. Þetta reddast allt saman.
Þetta reddast. Í þessum lífseiga frasa kjarnast einmitt ímynd okkar sem þjóðar, í þessum frasa felst hinn náttúrulegi kraftur og atorkusemi okkar sem þjóðar og frelsisdýrkunin. Höldum bara áfram eins og ekkert sé, borum þessi göng, byggjum þessa höfn, keyrum þessa bíla og fljúgum um loftin eins og ástfangnar flugvélar. En þetta reddast nefnilega aldrei og hefur aldrei gert. Það er alltaf einhver sem reddar þessu. Þetta reddast firrir okkur allri ábyrgð og ýtir henni yfir á einhverja aðra, yfir á einhvern annan tíma, á framtíðina. En möguleikinn er einmitt sá að í framtíðinni muni enginn getað reddað málunum því ef við keyrum fulla ferð áfram á úr sér genginni ímynd okkar byggðri á manískri hugmyndafræði, stórlega afbyggðum raunveruleika og þetta-reddast-viðhorfi, þá munum við öll, sem tegund, deyja.
Að lokum legg ég til að kapítalisminn verði lagður í rúst.
Góðar stundir.