Myndavél dróna sem Landhelgisgæslan hefur til umráða nýtist vel við eftirlit á fiski- og farþegabátum. Myndavélin fangar ýmislegt, eins og sést á meðfylgjandi myndbandi sem tekið var í síðustu viku austur af landinu af makríl- eða síldartorfum í sjónum.
Mannlaust loftfar sem Landhelgisgæslan hefur haft til umráða síðustu mánuði var í eftirlitsferð á dögunum og náði myndbandi af makríl- eða síldartorfum við austanvert landið.
Dróninn var fenginn að láni frá Siglingaöryggisstofnun Evrópu, EMSA, í vor og er hluti af samstarfsverkefni stofnunarinnar og Landhelgisgæslunnar. Hann er notaður við almennt eftirlit á hafi, löggæslu, leit og björgun og mengunareftirlit umhverfis landið.
Loftfarið er af gerðinni Hermes 900 og var tekið í notkun um miðjan apríl. Það flýgur fimm til sjö sinnum í viku frá Egilsstöðum ef flugskilyrði eru hentug. Aðspurður segir Ásgeir Erlendsson, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar að Egilsstaðir hafi orðið fyrir valinu vegna þess að þaðan sé stutt á miðin, flugskilyrði hentug og minni flugumferð en á höfuðborgarsvæðinu. Egilsstaðir séu því heppilegur staður.