Myndlistarmaðurinn Jónína Björg Helgadóttir opnar um helgina sýninguna Orlof sem fjallar um fyrstu mánuðina heima með nýfætt barn. Sýningin er sjötta einkasýning Jónínu Bjargar og fyrsta sýningin sem hún heldur eftir að eignast barn. Verkin á sýningunni byggja á upplifun hennar af móðurhlutverkinu og hvað gerist í huga konu í fæðingarorlofi.

 

Vinnustofan varð griðarstaður

Jónína segir að fyrsta verkið sem hún málaði eftir að sonur hennar fæddist fangi vel upplifun hennar af þessu tímabili. Verkið heitir Mjólkurkýrin og er mynd af konu með barn á brjósti. „Þar eru könnur fullar af mjólk sem dembast niður á brjóstin, af þvi svona leið mér rosalega mikið, ég var ekkert nema brjóst. Þá þurfti ég að koma hingað á vinnustofuna og finna mig aftur, af því þetta rými, þetta er bara ég, hér eru bara mín verk og algjörlega minn griðarstaður,“ segir Jónína. „Það var rosalega gott að koma hingað og fá að vinna úr öllu, sem mér fannst samt svo rosalega áhugavert, og í leiðinni ná að tengjast mér og klára sumar hugsanir, koma þeim frá mér.“

Mikill tími til að hugsa

Mörg verkanna á sýningunni byrjuðu sem myndir sem urðu til í höfðinu á Jónínu á meðan hún sinnti drengnum sínum, eins og þegar hún gaf honum brjóst. „Maður hefur ekkert að gera nema að hugsa og þá urðu til þessar myndir. Sumar lýsa beint þessari reynslu og sumar eru bara hvernig ég upplifði mig. Eins og ein þar sem ég sit eins og á naghring sem ég er búin að stækka upp, svo hann sé eins og uppblásinn hringur í sundlaug. Svona naghringur fyrir lítil börn þegar þau taka tennur. Fyrir aftan mig er sólsetur og risastór eyðieyja sem er í raun eitt risabrjóst,“ segir Jónína. 

 

 

Sýningin Orlof opnar í listarýminu Kaktusi á Akureyri föstudaginn 6. september kl. 20:00. Sýningin er aðeins opin þessa einu helgi, laugardag og sunnudag, milli klukkan 13:00 - 17:00.

Rætt var við Jónínu Björgu Helgadóttur í þættinum Sögur af landi á Rás 1. Viðtalið má heyra í spilaranum hér að ofan. Hægt er að hlusta á þáttinn í heild sinni á spilara RÚV.