Kröfugöngur og mótmæli fóru fram á Vesturbakkanum og Gaza í dag þegar Palestínumenn minntust þess sem þeir nefna dag hörmunganna. Í Tel Aviv stendur Eurovision nú sem hæst en þar voru einnig mótmæli tengd Eurovison.
Palestínumenn á Gaza og Vesturbakkanum minntust í dag þess sem þeir kalla nakba-daginn eða dag hörmunganna. Á þessum degi árið 1948 var Ísraelsríki formlega stofnað. Í kjölfarið voru um sjö hundruð þúsund Palestínumenn gerðir brottrækir frá heimilum sínum. Vegna ólíks tímatals fögnuðu Ísraelsmenn stofnun ríkisins fyrir nokkrum dögum. Á Vesturbakkanum fóru fram fjölmennar kröfugöngur og á Gaza flykktust þúsundir að landamærunum við Ísrael og mótmæltu. Í Ísrael stendur Eurovision nú sem hæst og hefur það beint kastljósinu að ástandinu og háværar kröfur hafa verið um að listafólk sniðgangi keppnina.
Síðast í gær voru mótmælaaðgerðir í Tel Aviv sem Björn Malmquist fréttamaður og Freyr Arnarson myndatökumaður sáu á leið sinni í tónleikahöllina norður af miðborginni. Þar tóku sig ýmis samtök saman til að vekja athygli á málstað Palestínumanna og benda á andstæðurnar. Annars vegar í kringum Eurovision í Tel Aviv og hins vegar á Gaza-ströndinni.
Snýst í grunninn um land
Það eru aðeins um sjötíu kílómetrar niður á Gaza-ströndina frá Tel Aviv. Þar búa um tvær milljónir Palestínumanna við mjög erfiðar aðstæður, viðvarandi spennu og átök sem eiga sér afar langa og flókna sögu. Átökin milli Palestínumanna og Ísraela eru í grunninn átök um land og þau gæði sem því fylgja og þótt átökin sem af og til blossa upp við girðinguna við Gaza-svæðið séu áberandi í fréttum fjölmiðla, þá eru þau í rauninni ekki stóra málið í þessu samhengi, heldur landið; hver ræður yfir því og hver býr þar. Um þetta var rætt á fundi Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna um síðustu mánaðamót.
„Þegar ógn um ofbeldi vofir yfir, stækkun landtökubyggða, aðgerðir eru einhliða, innbyrðis klofningur á meðal Palestínumanna eykst og gagnkvæmt vantraust fer vaxandi versna stöðugt líkurnar á réttlátum og varanlegum friði. Vonur um að tveggja ríkja lausn verði að veruleika dofna stöðugt vegna vaxandi ótta um innlimun síðar meir,“ sagði Rosemary DiCarlo, fulltrúi Bandaríkjanna í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. „Við gerum aldrei né samþykkjum neitt sem stofnar öryggi okkar í hættu. Við viljum friðsama framtíð með nágrönnum okkar en öryggismálin eru ekki umsemjanleg og við ákveðum hvar við drögum þá línu,“ sagð Danny Danon sendiherra Ísraels hjá Sameinuðu þjóðunum.
Loftslagbreytingar skeyta engu um hvor er sterkari
En það er annað vandamál sem steðjar að Palestínumönnum, sérstaklega á Gaza, vandamál sem minna er talað um en mun á endanum einnig varða Ísraelsmenn hinum megin við landamæragirðinguna. „Í dag eru 97% grunnvatns á Gaza óhæf til manneldis og 30% sjúkdóma á Gaza berast með menguðu vatni. Þar sem rafmagn er að meðaltali virkt í fjóra klukkutíma starfa frárennslistöðvar ekki sem skyldi og jafngildi 34 sundlauga í fullri stærð af skólpi er sturtað í Miðjarðarhafið á degi hverjum. Við stöndum frammi fyrir sameiginlegri ógn vegna stríðsátka og vatnsskorts af völdum loftlagsbreytinga. Loftlagsbreytingar gera ekki mannamun og skeyta engu um hvor er sterkari eða veikari í átökunum. Aðgerða er þörf strax í dag,“ sagði Nada Majdalani framkvæmdastjóri samtakanna EcoPeace Middle East.