Sinfóníuhljómsveit Íslands lýkur starfsári sínu þetta árið með tónleikum í kvöld. Á efnisskránni eru verk eftir Mozart, Brahms og John Adams. Einleikarinn, Richard Goode, er þekktur fyrir túlkun sína á tónlist klassíska tímans. Hann segir að þó að fyndist, fyrir einhverja ótrúlega tilviljun, upptaka á leik Mozarts á eigin píanókonsert þá færi tónlistarfólk aldrei að herma eftir honum. Það myndi halda áfram að túlka Mozart eftir eigin höfði, af því hann er Mozart.

Richard Goode hefur um áratuga skeið verið í hópi fremstu tónlistarmanna Bandaríkjanna, en hann hefur einu sinni leikið áður á Íslandi, hélt einleikstónleika í Hörpu árið 2015. Í kvöld leikur Goode einleik með Sinfóníuhljómsveit Íslands undir stjórn hollenska stjórnandans Edo de Waart í einum af síðustu píanókonsertum Mozarts sem saminn var árið 1786 þegar tónskáldið stóð á hátindi ferils síns.

Tíunda eftir Beethoven?

Í síðari hluta tónleikanna, sem verða í beinni útsendingu á Rás 1, leikur sveitin sinfóníu Johannesar Brahms sem hefur stundum verið kölluð „tíunda sinfónía Beethovens“ enda þótti mörgum sem hann hefði með verkinu sannað að hann væri verðugur arftaki hins mikla meistara. Tignarlegt lokastefið á sér samsvörun í Óðnum til gleðinnar eftir Beethoven en þó fer Brahms í öllu sínar eigin leiðir og útkoman er einhver áhrifamesta sinfónía rómantíska skeiðsins. 

Fyrsta verkið á efnisskránni er síðan eftir bandaríska tónskáldið John Adams en það heitir Short Ride in a Fast Machine. Hljómsveitarstjóri kvöldsins er góður vinur tónskáldsins en þeir störfuðu saman hjá Sinfóníuhljómsveit San Fransisco forðum dag. 

Í þættinum Á leið í tónleikasal, sem má heyra hér að ofan, er rætt við einleikarann og hljómsveitarstjórann um verkin á efnisskránni og bandarískt tónlistarlíf. Bein útsending úr Hörpu hefst á Rás 1 kl. 19:30 en upphitunin hálftíma fyrr. Kynnir í útsendingunni er Guðni Tómasson.