Félags- og barnamálaráðherra kynnti fyrirhugaðar breytingar á þjónustu við börn- og barnafjölskyldur á ráðstefnu í Hörpu í morgun. Markmiðið með breytingunum er að samþætta öll þau kerfi sem koma að þjónustu við börn og barnafjölskyldur og á að gera með þrískiptu þjónustukerfi. Tillögurnar fela meðal annars í sér að sett verði sérstök löggjöf um þjónustu við börn og fjölskyldur. Samhliða þeirri löggjöf þarf að ráðast í ýmsar lagabreytingar.

Tillögurnar voru mótaðar á löngum tíma af fulltrúum allra stjórnmálaflokka og ráðuneyta, að sögn Ásmundar Einars Daðasonar, barna- og félagsmálaráðherra. „Markmiðið með þeim er bæði að tryggja þjónustu fyrr gagnvart börnum og ungmennum, það er að segja með því að stigskipta kerfinu og  koma fyrr inn með þjónustu í staðinn fyrir að missa unga fólkið okkar yfir á þyngra þjónustustig. Eins á að tryggja samfellu og samstarf milli kerfanna þegar kemur að þjónustu við börn vegna þess að það hefur verið allt of mikið um að börn hafi fallið á gráa svæðið í velferðarþjónustunni þó að margir séu að gera gott,“ sagði ráðherra í viðtali í beinni útsendingu í hádegisfréttum. Stefnt er að því að leggja löggjöfina fram á þessu þingi. Nú er verið að skrifa hana. 

Meðal helstu áskorana við þessar breytingar er að löggjöfin heyri inn á svið margra, það er ráðuneyta, sveitarfélaga og ýmissa stofnana. „Við þurfum líka að tryggja að það komi fjármagn á öðrum stigum og taka umræðu um það hvernig sú kostnaðarskipting eigi að vera í þessu nýja kerfi. Og síðast en ekki síst þá munu í framhaldi fylgja grundvallarbreytingar á mörgum lögum, til að mynda varðandi félagsmálaráðuneytið þá held ég að þetta séu breytingar á alla vega fjórum lagabálkum.“