Myndlistarkonan Anna Júlía Friðbjörnsdóttir sýnir nú verk sitt utan á gömlu Loftskeytastöðinni á Melunum í Reykjavík, þar sem Náttúruminjasafn Reykjavíkur er nú með skrifstofuaðstöðu. Þar sendir Anna Júlía skilaboð með ljósaseríu og morskóða til umheimsins, en sýning hennar er einnig í safnaðarheimili Neskirkju þar skammt frá. Sýningin vekur hugsanir um trú, náttúru, búsvæði sjávarspendýra og samspil manns og náttúru.

„Þetta er merkilegt hús,“ segir Anna Júlía um Logskeytastöðina gömlu á Melunum, við hliðina á Veröld – húsi Vigdísar, þar sem útsendari Víðsjár hittir hana á fallegum en frostköldum vetrarmorgni.

„Húsið er byggt árið 1918 og þá er í fyrsta skipti hér á landi hægt bæði að senda loftskeyti og taka á móti þeim. Þá kemst þjóðin í fyrsta sinn í þráðlaust samband við umheiminn. Ég er búin að hugsa lengi um þessa sögu og þetta hús og ákvað að setja þessa fínu ljósaseríu á húsið sem er í rauninni morskóði. Þá eru ljósaperurnar í raun að stafa kóðann, sem var auðvitað notaður til að koma skilaboðum til skipa á hafi úti á sínum tíma héðan frá stöðinni.“

Samtal manns og náttúru

Skilaboðin utan á húsinu eru í raun einföld, þau stafa nöfn tveggja hvalategunda sem eru á válista íslenskra spendýra: Íslandssléttbakur og steypireyður. Nöfnin standa þar reyndar á latínu: Eubalaena glacialis og balaenoptera musculus.

„Ástæðan fyrir því að ég valdi þessa hvali er sú að þau hér í Náttúruminjasafninu hafa verið að vinna með íslandssléttbakinn og sögu hans og eru að reyna að stefna að því að fá bein hans heim frá Kaupmannahöfn. Verkið heitir síðan K - með ósk um svar, sem er sérstakt kallmerki í morskerfinu og oft notað á eftir skilaboðum. Þetta er náttúrulega hugsað með skammdegið í huga, en ég komst að því eftir á að loftskeytin drifu lengra í myrkri en í birtu. Svo er náttúrulega bara gaman að senda skilaboð til hvalanna, þessara stóru vitrænu dýra, í stað skipanna. Þetta er því samtal milli manns og náttúru.“

Leit af náttúru og guði

Verkið utan á Loftskeytastöðinni er aðeins hluti sýningar Önnu Júlíu sem einnig er uppi í safnaðarheimili Neskirkju skammt frá. Í gluggunum þar notar listakonan áfram ljósaseríur til að senda skilaboð út í heiminn. Þar stendur til dæmis í morskóða: „Ég hef misst sjónar af þér,“ en það er einmitt heiti sýningarinnar í heild.

„Hver má skilja það alveg eins og hann eða hún vill, en þetta fer vissulega í annað samhengi hér,“ segir Anna Júlía sem bendir á að ljósi tákni á öðrum stað í glugganum FC2, sem þýðir í kerfinu: „Gefðu upp stöðu þína með sjónrænu merki.“ 

„Merkin eru hluti af alþjóðlegri handbók um merkjasendingar. Stærstu siglingaþjóðir heims koma sér saman um kerfið en það hefur verið í þróun frá miðri nítjándu öld, svo þróast það mikið í heimsstyrjöldunum og er svo aftur einfaldað.“

Náttúran tekur til máls

Inni í safnaðarheimilinu hefur Anna Júlía útbúið lágmyndir á vegg, þar sem hún hefur unnið eins konar steingervinga úr heimi sjávar sem virðast taka til máls og beita fyrir sig morskerfinu.

„Hérna er sem sagt náttúran að svara kallinu. Þetta er auðvitað leikur þar sem óljóst hvort við erum í deginum í dag, fortíðinni eða framtíðinni. Við segjum ekkert um það. Ég valdi þannig tæknileg skilaboð úr þessu merkjakerfi sem mér þóttu ljóðræn og geta staðið ein og sér. Síðan virka þessar lágmyndir eins og steintöflur og kveikja kannski tengsl við ýmis skilaboð fortíðar, hvort sem það kunna að vera boðorðin, híeróglýfur eða önnur skilaboð sem við lesum og reynum að geta okkur til um merkinguna.“