Snorri Páll Jónsson Úlfhildarson fjallar um hlutskipti hins stritandi manns og linnulausar tilraunir hans til að skilja það, umbylta og losna undan því — með hugmyndafræði og listir, trúarbrögð og tækniframfarir að vopni.


Snorri Páll Jónsson Úlfhildarson skrifar:

Miðvikudagur. — Og lífið gengur sinn gang,
eins og guð hefir sjálfur í öndverðu hugsað sér það.
Manni finnst þetta dálítið skrítið, en samt er það satt,
því svona hefir það verið og þannig er það.

Þannig lýsir Steinn Steinarr merkingarlausri tilveru mannsins í ljóðinu „Miðvikudagur“ sem kom út í ljóðabókinni Rauður loginn brann árið 1934.

Þér gangið hér um með sama svip og í gær,
þér sigrandi fullhugar dagsins, sem krónuna stýfið.
Í morgun var haldið uppboð á eignum manns,
sem átti ekki nóg fyrir skuldum. — Þannig er lífið.

Strax í þessari fyrstu bók Steins, sem kom út á hans tuttugasta-og-sjötta aldursári, birtist rígur tveggja ólíkra lífsviðhorfa; reiptog stórhuga sósíalista og vonlítils exístensíalista; ágreiningur um það hvort manninum sé mögulegt að umbylta hlutskipti sínu — „leggja í sölurnar líf [sitt] og blóð [...] berjast um brauðið [og] brjóta af [sér] kúgarans hlekki,“ líkt og Steinn kallar eftir í hvatningarorðum til öreigaæskunnar — eða hvort slíkar vonir séu „[d]raumar sem [hverfa] út í veður og vind,“ eintómir órar hins glataða andófsmanns sem er „dæmdur í útlegð, uns ævin þver / og eilífðin fær [hans] sál,“ eins og segir í ljóðinu „Sýnir“.

„Þannig er það,“ segir ljóðmælandi Steins um gangverk skaparans og kinkar kolli, fram í tímann, til Billy Pilgrim, sögumanns Sláturhúss 5 — sögu bandaríska rithöfundarins Kurt Vonnegut úr annarri heimstyrjöldinni — sem lætur fræg kjörorð kæruleysisins falla í hvert sinn sem volæði og dauða ber á góma: so it goes, segir hann vel yfir hundrað sinnum í bókinni. „Þannig er lífið,“ bætir okkar maður við og vinkar til jarðyrkjumannsins Kaíns, elsta sonar Adams og Evu, líkt og hann birtist í ljóði hins breska Byrons lávarðar; öllu angistarfyllri en þeir Billy og nafnlaus ljóðmælandi Steins þegar hann ýlfrar út í alheiminn að „þetta [sé] lífið! — Strit!“

Og mennirnir græða og mennirnir tapa á víxl,
og mönnum er lánað, þó enginn skuld sína borgi.
Um malbikuð strætin berst múgsins háværa ös,
og Morgunblaðið fæst keypt niðr' á Lækjartorgi.

Í dag, tæpri öld síðar, er Morgunblaðið enn prentað — og finnist það ekki á Lækjartorgi fæst það hjá kaupmönnum á alltumlykjandi malbikinu. Og gott betur: svo að segja hver einasti maður þræðir sig daglega eftir veggjum völundarhússins með blaðið — í einni mynd eða annarri — í vasanum, í lófanum, í eyrunum, fyrir augunum, í kolsvartri skuggsjánni dýpst á botni vitundarinnar; ekki endilega málgagnið eina með stóru m-i, en aðra miðla með önnur nöfn sem segja sömu fréttir. Fregnir af hamförum og heimsósóma, striti, skelfingu og sársauka, en um leið linnulausum tilraunum mannsins til að breyta hlutskipti sínu til hins betra — skref fyrir skref í átt að Nýju Jerúsalem. Framtíðarnefndir, fjórða iðnbyltingin, sýndarheimar og smáforrit; orkuskipti, átómatísering, algrím og stafræna ambáttin Alexa; ný samskiptaform og netvæðing alls þess sem botnvarpa framfaratogarans getur í sig látið; allt þetta og miklu meira til er sagt munu auðvelda manninum lífsbaráttuna — ef ekki hreinlega binda enda á harkið — svo göldrótt að lífshamingjan taki veldisvaxtarkipp fyrir vikið.

En svo kemur hann alltaf aftur:

Miðvikudagur. — Og lífið gengur sinn gang,
og gangur þess verður víst hvorki aukinn né tafinn.
Dagbjartur múrari eignaðist dreng í gær,
í dag verður herra Petersen kaupmaður grafinn.

Einn borinn, annar borinn til grafar. „Mold ert þú og til moldar skalt þú aftur hverfa!“ Dauðinn og brauðið — og þannig áfram eftir árfarvegum endurtekningarinnar. „Ég lifi,“ segir Kaín við Lúsífer í ljóði Byrons, „en lifi til að deyja.“ So it goes, bætir Billy Pilgrim við. Þannig er það.

***

Tæpum tveimur áratugum eftir útkomu Rauðs logans var Steini Steinarr varpað í skammarkrók íslenskra kommúnista fyrir þá sök að neita að ljúga; eða — eins og hann sjálfur komst að orði — neita að „láta loka [sig] inni í þeirri gaddavírsgirðingu [...] að þora ekkert að segja.“ Í viðtali við Alþýðublaðið, um ferð sína til Sovétríkjanna sumarið 1956, sagðist skáldið hvergi hafa orðið vart við sósíalisma þar, heldur miklu frekar „ofbeldi, ruddalegt, andlaust og ómannúðlegt.“ — „Fyrir okkur, svokallaða frjálsa menn,“ sagði Steinn, „gildir sama um Rússland og önnur lönd. Við höfum fullt leyfi til þess að segja það, sem okkur finnst sannast og réttast, án þess að því þurfi að fylgja neinar heimskulegar og móðursjúkar getsakir.“ Í kjölfarið var hann níddur í forystugrein Þjóðviljans, sagður forðast „að kveða upp nokkra rökstudda, sjálfstæða eða persónulega dóma,“ en útvarpa þess í stað síendurteknum rangfærslum annarra um fyrirheitna landið.

Þetta var ekki í fyrsta sinn sem Steinn var sakaður um að vera ekki nógu góður kommúnisti. Í ritdómi Kristins E. Andréssonar um Rauðan logann, skömmu eftir útgáfu bókarinnar, afgreiðir hann efa Steins og exístensíalisma sem eftirhreytur borgaralegs skáldauppeldis — andspænis sjónarmiðum marxismans, sem hann fullyrðir að Steinn geti þakkað þann þroska og dýpt sem finna megi í sumum ljóðanna, þó hann hafi ekki náð að tileinka sér þau „nema til hálfs.“ Afleiðingin, segir Kristinn, er að „í lífsskoðun [Steins] er enginn heilleiki.“

En það er eins með hina marxísku sannfæringu, sem ætlast var til af Steini í bundnu máli og lausu, og framfaratrúna sem í dag bylur á lesendum Morgunblaða allra stærða og gerða, þar sem stórfyrirtækjum og öðrum gróðasæknum markaðsöflum er einum sagt treystandi til að uppfylla drauma mannsins um stritminni tilveru; í heilli, efalausri trú — eða lífsskoðun, líkt og Kristinn kallar hana — felst oftar en ekki hættuleg einstefna, vísvitandi óvitund, afneitun á blæbrigðum lífsins og þversagnarkenndu eðli mannsins. Þegar Kristinn sakar Stein um stöðnun á veginum til marxisma — hann bregðist „þar sem reynir á kjark og skapfestu“ — krefur hann skáldið um hugmyndafræðilega útbreiðslu, frekar en hugsun. Þegar hann biðlar til Steins um að virkja hæfileika sína framvegis í „þjónustu“ verkalýðsins, um leið og hann hneykslast á því að „skáldið [sjái] alstaðar haustliti, þó að það sé að lýsa fylkingum verkalýðsins,“ kallar hann eftir ástandi sem Steinn lýsti tuttugu árum síðar — í frásögn sinni af ferðinni til Sovétríkjanna — þar sem „[f]lokkurinn ákveður hvernig mála skuli mynd, skrifa skáldsögu og yrkja kvæði.“

Og þegar leiðarahöfundur Þjóðviljans sparkar í Stein fyrir að gefa í skyn að í Sovétríkjunum hafi hann „séð eintómt myrkur um miðjan dag,“ horfir hann framhjá þeirri einföldu en oft tormeltu staðreynd að mannfélagið samanstendur af einstaklingum, og í líkömum einstaklinga býr alltaf eitthvað myrkur; sama hvað almanakið segir — sama hvað klukkan slær. Þannig er það.

***

Breski heimspekingurinn John Gray heldur því fram að þó útópísk stjórnmál leiði auðvitað ekki sjálfkrafa til alræðis, sé það alltaf raunin ef ríkisvaldi er beitt til að koma þeim í framkvæmd. En útópísk framfarastjórnmál dagsins í dag — þau sem einna helst eru kennd við umturnun hins mannlega hlutskiptis — eru ekki einungis keyrð áfram af ríkisvaldi, heldur einnig og enn frekar af auðmagni, sem í mörgum tilfellum er fyrir löngu orðið ríkinu yfirsterkara. Í dag gerir enginn flokkur tilkall til alvalds yfir því í þjónustu hvers skuli virkja hugsun, handverk og vinnu, heldur stórfyrirtæki og tæknirisar sem lofa minni leiðindum og meiri lífshamingju í skiptum fyrir ótakmarkaðan aðgang að einstaklingnum sem neytanda og söluvöru í senn — í ástandi sem kalla mætti alræði örgjörvanna. Hin háværa krafa um „trú á framtíðina“ og hugmyndafræðilega og verklega útbreiðslu tæknisamfélagsins sem gera á manninn frjálsan — ef ekki ódauðlegan — múlbindur einstaklinginn engu minna en gaddavírinn sem Steinn Steinarr hafnaði.

Með ofbirtu í augum og hlekki frelsisins um hálsinn fálmar maðurinn eftir fyrirheitna landinu uns eilífðin heimtar sál hans.

***

Miðvikudagur — og myrkur um miðjan dag. Alexa: kveiktu ljósin, læstu dyrunum, lokaðu á fréttirnar. Sýndu myndir af brjóstmylkingum. Leiktu líkræður undir.