Stærstur hluti íbúa Mósúl í Írak, sem flúðu þegar Íslamska ríkið hertók borgina, er enn á vergangi. Tveimur árum eftir að herinn náði borginni aftur á sitt vald er hún enn nánast rústir einar.

Í byrjun júlí 2014, fljótlega eftir að hryðjuverkasamtökin sem kenna sig við íslamskt ríki höfðu náð yfirráðum yfir borginni - predikaði leiðtogi samtakanna, Abu Bakr Albaghdadi, af svölunum á al-Nuri moskunni í gömlu borginni og sagði Mósúl höfuðborg nýs kalífadæmis.  Vígamenn samtakanna og írakski herinn áttu svo eftir að heyja harða bardaga um borgina í heil þrjú ár. Í júlí 2017 óskaði þáverandi forsætisráðherra Íraks hermönnum til hamingju með sigurinn. 

Stærstur hluti flóttfólks enn á vergangi

En borgin sjálf, ekki síst hin sögufræga gamla borg í Mósúl sem eitt sinn var fögur ásýndar, var nánast orðin rústir einar. Nú tveimur árum síðar er ekki mikla breytingu að sjá. Einhverjir hafa snúið aftur, en langstærstur hluti þeirra hundruða þúsunda sem neyddust til þess að leggja á flótta er enn á vergangi og á ekki afturkvæmt í bráð en sumir eiga ekki annarra kosta völ en að snúa aftur heim þar sem fátt bíður þeirra. 

Hernaðarlegur sigur á Íslamska ríkinu var jafnvel auðveldi hlutinn af þessu öllu saman. Það varð strax ljóst að gríðarlega mikil og kostnaðarsöm uppbygging þyrfti að eiga sér stað. Enn í dag skortir nánast alla innviði í borginni og litla atvinnu er að fá. Fólk er mjög þreytt á ástandinu og reiði íbúa virðist aðallega beinast að stjórnvöldum í Írak, sem hafa verið sökuð um spillingu. Það er að peningar sem eigi að fara í uppbyggingu í borginni rati ekki á réttan stað. En stjórnvöld segjast vera að gera allt sem þau geta og hafa biðlað til alþjóðasamfélagsins um hjálp við það að byggja borgina upp aftur.

Tekur líklega 10 ár að bara að hreinsa

Sameinuðu þjóðirnar hafa sagt að það gæti tekið um 10 ár bara að hreinsa borgina, fjarlægja sprengjur og rústir bygginga sem voru jafnaðar við jörðu í átökunum. Um 70% borgarinnar eyðilögðust eða skemmdust og Mósúl er næststærsta borgin í Írak. 

Einnig er deilt um hver eigi að greiða fyrir uppbygginguna. Uppi eru kröfur um það að allir sem tóku þátt í því að eyðileggja borgina taki einnig þátt í kostnaði. Líklegast er erfitt að fá Íslamska ríkið til þess að greiða fyrir uppbygginguna en ásamt stórnarher Íraks átti bandalag leitt af Bandaríkjaher hlut að máli.  Erfitt er að meta heildarkostnað við uppbyggingu Mósúl en að sögn Sameinuðu þjóðanna er áætlaður kostnaður um 230 milljarðar á ári.