Gengistryggð lán, svokölluð myntkörfulán, eru ólögleg samkvæmt dómi Hæstaréttar í dag. Þúsundir eru með slík lán, bæði vegna húsnæðis- og bílakaupa. Samtals mörg hundruð milljarða króna. Dæmt var samhliða í málum vegna lána frá SP-fjármögnun og Lýsingu. Í fyrra málinu er að dæmdi Héraðsdómur Reykjavíkur mann til að greiða SP-fjármögnun 4,3 milljónir króna. Sá dómur féll í desember. Síðari dómurinn féll í febrúar en þá dæmdi Héraðsdómur lán frá Lýsingu ólögleg og vísaði til laga um vexti og verðtryggingu. Hæstiréttur tók málin fyrir samhliða, enda snúast þau bæði um lán af því tagi sem kölluð hafa verið myntkörfulán, eða gengisbundin lán.
Þá er átt við það þegar skuldbindingar í íslenskum krónum eru tengdar við gengi erlendra gjaldmiðla. Slík lán voru mjög algeng í bílaviðskiptum og eins í fasteignaviðskiptum fyrir hrun.
Ekki er fullkomlega ljóst hversu há þessi lán eru í heildina. Í árslok 2008, eftir hrun, voru bílalánin samtals um 125 milljarðar króna og íbúðalánin um 225 milljarðar. Samanlagt um 350 milljarðar. Þessi tala hefur hækkað síðan þá.
Hæstiréttur hefur nú komist að þeirri niðurstöðu að erlendu bílalánin, eða myntkörfulánin, séu ólögleg. Hann dæmdi því skuldaranum í vil í báðum tilfellum í dag.
Björn Þorri Viktorsson, lögmaður stefnanda í máli gegn SP-fjármögnun, telur rétta niðurstöðu í slíkum málum vera þá, að lánþegar greiði upphaflegan höfuðstól tilbaka ásamt þeim vöxtum sem samið var um, og lánin verði þá leiðrétt miðað við stöðu þeirra að frádregnum greiðslum sem þegar hafi verið greiddar. Hann segir hæstarétt skera mjög afdráttarlaust úr um það að þetta séu lán í íslenskum krónum – að gengistrygging slíkra lána sé ólögmæt. Þá standi eftir að ákvarða í hvoru tilviki, hvort menn hafi raunverulega veitt lán í erlendri mynt og hvort erlenda myntin hafi skipt um hendur eða ekki. Björn telur að í flestum tilvikum sem varði einstaklinga sé það þannig að, erlend mynt skipti aldrei um hendur - heldur hafi menn fengið lánasamningana greidda út í íslenskum krónum. Hann segir það meginatriðið í því hvernig eigi að skýra samningana.