Samtök Grænmetisæta á Íslandi, Vegan samtökin og samtökin Hard to Port mótmæla í dag hvalveiðum í íslenskri lögsögu. Sérkennilegur hvalur, sem bar einkenni bæði langreyðar og steypireyðar, var dreginn á land í hvalstöðinni í Hvalfirði 7. júlí síðastliðinn og reyndist vera blendingur. Samtökin, sem standa að mótmælunum, biðla til fólks að „krefjast fullrar verndar á þessum mögnuðu dýrum sem færa hundruði þúsunda manna gleði og hrifningu á hverju ári,“ segir í tilkynningu.
Ítarlega var fjallað um blendingshvalinn í fjölmörgum erlendum fjölmiðlum og víða dregin upp dökk mynd af því að veiðst hefði hvalur við Íslandsstrendur sem talinn var vera blendingur steypireyðar og langreyðar. Í tilkynningu samtakanna segir að „afar sjaldgæf tegund hvals sem er blendingur af langreyð og steypireyð“ hafi verið drepin en það sýni hversu lítið eftirlit sé með hvalveiðum hér á landi.