Erlendir blaðamenn sem fylgdust með annarri æfingu Hatara í gær voru flestir mjög hrifnir af atriðinu og töldu það rjúka áfram í úrslitin. Björg Magnúsdóttir ræddi við þá í gær.
Fjölmiðlafólk frá ótal löndum var mætt í blaðamannahöllina þar sem Hatari náði að renna atriðinu þrisvar sinnum í gegn – og var það mál manna að hið síðasta hafi heppnast best. Rætt var við nokkra blaðamenn sem eru sérfróðir um Eurovision og koma meðal annars frá Þýskalandi, Grikklandi, Bandaríkjunum og Belgíu. „Það flýgur inn í úrslitin. Sá sem efast um það er klikkaður,“ sagði einn þeirra.
Flestir voru sammála um að atriðið sé mjög sterkt og komi til með að gera góða hluti í símakosningu almennings. „Ég elskaði allt við þetta. Þið eigið eftir að koma á óvart í Eurovision í ár,“ sagði annar og fullyrti að Hatari myndi lenda í einu af fimm efstu sætunum. Einn var þó ekki alveg jafn hrifinn. „Mér fannst það full djöfullegt og kunni ekki að meta það. Flutningurinn var góður. En þetta er ekki það sem ég vil sjá í Eurovision.“
Flestir sem rætt var við töldu að atriðið ætti eftir að fara í úrslit en sumir höfðu áhyggjur af áliti dómaranna. Skrýtin og óvenjuleg lög, eins og „Hatrið mun sigra“ er vissulega á Eurovision-mælikvarða, ættu oft erfitt uppdráttar hjá dómnefndunum. Þannig að stóra spurningin er: Eiga dómararnir eftir að elska Hatrið mun sigra?
Í spilaranum má heyra brot úr viðtölum við fjölmiðlafólk í blaðamannahöllinni á keppnissvæðinu meðan æfingin fór fram.